Kæri Grímur

(Tilefni þessarar færslu var komment frá einhverjum Grími um að það að ég teldi lögregluna vera að fylgjast með mér bæri vott um vænisýki.)

Kæri Grímur
Þú ert algert rjómabollurassgat.

Mér hlýnar alltaf dálítið í hjartanu þegar ég fæ svona mikla athygli frá aðdáendum mínum.
Hvað segirðu annars, bara brjálað að gera í vinnunni? Halda áfram að lesa

Dilemma

Horfi á þig, alla leið inn í mjúku, brúnu augun þín. Veit að þú ert að gera mistök. Veit að þú ofmetur færni þína. Veit að þú hefur ekki efni á að læra af reynslunni í þetta sinn.

Ég gæti boðið þér aðstoð mína. En ég veit að það myndi særa stolt þitt.

Þykir mér nógu vænt um þig til að særa þig?

 

Rúðubrotsmálið

Allt sem ég hef að segja um rúðubroin núna um áramótin er á moggablogginu mínu. (Sem nú er einnig aðgengilegt á Pistlinum)
Ég hef haft lítinn tíma til að sinna persónulegum málum undanfarið en nú eru að gerast þannig hlutir í lífi mínu að líkur eru á að sápuóperan verði bráðum meira í ætt við þá sem lesendur mínir til langs tíma eiga að venjast.

 

Fimm

Skrýtin þessi tilfinning, þegar manni er að byrja að þykja vænt um einhvern og er meðvitaður um að maður ræður algjörlega hvað maður gerir við þá tilfinningu.

Maður getur nært hana eða svelt, riðið á vaðið eða beðið átekta.

Og þegar maður vill hvorugt er alltaf hægt að kyssa hann á ennið og kanna viðbrögðin.

Hvort eitthvað er úr þeim lesandi er önnur saga.

Jól að bresta á

Í gamla daga var tilgangur jólanna sá að hafa einn dag á ári þegar allt átti að vera dýrðlegt. Fullkomið. Nóg að borða og maturinn m.a.s. góður. Allt hreint. Allt upplýst, og dálítið af fallegu skrauti til að gleðja augað. Tilefni til að nota sparifötin og allir áttu að fá eitthvað nýtt. Frí frá öðrum verkum en þeim nauðsynlegustu. Ponkulítil gjöf handa hverjum og einum. Allir glaðir. Fólk hlakkaði til þessarar hátíðar í margar vikur. Halda áfram að lesa

Öflug löggæsla

Það er greinilega engin kreppa hjá löggunni. Nema Vesturgatan sé orðin svona ægilega hættuleg allt í einu. Það er bara stöðug umferð löggubíla hér fram hjá.

Kannski þeir séu bara að gæta þess að enginn leggi upp á gangstétt. Bifreiðastöðubrot er glæpur.

Orðsending til appelsínugulu slæðunnar

Að rita gullaldarmál er góð skemmtun. Slíkt er þó jafnan hjákátlegt ef sá sem á pennanum heldur kann ekki almennileg skil á nútíma íslensku.

Sé skáldið nýbúi sem aðeins hefur dvalið á landinu skamma hríð, væri ráð að bera texta undir meðalgreint skólabarn áður en hann er sendur viðtakanda. Einkum á þetta við þegar viðtakandi er lítt næmur fyrir nafnlausum skilaboðum en fyllist hinsvegar svæsinni viðurstyggð þegar hann sér illa skrifaðan texta.

(Tilefnið var hótun sem rituð var á appelsínugula slæðu og bundin á handfangið á hurðinni að Nornabúðinni)

Uppeldið

Reiður maður: Svo læturðu strákinn draga þig með sér í þessa vitleysu.
Móðir Byltingarinnar: Það er nú reyndar ég sem er mamman hérna.
Reiður maður: Ég held að þú ættir þá að reyna ala þennan son þinn betur upp.
Móðir Byltingarinnar: Nú? Setti hann bífurnar upp á borð? Já það er satt, þótt hann sé pólitískt séð vel heppnaður þá hefur mér ekki tekist að kenna honum umgengnisreglur.
Reiður maður: Þú veist vel hvað ég er að tala um. Svona fyrir utan það að þetta kann ekki einu sinni að þrífa sig.
Móðir Byltingarinnar: Þessi er minn elskaði sonur sem ég hef velþóknun á.

Hann frussaði eitthvað sem er ekki birtingarhæft og lagði svo á.

Haukur handtekinn

haukur_hilmars.jpg

Það er hrein og klár valdníðsla hvernig að þessu er staðið og greinilegt að tilgangurinn er sá að kippa honum úr umferð fyrir mótmælin í dag.

Hópur fólks ætlar að ganga að lögreglustöðinni á Hverfisgötu strax eftir mótmælafundinn á Austurvelli í dag og lýsa óánægju sinni með þessi vinnubrögð. Ég hvet alla til að mæta, bæði á Austurvöll og að Hlemmi á eftir.

mbl.is Bónusfánamaður handtekinn

Handtekinn vegna orðróms?

Mér voru að berast óstaðfestar fréttir af því að raunverulega ástæðan fyrir skyndilegri handtöku Hauks í gær, væri, eins og viðmælandi minn orðaði það ‘vegna gruns um meintan ásetning’. Í fréttablaðinu í gær kemur fram að samkvæmt ‘orðrómi innan lögreglunnar’ ætli einhverjir harðkjarnamenn að efna til óeirða í dag.

Haukur hefur að vísu aldrei verið viðriðinn neitt sem með góðum vilja mætti flokka sem óeirðir en lítill fugl hvíslaði því að félaga mínum að ‘orðrómurinn’ snerist um hann.

Fávitar!