Stundum drekkum við stöllur mörg köff -og enginn tekur það nærri sér.
Stundum eru mörg drösl heima hjá mér, ef maður sé í letikasti… -engin viðbrögð.
Ein af mínum bloggkunningjakonum huxar daxdaglega -aldrei hafa lesendur hennar tilkynnt geðbólgur vegna þess.
Önnur zetur z víðazt hvar -og enginn taugadrullar á sig yfir því. Halda áfram að lesa
Hvað er í bíó?
Frábært að fá franska kvikmyndahátíð.
Ennþá betra væri það ef upplýsingar um myndir og sýningatíma væru almenningi aðgengilegar. Dagskráin sem er birt á netinu er nefnilega öll í rugli, vantar inn í upplýsingar um myndir, dagsetningar stemma ekki við vikudaga og sýningatímar virðast vera á einhverju flakki líka. Allavega var allt önnur mynd í boði en sú sem var auglýst á netinu þegar við Darri fórum í bíó á föstudagskvöldið.
Myndin sem við sáum (óvart) heitir Falinn og er verulega góð en það skyggði aðeins á að tæknimenn sem sáu um sýninguna virtust vera algerir viðvaningar. Ég geri ekki miklar kröfur í þá veru en finnst samt skipta dálitlu máli að myndin sé á tjaldinu en ekki einhversstaðar annarsstaðar.
Ég ætlaði að sjá meira í dag en dagskráin á netinu er ekki áreiðanleg, ekki birt í fréttablaðinu eða á vef Háskólabíós og miðasalan svarar ekki síma.
Eru aðdáendur evrópskar kvikmyndagerðar virkilega svo örvæntingarfullir að þeir flykkist í bíó bara til að sjá eitthvað sem er ekki amerískt, jafnvel þótt þeir viti ekkert hvað það er?
Pella, gæja, gísa?
Viðfang giftingaróra minna heldur að það geti verið gaman að vera paur.
Ég hef oft velt fyrir mér hvað þetta orð merki og hvernig það hafi orðið til.
Kannski er það samsláttur úr pjakkur og gaur.
Höfuðpaurinn er þá aðalgaurinn, mesti pjakkurinn.
Kvenkyns paur hlýtur þá að vera pella. Samrunin pæja og gella.
Nema hún sé gæja?
Paurinn höstlaði gæjuna hljómar mun kúlla en pilturinn fékk stúlkunnar.
Gísa kemur líka til greina. Gella + skvísa.
Við nánari umhugsun er það líklega best.
Áramótaheitið ætlar að halda
Þegar ég mætti í fyrsta tímann reiknaði ég fastlega með því að meirihluti orkunnar færi í að halda mér í hver-ætti-svosem-að-mega-vera-að-því-að-góna-á-mig gírnum, slettandi appelsínuhúðinni meðal átján ára álfakroppa.
Það hefur samt lítið reynt á sjálfstraustið því flestar þeirra reyndust vera hinar húsmóðurlegustu júffertur og álíka kýrlegar í hreyfingum og ég sjálf. Annars fer orkan í að fylgjast með og reyna að samhæfa mjaðmir, arma og fótleggi svo maður má svosem ekkert vera að því að horfa á hinar.
Það merkilega er að ég þarf ekkert að hafa fyrir því að vera jákvæð. Ég hef ekki viljað slá neinu föstu um það fyrr, en nú er ég búin að mæta í fimm tíma og hlakka til að mæta á morgun. Án þess að hafa eytt svomiklu sem fimm mínútum í að heilaþvo sjálfa mig.
Það er semsé til hreyfing sem er skemmtileg í eðli sínu.
Magadans.
Menningarhelgi
Ég átti góða helgi með Darra (sem er eiginlega engin pysja lengur). Sáum Manntafl á laugardagskvöldið, ég heyrði söguna lesna í útvarpið þegar ég var krakki og hef alltaf hrifist af henni. Varð sannarlega ekki fyrir vonbrigðum með Túlíneus í öllum hlutverkum. Halda áfram að lesa
Viðskiptatækifæri
-Ég er orðin svo leið á þessu basli. Það er alveg sama hvað ég vinn mikið, ég á aldrei afgang, sagði hún.
-Trixið er fólgið í því að halda sama lifistandard þótt tekjurnar hækki, sagði ég. Ekki kaupa þér föt sem þig vantar ekki, tala meira í símann eða hafa dýrari mat þótt þú takir aukavinnu eða klárir að borga upp eitthvert lán.
-Ég veit það svosem, svaraði hún, og ég dáist að þér. Málið er bara að ég gæti ekki lifað eins og þú.
-Hvernig þá?
-Bara, gert aldrei neitt og borðað þennan mat sem þú borðar.
Halda áfram að lesa
Fullt tungl
Um jólin áskotnaðist seyðkonunni kjaftur einn góður. Eigi mun upplýst að sinni af hvaða skepnu hann er (þar sem getraun er yfirstandandi) en hann er að útliti eins og djöfullinn sjálfur. Halda áfram að lesa
Skrýtið ástand
Ég er hvorki að bíða eftir Elíasi né leita að einhverjum öðrum og það er skrýtið ástand.
