Tjara

Þegar fréttamaðurinn kveður hefur löggan opnað húsið. Eða nei, þeir hafa ekki opnað. Þau brutu upp hurðina?! Halló! Hvað er að gerast? Er lýðurinn búinn að brjóta sér leið inn? Já það ber ekki á öðru og allt í einu er ég í anddyrinu klemmd inni í þrönginni.

Líkast því að upplifa jarðskjálfta. Maður hefur enga stjórn. Allt getur gerst. Hugurinn á undan atburðarásinni. Slow-motion áhrif. Heyri högg. Sé veglega spýtu smjúga á milli og lenda með krafti á hurðinni. Þetta er bíómynd um gamaldags byltingu. Múgurinn brýtur sér leið inn í kastalann. Kóngsins menn svara með heitri tjöru.

Gusa í andlitið. Er hann að skvetta á mig vatni? Heyri öskur og fólk ryðst út í tryllingi. Nei þetta er ekki vatn, mig svíður í munninn. Og augun. En þetta var ekki úði, heldur buna.

Komin út og finn að óttinn er að ná tökum á mér. Andlitið á mér logar og augun… Missi ég sjónina? Neinei, þeir geta ekki beitt efnum sem skaða. Eða hvað? Áttu þeir ekki að gefa út viðvörun? Þeir fara ekki eftir reglum, þetta getur ekki átt að vera svona sárt.

Þarfnast einhvers. Karlmanns. Núna. Bruninn eykst smám saman. Verð að loka augunum. Er skelfingu lostin og veit að ég er í hættu á að missa stjórn á mér og þarf á einhverjum að halda sem ræður við að róa mig. Þarfnast þess jafn sárlega og ég þarfnast vatns.

Þvinga mig til að opna augun. Jú ég sé ennþá. Og þarna kemur hann. Ég sé móta fyrir honum og þegar augun lokast aftur er hann hjá mér.

 

Best er að deila með því að afrita slóðina

One thought on “Tjara

  1. ——————–

    Táragas vs. piparúði. Hver hefur vinninginn?

    Posted by: Alexander | 23.11.2008 | 16:32:30

    ——————–

    táragas er lofttegund og fýkur burt. ágætt til notkunar í logni
    sprengja það inní stóran hóp.
    en ekki hægt að miða því á útvalda.
    piparúði. er fljótandi efni og betra að miða því á útvalda.
    til varnar skal nota júgursmyrsl og lita það með matarlit því þannig má skreyta bæði hár og andlit. auðvelt að þvo af með ódyrrari sápu og volgu vatni.
    muna eftir sundgleraugum og rykgrímum sem fást í öllum byggingarvöruverslunum.

    Posted by: gaddi | 23.11.2008 | 17:34:03

    ——————–

    …ok…

    Posted by: maria | 23.11.2008 | 23:25:38

    ——————–

    Mig langar að vita hvort að sektargjald Hauks var lækkað með tillliti til þessarra fjögurra daga sem hann fékk að afplána áður en það var ekki lengur pláss fyrir hann í fangelsinu hér um árið? Mér finnst þessi bútasaumsafplánun nefnilega jaðra við súrrealisma!

    Posted by: Unnur María | 24.11.2008 | 17:41:45

Lokað er á athugasemdir.