Bara að gera ykkur greiða

Vinkona mín átti einu sinni tengdamóður sem var mjög góð kona. Stundum of góð. Allavega áttaði vinkona mín sig á því hvað blessaðri konunni hlaut að líða illa í góðmennsku sinni, þegar barn sem hún þekkti ekki og hafði aldrei séð, hringdi í hana og þakkaði fyrir fermingargjöfina. Vinkona mín kom af fjöllum. Þetta var frænka mannsins hennar, hann hafði ekki séð hana síðan hún ver tveggja ára og vinkona mín aldrei. Þeim var boðið í fermingarveisluna hennar úti á landi. Hvorugt þeirra taldi þennan útskriftardag ókunnugrar telpu úr Þjóðkirkjunni, nógu mikilvægan til að taka þriggja daga frí og útvega gistingu úti í hundsrassi og auk þess voru þau frekar blönk. Þau ákváðu að senda skeyti og láta þar við sitja. Halda áfram að lesa

Af menningarlífi mínu margháttuðu

Má vel vera að það sé lítt við hæfi að staupa sig á dönskum brjóstdropum og íbúfeni á Vínartónleikum en só bí itt, það hefði verið ennþá verra að hósta. Ég var búin að kaupa miðana og strákarnir vildu ekki nota þá svo ég dró Sigrúnu með mér.

Skemmti mér konunglega þrátt fyrir snýtupappír í annarri hendi og hóstamixtúru í hinni. Meðalaldur tónleikagesta var líklega 65 ára. Ég er nú dálítið hissa á því að sjá ekki fleira ungt fólk á svona léttum og skemmtilegum tónleikum sem gera í raun engar kröfur um að maður hafi „vit“ á tónlist til að njóta þeirra. Skil heldur ekki hverslags ómenning er eiginlega hlaupin í Darra. Haukur hefur aldrei verið neinn sérstakur áhugamaður um tónleika nema þá bara eitthvert dauðarokk og annan viðbjóð en við Darri vorum fastagestir í Salnum í fyrravetur og nú virðist hann algerlega búinn að missa áhugann. Frekar sorglegt finnst mér.

 

Laust

Það er ekki hægt að vera hamingjusamur án ástar. Sama þótt þú lærir allar sjálfshjálparbækur veraldar utan að. Trúið mér, þær ljúga. Ef fólk væri hamingjusamt án ástar, væru allir einhleypir, því það er vissulega þægilegra og einfaldara líf. Ég endurtek, það er ekki hægt að vera hamingjusamur án ástar. Samt er reyndar alveg hægt að vera einhleypur án þess að visna upp af óhamingju. Það er ekkert auðvelt en það er hægt. Það er hægt að elska og vera elskaður þótt maður sé einhleypur. Ekki almennilega en samt nógu mikið til að lifa af. Halda áfram að lesa

Tsssjúh!

Áður en ég fór í jólafrí sagði ég Búðarsveininum að ég ætlaði að nota tækifærið og taka út öll veikindi sem mætti búast við næsta árið fyrst ég væri heima í afslöppun hvort sem væri. Ég veiktist þó ekki fyrr en í gær og er búin að vera eins og draugur í dag. Hnerrandi draugur með hálsbólgu. Druslaðist ekki í vinnuna fyrr en um 11 leytið. Við Anna vorum búnar að plana skrabblkvöld en ég ákvað að fara frekar heim í bælið og ná þessu úr mér.

Fullt tungl í dag. Ég eyddi einu símanúmerinu enn úr gemsanum mínum. Það er ótrúlega árangursríkur smágaldur sem útheimtir hvorki þekkingu né viljastyrk.

 

Hreinar línur

-Þegar maður er frávik skiptir máli að einhver skilji mann. Þú skilur mig betur en nokkur annar. Allavega hefur enginn verið jafn góður við mig og þú.
-Næs að heyra skjall en ég er ekki nógu vitlaus til að kaupa það. Þú segir þetta til að styrkja jákvæða hegðun svo ég verði ennþá betri við þig,
sagði hann og kímdi.
-Ég er að tala í einlægni elskan mín, og ég hef ekki einu sinni ástæðu til að skilyrða þig því nú verðum við að slíta þessu sambandi.
-Já. Þig vantar maka og ég er fyrir þér. Halda áfram að lesa

Nú er nóg komið!

Lauslega áætlað hef ég, á síðustu 9 dögum, troðið í minn litla skrokk tæpu kílói af kjöti, minnst 200 gr af feitum osti, hálfum lítra af rjóma og öðru eins af ís, lítra af borðvíni og 1 dl af púrtvíni, þremur lítrum af kaffi og 500 gr af súkkulaði, fyrir utan mjólk, smjörsteikt grænmeti og hvítt brauð (líka með smjöri). Lítið hefur hinsvegar farið fyrir jurtaseyði, hráu grænmeti og ávöxtum og þótt rækjur séu kannski skárri en kjöt geta þær tæpast talist heilsufæði þegar búið er að kaffæra þær í mæjonesi og sýrðum rjóma. Á þessum tíma hef ég borðað samtals eina máltíð sem er beinlínis hægt að kalla heilsusamlega. Halda áfram að lesa

Áramótakveðja

Heillaóskir í upphafi nýs árs sendi ég öllum sem eiga skilið að njóta hamingju og velgengni. Megi börn ykkar blómstra, bankareikningar ávaxtast og heilbrigði, skemmtilegheit og sköpunarkraftur einkenna líf ykkar.

