-Þegar maður er frávik skiptir máli að einhver skilji mann. Þú skilur mig betur en nokkur annar. Allavega hefur enginn verið jafn góður við mig og þú.
-Næs að heyra skjall en ég er ekki nógu vitlaus til að kaupa það. Þú segir þetta til að styrkja jákvæða hegðun svo ég verði ennþá betri við þig, sagði hann og kímdi.
-Ég er að tala í einlægni elskan mín, og ég hef ekki einu sinni ástæðu til að skilyrða þig því nú verðum við að slíta þessu sambandi.
-Já. Þig vantar maka og ég er fyrir þér.
-Nei, þú ert ekki fyrir mér. Í augnablikinu vantar mig reyndar ekki mann enda nýbúin að fá upprifjun á eðli tegundarinnar en þar fyrir hefur þú aldrei hindrað mig í því að leita mér að maka. Málið er bara að ég er farin að sakna þín ef ég sé þig ekki í meira en viku og þá tilfinningu ætla ég ekki að næra.
-Mmmm. Þótt ég skilji þig og sé góður við þig er ekki þar með sagt að ég sé sá rétti fyrir þig, það flækir málin.
-Það er ekkert flókið við það. Ég hef enga ástæðu til að fela þig þótt ég eignist kærasta. Það eina sem flækir málið er sú staðreynd að þú átt konu sem má ekki vita um mig.
-Jú sá faktor spilað auðvitað inn í, ég viðurkenni það.
-Þú ert semsagt að sparka mér?
-Nei elskan, ég mun aldrei sparka þér. Ég er bara að reyna að stjaka þér nógu langt frá til að hindra að ég verði háð nærveru þinni. Auðvitað máttu alltaf hafa samband við mig ef þú þarfnast mín eða átt sérstakt erindi.
-Það virkar ekki þannig Eva. Ég þarf skýr skilaboð. Ef ég má hringja þegar ég á erindi þá bara bý ég til erindi. Og hvernig á ég að hafa samband ef það felur í sér formlega viðurkenningu á því að ég þarfnist þín? Ég er mjúkur maður ollræt, en ég er samt með typpi. Í alvöru talað, þú verður að setja mælanleg mörk, annars geng ég bara á lagið.
Mælanleg mörk segirðu. Það hljómar rökrétt. Það eru mjög skýr mörk á milli „botnaðu setninguna sem ég er byrjuð á og deildu með mér öllum þínum hugsunum “ og „ekki hringja, skrifa eða horfa í áttina til mín“. Ástin mín þú veist hvað þú ert að gera. Nú á ég að taka að mér að vera þessi sem ræður ekki við lágmarkssamskipti án þess að það hafi eitthvað dramakast í för með sér. Ég á velja á milli þess að sýna besta vini mínum grimmd eða gangast sjálfviljug undir stöðu hjákonunnar. En heldurðu í alvöru að ég sjái ekki við þér? Heldurðu að ég þekki ekki tegundina?
Svo hér er díllinn hjartað mitt, einu mælanlegu mörkin sem virðast nokkurnveginn sanngjörn; hringdu, sendu tölvupóst, komdu til mín, huggaðu mig, leitaðu til mín, faðmaðu mig, hlæðu með mér, hvíslaðu að mér, kysstu varir mínar, gerðu það sem þú veist að gæti komið mér til, gerðu hvað sem er elskan mín, allt sem þú vilt geturðu fengið; bara með þessu eina skilyrði að þú látir konuna þína vita af því.
Eru það nógu skýr mörk?
————————————-
hljómar kýrskýrt
Posted by: baun | 3.01.2007 | 15:18:21