Fyrirlestur um illskuna

Einhver dýpsta speki bókmenntasögunnar kemur fram í Hafinu.

-Hefurðu einhverntíma vitað mann, sem misnotar ekki aðstöðu sem hann er í aðstöðu til að misnota?

Árni kallinn ku víst vera uppreistur. Hversu margir ætli þeir séu sem hafa vit á því að hylja slóð sína nógu vel til að þurfa ekki á því að halda að vera reistir upp. Hversu margir eru annars í aðstöðu til að misnota aðstöðu sína? Halda áfram að lesa

Morkinskinna

Yndið mitt

Öllum konum finnst gaman að heyra að þær séu sexý. Hvort sem það stenst eður ei. Ég veit að ég get litið þokkalega út í þröngum gallabuxum og finnst það gaman. Hitt get ég sagt þér að æskudýrkun á sér mjög svo rökréttar skýringar. Konur verða alveg jafn ógeðslegar með aldrinum og karlar. Lærin á mér minna á Hraun í Öxnadal og þótt ég sé ekki stór, hefur Málarinn stórkostlegt vinnurými á bringunni á mér og næstum niður að mitti án þess að mjólkurkirtalbungurnar séu að þvælast fyrir. Halda áfram að lesa

Nýtt leikrit

Líkami minn var skekinn eldingu þegar rann skyndilega upp fyrir mér að leikritaskrif síðustu ára höfðu fleiri hliðar en ég áttaði mig á og að höfundur verksins var þar ginningarfífl númer eitt, tvö og tíu. Maður heldur að maður sé að skrifa sápuóperu tilveru sinnar en kemst að raun um að maður er fastur í einhverri allt annarri sápuóperu þar sem aðrir hafa skrifað fyrir mann hlutverk sem er manni ekki að skapi. Ég efast æ meira um raunveru mína utan vefsögunnar. Hef bókstaflega engst af ógeði, skrifað eins og vindurinn, svitnað og skolfið, skitið og ælt, þambað vatn í lítravís til að þorna ekki upp. Slitið hjartanu jafn mikið á tveimur dögum og í venjulegri álagsviku. Samt ekki komið miklu í verk. Halda áfram að lesa

Nett pirrandi…

…er nokkuð lýsandi orðalag þegar 22ja manna kaffihópur frestar dæminu, eftir að ég er búin að baka 3 tertur sem ég hef ekki frystipláss fyrir, hafna öðrum hóp, afþakka matarboð og kalla Lærlinginn í kvöldvinnu. Part af programmet auðvitað en ekki alveg minn uppáhaldspartur. Bót í máli að þetta skuli gerast akkúrat eftir tveggja nátta geðprýðiandvöku.

Þetta verður samt góður dagur. Mammonsmessa í undirbúningi (ég verð einhvernveginn að þakka honum fyrir Búðarsveininn, það er dæmi sem skítvirkar) og fullt af góðum hlutum alveg, alveg, alveg að fara að gerast.

Tjúúúún!

Stundum held ég að ég sé orðin svo sjóuð í því að takast á við ákveðin tilfinningaferli að ég geti hlaupið yfir viðkomustöðvar. Mér fer fram, vissulega. Í dag staldra ég t.d. við afneitun í tvo eða þrjá tíma og kyngi svo, í stað þess að taka marga mánuði í að velta mér upp úr efum sömtum og jáenum eins og fyrir 10 árum. Halda áfram að lesa

Kýrhausinn

Sumir eru heppnari en aðrir en enginn er alltaf heppinn. Sá sem virðist alltaf heppinn er að öllum líkindum búinn að skipuleggja heppnina fyrirfram. Á mannamáli heitir það að svindla. Það er heldur enginn alltaf óheppinn. Það er mjög erfitt fyrir venjulegt fólk að skilja hversvegna sumir virðast skipuleggja óhöpp en það er til. Alveg eins og fólk sem meiðir sig viljandi.

Lífið er saltfiskur

Maðurinn sem kryddar allt með salvíu er að koma í bæinn. Mér skilst á Önnu að hann sé jafn girnilegur og saltfiskurinn sem hann eldar og hún hefur mun heilbrigðari hugmyndir um karlegan þokka en ég.

Sjálf sé ég ekkert nema fermingardrengi. Ég er svo hrifin af fermingardrengjum að ég safna þeim. Ég á fulla skápa af léttsöltuðum fermingardrengjum. Stundum hef ég fermingardreng í matinn.

Það hlýtur að teljast mjög borgaraleg nautn.

Og alltaf verð ég jafn hissa

Í dag fékk ég fréttir sem leiddu mig að alveg nýrri niðurstöðu um eðli mannsins.