Skíthælar og ógeðspöddur mega mér að sársaukalausu upplifa verulega skítt ár og fólin sem réðust á frænda strákanna minna án tilefnis, í nótt og höfuðkúpubrutu hann sér til skemmtunar vona ég að eigi eitthvað verra í vændum en íslenskt réttarkerfi býður upp á.

Hið ljúfa líf

Búin að fylla kalkúninn, bleyta tertuna, taka rækjurnar úr frysti, koma víninu í kæli, skúra yfir íbúðina og strauja kjólinn. Er endurnærð en fór samt seint á fætur. Það er helvíti fínt að liggja í bælinu að ástæðulaustu svona 3 morgna á ári Einnig búin að skrifa dreifingarstjórum Blaðsins og Fréttablaðsins þar sem ég geri þeim grein fyrir áramótaheiti mínu um að uppræta flæði ruslpósts inn á heimili mitt (skrifleg afþökkun á póstkassanum er iðulega að engu höfð) þótt það kosti það að ég þurfi að hella heilu vörubílshlassi af rusli á tröppurnar hjá þeim.

Ég sárvorkenni fólkinu sem setti jólatréð upp 10. desember og er komið algjört ógeð á því núna. Það er góð ástæða fyrir því að ég byrja seint að jóla. Jólin standa nefnilega til 6. janúar og ég hef gert það að venju að njóta hvers einasta jóladags. Það eru varla fleiri en 50 nálar hrundar af trénu mínu enn og mér líður svooo vel hérna heima. Ætla að leggjast í dekurbað með andlitmaska og leggjast svo í bóklestur með kertaljósum púrtvíni og nougatkonfekti alveg þar til ég þarf að fara að hræra í sósunni.

Hversu fullkominn getur einn gamlársdagur orðið?

Blysganga F.Í.

Herragarðsdaman ætlaði úr bílnum við Klepp þegar við ókum Hauki í vinnuna í dag. Sagðist ætla í gönguferð. Eftir Sæbrautinni í roki og rigningu. Prrhfrr. Haukur hafði talað um að spítalinn væri nálægt sjónum og hún hefur líklega séð fyrir sér fagra fjöru úr íslenskri bíómynd. Ég fékk hana til að hætta við, enda var ég sjálf búin að plana gönguferð með henni og held að ég geti fullyrt að henni hafi nú þótt blysgangan mun áhugaverðari upplifun. Halda áfram að lesa

Rambl

Ég er úthvíld! Loksins! Hef sofið rúmar 70 klst frá því að ég lokaði búðinni kl 10:30 á Þoddlák. Það er hellingur. Hef ekki gert neitt sem gæti með góðu móti flokkast sem vinna síðan á jóladag, nema að elda einn grænmetisrétt, hengja upp úr tveimur þvottavélum (æxlið er ekkert að hjaðna) og fara með einn ruslapoka í Sorpu. Ég er svo hress að ég gæti hlaupið ef ég sæi ástæðu til þess. Ég ætla samt ekki að hreyfa mig fyrr en magadansnámskeiðið byrjar eftir áramót, enda hef ég ekki lagt það í vana minn að safna spiki þessa einu viku, skil ekki alveg það rugl að éta yfir sig bara af því að tíminn heitir jól. Halda áfram að lesa

Kannski frekar hvað maður gerir EKKI

Þegar Haukur var 6-7 ára sagði hann mér, all-hneykslaður að einhverjir kjánar í skólanum héldu því fram að fólk ætti það til að hafa mök þótt það kærði sig alls ekki um fleiri börn og notaði jafnvel „asnalega blöðru“ til að koma í veg fyrir getnað. Það lá við að drengurinn sykki niður úr gólfinu af skömm þegar ég sagði honum að þessir kjánar hefðu reyndar nokkuð til síns máls en hann náði fljótt áttum og sagði:
-Ég er samt feginn að þú og pabbi eruð allavega ekki svoleiðis. Halda áfram að lesa

Þytur

Jarðfræðingurinn kemur í dag og verður hjá okkur yfir áramótin. Byltingin fer svo með henni út til Bretlands eftir áramótin til að sjá ættarsetrið og fjölskylduna áður en hann fer út í heim að leita sér frægðar og frama. Mér finnst hálfótrúlegt að sonur minn Byltingin skuli vera í tygjum við breska aðalskonu en Jarðfræðingurinn ólst upp (og býr enn) á herragarðinum sem er fyrirmyndin að Fúsastöðum í „Wind in the Willows“ og langafi hennar var kveikjan að Fúsa.

Ég er búin að tilkynna Hauki að ég óski eindregið eftir því að fá barnabörn á meðan ég er ennþá í ástandi til að vera skemmtileg amma og þrátt fyrir stutt kynni við Jarðfræðinginn, hefur hann ekki aftekið það með öllu. Nú þarf ég bara að sannfæra Jarðfræðinginn um að hún vilji hvergi búa nema á Íslandi og helst í næsta húsi við mig.