Sumir hlæja

Ég hlæ upphátt 5-6 sinnum á dag. Þ.e.a.s. ef ég hef félagsskap, ég hlæ sjaldan ein. Sumum finnst beinlínis óþægilegt að fara með mér í bíó eða leikhús af því að ég hlæ svo mikið og stundum ein í þokkabót. Í gær var mér sagt að ég hlæi stundum að einhverju sem er ekkert fyndið.

Og þá fór ég að hugsa um húmor. Af hverju hlæjum við? Mér koma nokkrar skýringar í hug.

A) Til að tjá lífsgleði. Börn hlæja meira en fullorðnir og það er ekki af því að þau hafi meira skopskyn. Þau hafa hinsvegar minni áhyggjur eða hafa kannski bara ekki vit á því að láta sér líða illa að ástæðulausu. Þau þurfa ekki húmor. Þau hlæja af því að það er gaman að hlæja.

B) Til að gefa röng eða ruglandi skilaboð eða breiða yfir erfiðar tilfinningar. Í fornsögunum okkar er hlátur ekki endilega merki um gleði, spaug eða vellíðan. Forfeður okkar virðast helst hafa hlegið þegar þeim var síst hlátur í hug. Hlátur getur verið fyrirboði hefndar, tákn fyrirlitningar eða heiftar. Hlátur getur þannig verið kuldalegur eða háðslegur. Hann getur einnig verið uppgerð til að leyna raunverulegri líðan eða sýna kurteisi.

C) Oftast er hlátur viðbrögð við kæti eða fáránleikatilfinningu sem vaknar þegar hlutirnir eru settir í óvenjulegt samhengi, dregið fram sjónarmið sem er á skjön við alvöru málsins eða staðalmyndir ýktar. M.ö.o. viðbrögð við því sem okkur finnst fyndið.

Ég held að mér sé óhætt að fullyrða að í 8 skipti af hverjum 10 sem ég hlæ, sé ástæðan sú að mér finnst eitthvað fyndið. Samt er ekki hægt að segja að ég hafi mikið skopskyn. Margt af því sem almennt er viðurkennt fyndið, er svo fjarri mínum húmor að ég á í verulegum vandræðum með að sjá lógíkina í því að finnast það spaugilegt. Skopskyn mitt lýsir ekki neinni góðgirni. Það sem mér finnst fyndið hefur oftar en ekki yfir sér kaldhæðnislegan blæ, ég get alveg gert grín að heimsku og eymingjaskap en samt sé ég sjaldan neitt fyndið við slys, ofbeldi, kúk og piss, prump og ælu, splatter eða kynþáttafordóma. Samt hljóta þessháttar brandarar að vera mjög fyndnir fyrst þeir eru svona vinsælir.

Tíðni og innileiki hláturs er reyndar ekki góður mælikvarði á skopskyn. Sumir hlæja ekki endilega þótt þeim finnist eitthvað fyndið og ég held að sé fremur sjaldgæft að fólk hlæi í einrúmi. Ef ég hlæ meira en meðalmaðurinn er það semsagt ekki af því að ég hafi meira skopskyn, heldur sennilega bara vegna þess að ég er úthverf og hef tilheigingu til að tjá tilfinningar opinskátt.

Hvað er annars átt við með góðu skopskyni? Er átt við mikið skopskyn, t.d. það að sjá skemmtilegu hliðina á því þegar lítið barn sker sig á rakvélarblaði eða þegar fordómar snúast upp í grimmd og grótesku? Er átt við hæfileika til að skemmta öðrum eða hæfileika til að gefa öðrum þá tilfinningu að þeir séu skemmtilegir? Er átt við hæfni til að koma stöðugt auga á nýjar hliðar og setja þær fram á kómískan hátt eða að kunna stórt brandarasafn utan að? Er átt við það að hafa nógu góða almenna þekkingu og orðaforða til að grípa hugmynd á lofti og setja hana í nýtt samhengi? Er kannski bara átt við tilhneigingu til að hlæja upphátt? Hvort hefur sá betra skopskyn sem getur sagt brandara sem fær fólk til að veltast um af hlátri en er þungur á brún þess á milli, eða sá sem gantast stöðugt og heldur öllum í kringum sig brosandi en vekur sjaldan hlátur?