Sumir hlæja

Ég hlæ upphátt 5-6 sinnum á dag. Þ.e.a.s. ef ég hef félagsskap, ég hlæ sjaldan ein. Sumum finnst beinlínis óþægilegt að fara með mér í bíó eða leikhús af því að ég hlæ svo mikið og stundum ein í þokkabót. Í gær var mér sagt að ég hlæi stundum að einhverju sem er ekkert fyndið.

Og þá fór ég að hugsa um húmor. Af hverju hlæjum við? Mér koma nokkrar skýringar í hug. Halda áfram að lesa

Allt að gerast

Gifsveggur með einangrun verður að teljast ívið betri kostur en masónítplata. Hátíðasalurinn (sem sumir hafa af fávisku sinni kallað því óvirðulega nafni bakherbergi) hefur stækkað um 3 borð. Það verða nóg verkefni fyrir Saumfríði á næstunni.

Þjóðin vildi sjá stjörnur …

… en á þessum svartasta degi lýðveldisins lýsti himinn yfir þjóðarsorg.

Og á þessum tíma almennrar upplýsingar, slagaði Þjóðin niður Vesturgötuna, gapti upp í nornina sem stóð úti og samhryggðist landinu sínu og spurði: af hverju er rafmagnslaust?

Uppfært til skýringar: Tilefnið var viðburðurinn Slokkni ljós kvikni stjörnur Sama dag hófst vatssöfnun í Hálslón.

Lúxus nútímamannsins

-Þegar ungum manni er illt í pólitíkinni og maður getur ekkert gert til að laga það…
-Þegar maður veit af ósögðum orðum að honum er meira illt í erfiðri ákvörðun en pólitíkinni og gæti ekki létt honum þá ákvörðun þótt maður vildi…
-Þegar það eina sem maður getur gert er að vera til taks og það lagar samt ekkert…

Í velmegunarsamfélagi verður það samlíðunin með Ástu Sóllilju í heiminum.

Siðfræði dagsins

Man ekki hvar ég heyrði þessa sögu …

Einu sinni var lítil, feit mús sem hélt að hún væri fugl. Dag nokkurn var hún að leita sér að æti en það gekk fremur hægt þar sem hún var stöðugt gónandi upp í loftið til að gá hvernig gengi hjá hinum fuglunum. Allt í einu kom hún auga á glæsilegan örn sem sat í makindum hátt uppi í tré og virtist ekki þurfa að gera nokkurn skapaðan hlut. Halda áfram að lesa

I feel pretty!

Það er bara heppni að fá fokdýra ullarkápu í stærð 34 á 70% afslætti. Og bara af því að það var maí, var ég næstum því hætt við að kaupa hana.

En nú er að koma vetur og hún er hlý og hún passar á mig og svo er hún rauð líka.

Mighty mouse bjargar deginum

Ég verð ekki símalaus á næstunni eins og ég reiknaði með. Það er nefnilega hægt að fá réttar upplýsingar og jafnvel þjónustu í þokkabót hjá Símanum, ef maður á í nánu vináttusambandi við einn þeirra örfáu starfsmanna sem vita eitthvað um símkerfi.

Ég hringdi í innanhússmanninn. Það eina sem þurfti að gera var að kaupa nýtt kort og segja gamla númerinu upp. Ef ég hefði fengið réttar upplýsingar hjá þjónustuverinu, hefði ég getað gert þetta sjálf en elskulegur vinur minn tók 20 mínútur af matartímanum sínum í að redda málunum. Ekki 10 daga, heldur 20 mínútur.

Hryðjuverk dagsins

Ég veit um mann sem hefur lagst svo lágt að hrella litla telpu með óbeinum hótunum um að drepa gæludýrið hennar. Auðvitað er eitthvað mikið að manninum en geðsýki gefur engum rétt til að beita nokkra veru tilgangslausu ofbeldi, hóta því eða gefa slíkar hótanir í skin.

Viðkomandi drulluhali hefur nú fengið skýr skilaboð og mun væntanlega fá nett frekjukast á næstunni. Mér þykir óendanlega vænt um þann sem sýndi þá framtaksemi sem þurfti til þess.