Konur eru akkúrat og nákvæmlega jafn miklir fávitar og karlmenn!

Munurinn er sá að þegar karl gefur skít í mig fæ ég enga skýringu. (Nema kannski búllsjittskýringu eins og þegar gaurinn flutti út af því að hann þurfti endilega að eignast börn (en sagði mér það ekki fyrr en EFTIR að ég fór í ófrjósemisaðgerðina) og hefur ekki verið við kvenmann kenndur síðan.) Kona sem gefur skít í mig hefur hinsvegar skýringu. Jafnvel tvær skýringar og báðar góðar. Reyndar svo frábærar að ég er ekki bara sátt, heldur beinlínis glöð fyrir hennar hönd.

Svo kemur bara í ljós að þessar frábæru skýringar standast ekki. Hvorug þeirra. Og í þokkabót er ég síðasta manneskja á jarðríki til að frétta það.

Ég held að ég sé að ná þessu:
Hlutirnir eru venjulega nákvæmlega eins og þeir virðast vera.

Fríhyggjan

-Fullvissan er fiskur, sagði ég.
-Gerðist hún þá skáldleg mjök, ok undraðist öll alþýða manna háfleygi hennar, svaraði Drengurinn.
-Hál, þú veist. Gengur þér úr greipum. Og ef þú nærð að landa henni þá bara deyr hún. Þú getur tekið heppilegar ákvarðanir eða snjallar en þú getur aldrei verið viss um að eitthvað sé fullkomlega rétt.
-Þessu er ég nú bara ekki sammála. Mér finnst jólafrí t.d. vera fullkomlega rétt. Mér hefur fundist það frá því að ég lærði orðið jólafrí.
-Þar komstu með það. Jólafrí. Það er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Hver þarf trúarbrögð eða pólitík ef hann hefur jólafrí? Heimspekistefna er fædd.
-Já, sagði Drengurinn, eða stjórnmálastefna. Við skulum kalla hana fríhyggju.

Ænei

Fokk í helvíti, ég held að ég sé að veikjast. Líkaminn sennilega að stilla sig inn á að nú sé frí framundan og þá megi leggjast í aumingjaskap. En hann skal ekki komast upp með það. Þótt ég þurfi að skilja mína vösku galdramenn eftir með tómar hillur og ómerkta tepakka til að ná 10 tíma svefni (svefn læknar allt nema ástsýki), SKAL ég vera keik þegar Anna sækir mig í fyrramálið.

Maður má fá sumarfrí á þriggja ára fresti án þess að fá samviskubit. Og þótt það væru meira en þrír dagar.

Skáldsagan sem ég ætla að skrifa

Þegar ég skrifa skáldsögu verður einn kaflinn á þessa leið.

-Hurru, Valgerður, það var að koma bréf. Hann Grímur Björns er með eitthvað vesen.
-Jæja. Og hvað er það nú?
-Æi, bara þetta sama. Stíflan getur lekið og allt voða hættulegt og við græðum ekkert á þessu og jaríjarí.
-Ekkert nýtt sumsé?
-Nei ekki þannig en Grímur er nottla enginn lopapeysuhippi, þannig að við verðum líklega að láta liðið halda að við tökum mark á honum.
-Skrambans. Þurfum við þá að funda um þetta eða eitthvað?
-Tja, ætli við verðum ekki að koma aðeins inn á þetta, svona formsins vegna.
-Gess só.
-Viltu kíkja eitthvað á þetta?
-Guð minn góður nei, ekki ef ég kemst hjá því. Er annars nokkur ástæða til þess?
-Nei, ekki nema þér leiðist.
-Ókei. Reynum að afgreiða þetta bæði snyrtilega og snarlega.

Kikkið

Mér finnst gaman að vera flink í einhverju. Mér finnst gaman að líta vel út. Mér finnst gaman þegar fólk heldur að ég sé klár,

En ekkert af þessu gefur mér sama egóbústið og það að eiga eignir umfram skuldir.
Og það gerir mig að kapítalista þótt mig langi ekki sérstaklega til að horfast í augu við það.

Að búa við persónunjósnir

Það er langt síðan ég fékk staðfestingu á því að sími Byltingarinnar var hleraður. Hélt fyrst að þetta væri paranoja í honum en ég á vini á réttum stöðum og þetta ku víst vera tilfellið. Eða var það allavega um hríð. Hann ræðir ekkert sem máli skiptir í þann síma svo það er eins líklegt að menn telji tíma og fé lögreglunnar illa til þess varið að komast að raun um hvort þessi ógnvaldur þjóðarinnar ætli að hitta afa og ömmu eða kaupa skólabækur eftir hádegið. Halda áfram að lesa