Ástsýkisannáll

Ég var að fara yfir ástsýkisögu mín árið 2006.

Í byrjun janúar var ég fráhverf öllu karlmannsstandi, hreinlega steingeld en þann 15. febrúar er mig farið að langa í hjásvæfu í aðra röndina, ekki þó nógu mikið til að gera eitthvað í því.

Þann 5. mars grípur mig létt sambúðarnostalgía en það varir ekki nema einn dag.

Þann 29. apríl er eitthvað farið að vora í ástsýkigeninu. Allavega finnst mér ég tilbúin til að gera enn eina tilraunina til að verða mér úti um karlmann.

13. maí kasta ég fyrsta ástargaldri ársins 2006. Hann skilar strax fyrstu vikuna þeim árangri að nokkra steggi rekur á fjörur mínar, áreiðanlega ágæta menn. Ég fer á tvö stefnumót en hvorugur vekur áhuga minn. Á sama tíma ber sætan sölumann að garði. Hann dúkkar upp nokkrum sinnum næstu vikurnar. Gult ljós kviknar (spákona nokkur gæti gert nánari grein fyrir því) en sá er því miður ekki á höttunum eftir föstu sambandi.
Þann 1. júní sef ég hjá fávita sem ég ætla mér ekkert meira með, af skiljanlegum ástæðum.
6. júní rennur upp og ekkert bitastætt er í sjónmáli. Galdurinn sumsé ekki borið árangur. Ákveð að taka næst fram að ég óski eftir manni sem kæri sig um samband.

13. júní. Álfadrotting fer úr undirkjólnum en Elías kemur og truflar mig, heldur því fram að hann, barnlaus maðurinn, hljóti að vera svarið við seiðgóli mínu.
6. júlí; Boeing þota bar hann upp í skýin.

10. júlí; þriðja tilraun til ástargaldurs. Indæll maður verður hrifinn af mér en hormónaflæðið í mér er jafn stíflað og sorprennan hennar Önnu. Næst þarf ég líklega að taka fram að það eigi að vera maður sem mig langar að sofa hjá. Ég ákveð að hætta þessu kukli í bili.

21. ágúst er ég orðin frávita af ástsýki en hef ekkert viðfang til að beina ástsýki minni að.
24. ág er sæti sölumaðurinn kominn á fast. Ég bít mig í hnúana yfir því að hafa tekið mark á honum þegar hann sagðist ekkert langa í fast samband. Líklega hefði ég allavega reynt ef ég hefði ekki trúað honum.

Allan september og október er ég með karlmenn á heilanum en læt galdra eiga sig enda stjórnast ég meira af hormónum en skynsemi.
21. okt; býð fundarlaun fyrir réttan maka og á í kjölfarið nokkur deit sem engu skila.

9. nóv kasta ég fjórða ástargaldri ársins (þeim þriðja sem er eitthvað að marka því ég var trufluð í eitt skiptið). Í þetta sinn geri ég ekki bara kröfu um að maðurinn sé fullkominn, heldur líka að hann vilji fast samband og að mig langi að sofa hjá honum. Tæpum þremur vikum síðar (það tekur galdurinn ca þrjár vikur að skila árangri) kynnist ég yndislega sætum og skemmtilegum strák sem uppfyllir öll skilyrðin og segist allavega vera skotinn í mér. Ég tek fram fávitafæluna til öryggis og þann 19. desember (þremur vikum síðar en fávitafælan er einmitt ca þrjár vikur að verka) segir hann mér að þrátt fyrir að vera drulluástfanginn af mér, vilji hann ekkert með mig hafa. Ævintýrin enda úti í mýri.

Nú er ég í sömu sporum og síðustu áramót. Hef nákvæmlega engan áhuga á tegundinni. Fann það samt eitt út á árinu sem skiptir máli:
-Það er rugl sem ég hélt lengi að almennilegir karlmenn verði bara ekki skotnir í mér. Þeir verða það alveg, það er bara ég sem hef ekki áhuga á þeim.

Eins gott að ég er laus undan þeirri geðsýki að verða brjálæðislega ástfangin af fávitum. Nú orðið missi ég áhugann um leið og viðkomandi kemur upp um fávitahátt sinn.
Tilveran er eins og gamalt tyggjó.

 

One thought on “Ástsýkisannáll

  1. ———————————–

    Ekki góð auglýsing fyrir áhrifamátt ástargaldra.

    Gleðilegt nýtt ár:)

    Posted by: handsomedevil46 | 31.12.2006 | 12:05:00

    ———————————–

    Galdurinn hefur skilað mér vonbiðlum í hvert einasta sinn. Það er ekkert að galdrinum heldur er það ég sem verð bara ekkert skotin í þessum mannkostamönnum sem dúkka upp í hvert sinn sem ég kasta ástargaldri.

    Posted by: Eva | 31.12.2006 | 16:17:05

    ———————————–

    gleymir liklega að galdra á ástina í þér

    Posted by: Anonymous | 1.01.2007 | 2:37:41

Lokað er á athugasemdir.