Uppfært til skýringar: Maðurinn í næsta húsi hafði sett upp skilti með mynd af afhausuðum hundi. Haukur fjarlægði það.

Í dag er ég glaður

Málarinn er sannkallaður hvalreki. Í dag stækkaði hann salinn sem sumir hafa af fávisku sinni kallað því tilkomulitla nafni bakherbergi. Hnuss!

Það er ótrúlegt hverju tveir karlmenn, glussatjakkur og verkfærasett geta áorkað. Einn veggur horfinn og í stað hans fæ ég hljóðeinangrað klósett, loftræsingu og meira rými. Heilbrigðiseftirlitið á eftir að gráta af gleði. Leirbrennsluofninn búinn að fá hlutverk, rúmskriflið hans Helga farið og sófinn kominn niður í kjallara í staðinn. Ekki nóg með það heldur galdraði hann burtu allar innréttingarnar, spónaplötunar, speglana og hjólaborðin hans Helga en samt er alveg jafn mikið pláss í kjallaranum og áður. Ég veit ekki í hverskonar fullkomnun þetta endar.
Vííí!

Að hætti Nönnu

Málarinn bauð mér í Krómhjartarsteik, sem ég hef ekki borðað fyrr og dásamlegusu kartöflumús sem ég hef bragðað. Ég veit ekki alveg hvort ég á fremur að beina matarást minni að Málararnum eða Nönnu en það er bara eitthvað svo rétt við þessa samsetningu að ég hlýt að elska einhvern fyrir hana.

Ég elska líka Stúdentafélag Háskóla Reykjavíkur en það er af allt öðrum ástæðum.

Þú bara kláraðir!

Eva: Ég pantaði vörur frá ykkur fyrir viku en þær hafa ekki borist.
Heildsalinn (gremjulega með útspýttum fráblásturshljóðum): Já þetta er bara ekkert til.
Eva: Ég pantaði margar tegundir, áttu ekki neitt af því sem ég bað um?
Heildsalinn (á barmi frekjukasts): Nei nei, þú kláraðir lagerinn síðast.
Eva (með ískaldri kurteisi):Afsakaðu ónæðið, ég leita bara eitthvert annað. Halda áfram að lesa

Meiri kynning

Í ágúst birtist viðtal við mig í norsku tímariti. Í dag kom franskur kvikmyndagerðarmaður með fríðu föruneyti. Hann er að gera kvikmynd um fegurð og ég átti sumsé að skilgreina „innri fegurð“ og tengsl hennar við galdur. Ég sagði honum sem satt er að „innri fegurð“ hefði nú bara verið fundin upp til að hugga ljóta fólkið. Svo sneri ég viðtalinu upp í tengsl feminisma og gandreiða.

Fjölmiðlar eru góðir við mig. Ekki bara íslenskir fjölmiðlar. Ég er svona að velta því fyrir mér hvaða áhrif það hefði ef ég kæmi mér upp alvöru athyglissýki.

Af hverju skeit hann í bælið sitt?

-Það sem angrar mig mest er að skilja ekki hvað gerðist. Hvað er fólk að hugsa þegar það gerir einmitt það sem það veit að maður þolir ekki, án þess að maður hafi neitt til saka unnið og án þess að hafa af því nokkurn ávinning? Það er ekkert réttlátt, rökrétt eða skiljanlegt við þetta dæmi, sagði ég, sem alltaf hef talið skilning forsendu þess að jarða málið, a.m.k. þegar engin iðrun er í sjónmáli.

-Ég veit það, sagði bróðir minn Mafían sem sjálfur á það til að fremja hvílíkar rökleysur að maður stendur bara agndofa og hristir hausinn. Ég sperrti eyrun. Kannski var bróðir minn að færa mér þennan eina lykil sem ég á eftir að mastera til að geta talist beinlínis kaldrifjuð.

