Herragarðsdaman ætlaði úr bílnum við Klepp þegar við ókum Hauki í vinnuna í dag. Sagðist ætla í gönguferð. Eftir Sæbrautinni í roki og rigningu. Prrhfrr. Haukur hafði talað um að spítalinn væri nálægt sjónum og hún hefur líklega séð fyrir sér fagra fjöru úr íslenskri bíómynd. Ég fékk hana til að hætta við, enda var ég sjálf búin að plana gönguferð með henni og held að ég geti fullyrt að henni hafi nú þótt blysgangan mun áhugaverðari upplifun.
Fólk byrjaði að safnast að 20 mínútum eftir auglýstan tíma og eftir korters pauf við að kveikja á kyndlum kom gaur með harmónikku. Göngumenn muldruðu nokkur jóla- og áramótalög niður um hálsmálin döprum rómi og um það leyti sem fyrstu kyndlarnir voru uppbrunnir var loksins haldið af stað. Sumstaðar stoppað til að hreyfa varirnar við harmónikkuundirleik á leiðinni. Jólasveinar voru á randi í Öskjuhlíðinni og uppi við Perlu stóðu þeir fyrir dagskrá, afar langri.
Veðrið var gott, auðvitað æðisleg stemning að ganga um Öskjuhlíðina með logandi blys og flugeldasýningin var stórkostleg. Daman fékk þarna á einu bretti íslenska menningu með öllu sínu tafsi og töfum, kyndilgöngu um mjóan skógarstíg, sem yrði aldrei veitt leyfi fyrir í Englandi hinu græna og flugeldasýningu.
Hárið á mér varð fyrir blysskaða. Ég fann að einhver klappaði mér á kollinn og það var þá kona sem hafði tekið eftir því að það var að brenna. Sviðalyktin gýs upp í hvert sinn sem ég snerti það. Grey Hlynur sem elskar sítt hár og sagði mér síðast þegar ég kom til hans að hann væri með „vaxtarplan“ fyrir hárið á mér. Hann reddar þessu áreiðanlega með einhverri djúpnæringu og töfratrixum, hann er svo flinkur.
Skondið annars. Þegar ég var búin að gúggla af mér allan grun um tónleika eða annað áhugavert, hringdi ég í Upplýsingamiðstöð ferðamanna og spurði hvort væri nokkuð um að vera í kvöld sem væri sniðugt að sýna útlendingi. Sú sem ég talaði við benti mér á að skoða djamm.is. Darri er að spila við jungfrúna núna. Held að það sé nær lagi. Allavega hlæja þau bæði.
_________________________________
ég hefði getað bent ykkur á fína tónleika í gær…
Posted by: hildigunnur | 30.12.2006 | 0:22:44
_________________________________
Ooooooooo. En í kvöld?
Posted by: Eva | 30.12.2006 | 10:30:20