-Sannleikurinn er sá að maður er ekki að hugsa neitt, sagði hann. Maður er búinn að koma sér í aðstæður sem eru ekki fullkomnar, ekki það sem maður vildi helst í augnablikinu. Maður hugsar ekki ár fram í tímann, ekki viku, stundum ekki einu sinni klukkutíma fram í tímann. Maður er ekki að hugsa um rétt eða tilfinningar annarra, langtímaafleiðingar fyrir sjálfan sig, hvað annað fólk mun segja um mann eða hvað verður um ruslið sem maður skilur eftir. Maður bregst bara við af einhverkonar örvæntingu. Bara eins og hamstur sem étur afkvæmi sín eða köttur sem tekur upp á því að skíta í bælið sitt. Það er það sem gerist þegar fólk flytur úr leiguíbúð án þess að segja leigunni upp og þrífur ekki einu sinni eftir sig, þegar fólk hættir bara að mæta í vinnunna, þegar fólk hættir að opna póstinn sinn, slítur samböndum upp úr þurru, lýgur að ástvinum sínum, vanrækir börnin sín, eyðir mánaðarlaunum í kókaín eða ríður 14 ára krakka. Það er engin pæling á bak við það elskan, bara dýrsleg viðbrögð og þú færð aldrei betri skýringu en það.-Skiptir ekki máli hvað þú kallar það. Sumir venjast því bara að fara alltaf erfiðustu leiðina og þeir fara ekkert í manngreinarálit, ekki frekar en sýklar og vírusar. Það skiptir engu máli hvort þú átt það skilið eða ekki.
-Og hvernig í fjandanum er hægt að verjast fólki sem hegðar sér eins og vírusar?
-Þú getur t.d. reist þér kofa efst í Himalajafjöllum og einangrað þig algerlega frá umheiminum.

Kannski það já, kannski það.
Eða þá að horfast í augu við að maðurinn er dýr.
Og losa sig við kattarófétið um leið og það tekur upp á því að skíta innan dyra.

„All of this and some of that´s the only way to skin a cat“
Í dag er síðasti dagur tunglmánaðar. Í kvöld ætla ég að grafa holu.

Sprungið

Eitt vont gerir margt gott.
Margt vont ætti þá að gera eitt frábært.

Húsnæðið er sprungið. Það er vont mál sem kemur til af góðu. Þótt þrengslin séu til vandræða hefur það stóra kosti að fá stóra hópa. Það er miklu hagkvæmara fyrir mig en að vera bundinn yfir 6 eða 7 hræðum öll kvöld vikunnar. Reyndar er skemmtilegra að fá litla hópa en þar sem Bragi er hlaupin í mig reikna ég hvort sem er með að skemmta mér betur með honum en í vinnunni á næstunni. Halda áfram að lesa

Maður fær ekki allt

Þekking á tæknilegum atriðum hjálpar vissulega. Æfing, -nauðsynleg.

Þegar upp er staðið er þetta samt líka spurning um þessi 3% sem kallast hæfileikar. Ég fæ dálítinn kjánahroll þegar snillingur á sínu sviði, opinberar fullkomið getuleysi sitt á einhverju öðru, sama hvort það er í ædólinu eða á öðrum vettvangi. Maður hefur einhvernveginn meiri væntingar til afburðafólks.

Kannski eru allir blindir á sjálfa sig. Kannski er best að vera ekki framúrskarandi í neinu.

Drjúg eru morgunverkin

Enginn veit hvað átt hefur fyrr en flutt hefur, segir Stefán og má það til sanns vegar færa.

Það sama á við um microcosmos tölvunnar. Ég var að flytja skjöl í nýjar möppur og komst þá að raun um að ég á 6 galdra sem ég var búin að gleyma og hafa aldrei farið út af heimilinu. Aukinheldur hálfunna ljóðabók sem var mér svo rækilega gleymd að ég hélt andartak að hún væri eftir einhvern annan. Ánægjulegur fundur. Ég hef verið steingeld allt of lengi en nú er kominn útgangspunktur.

Eitt vont gerir margt gott. Það er lögmál sem ég plantaði fyrir löngu og er stöðugt að sanna sig.