Ég kvaddi Elías formlega, fyrir löngu enda tilgangslaust að reyna að þróa samband við mann sem ætlar að verja mörgum árum í annarri heimsálfu. Þessvegna litum við heldur aldrei á það sem samband. Allt á hreinu fyrirfram og þannig á það að vera. Auk þess eigum við ekki margt sameiginlegt og hann mun líklega eignast sitt fyrsta barn um það leyti sem ég verð amma. Hann hefur samband við mig reglulega og mér þykir vænt um það en ég kvelst ekki af söknuði. Halda áfram að lesa
Músin sem læðist
Karlmenn virðast sjaldan kæra sig um að vera einir. Jafnvel Músin sem læðist dreif í því að verða sér úti um konu nokkrum mánuðum eftir skilnaðinn, af einhverjum allt öðrum hvötum en stjórnlausri hrifningu. Elías mun aldrei vera á lausu lengur en 4 mánuði hámark. Hann viðurkennir það m.a.s. sjálfur.
Mér finnst eins og ég ætti að vera að búa mig undir afbrýðikast en ég finn ekki fyrir neinni kergju við tilhugsunina um Elías með annarri konu. Það finnst mér stórfurðulegt.
Ætli ég þurfi að yfirstíga tepruskapinn? 2. hl.
-Það má hann bróðir þinn þó eiga að það hefur aldrei verið neitt kvennaflangs á honum. Sagði móðir mín Dramgerður. Hann hefur svosem átt kærustur en hann er allavega ekki sofandi hjá þessari í dag og hinni á morgun.
Ég fann sjálfa mig hnykla brúnir.
-Heldurðu að hann segði þér frá því ef hann stæði í einhverju stóðlífi?
-Maður hefði heyrt af því ef svo væri, svaraði hún og virtist enginn efi í hennar hjarta. Halda áfram að lesa
Ætli ég þurfi að yfirstíga tepruskapinn?
Það er hægt að halda uppi símasamræðum við móður mína, allavega að vissu marki, á meðan maður reynir að lifa sig inn í Trainspotting. Rankaði við mér þegar hún tók sér í munn orðið endaþarmsmök. Ég er bara svo mikil tepra að mér hálfbregður alltaf þegar móðir mín byrjar að ræða sódómí og annað á þeirri línu. Halda áfram að lesa
Lena farin
Þá er hún farin. Ég lít á það sem morðtilraun.
Jódís fór út með sömu vél og bað mig þess lengstra orða að sleppa öllum fárviðrisgöldrum. Hmprff… það var hvort sem er afleit hugmynd og ég efast um að ég hefði náð neinu áhrifaríkara en slyddu.
Fullt tungl um helgina og upp úr því geta tiltekin dusilmenni vænst þess að eitthvað fari að visna undan þeim. Ég er nefnilega miklu jákvæðari gagnvart endurgjaldsgöldrum en því að möndla við náttúruna og hef enga trú á jafnvel dánarvottorð dugi til þess að þetta pakk læri að skammast sín.
Rangur misskilningur
Úps! Þarna munaði mjóu. Ég komst að því í gærkvöld að ég var með ranga dagsetningu á fluginu. Eins gott að ég var ekki búin að fremja fárviðrisgaldur. Halda áfram að lesa
Sundlaugarsaga
Þessi saga er tileinkuð félagsþjónustu Hafnarfjarðarbæjar
Barnið kastaði sér skríkjandi út í djúpu laugina. Ekki með kút og ekki einu sinni kork og ekkert benti til þess að það kynni að synda. Barnið sökk en skaut upp aftur, virtist skemmta sér prýðilega og ekki gera sér minnstu grein fyrir hættunni. Halda áfram að lesa
Góður dagur
Mikið var þetta góður dagur.
Við fórum í Austurbæ og sáum Annie og svo komu afi Bjarni og amma Hanna í mat til okkar. Ég bjó til lasagne með spínati og möndlum sem uppistöðu og eftirrétturinn var mjög fljótlegur heimatilbúinn ís.
Ég er ákveðin í því að halda matarboð reglulega á þessu ári. Ég hef svo mikla ánægju af því að fá fólk í mat og matarboð útheimtir hvorki að maður þurfi að standa í stórþvotti sökum reykmengunar daginn eftir, né að maður missi svefn. Það er nákvæmlega ekkert vesen ef maður hefur lítinn tíma, mín reynsla er allavega sú að fólk kunni almennt vel að meta ofnrétti, pottrétti og annað sem hægt er að undirbúa með fyrirvara og það þarf heldur alls ekki að vera dýrt að bjóða fólki í mat.
Ruglus
Ég hef heldur betur ruglast í kvartilaskiptunum. Eins gott að ég galdraði um áramótin. Var mér enganveginn meðvituð um að einmitt á gamlársdag var nýtt tungl, það fyrsta eftir vetrarsólstöður. Ég galdraði allavega helling af hamingju svo þetta hlýtur að verða gott ár.
Næsti verulega magnaði galdradagur er semsagt ekki í dag heldur föstudagurinn 13. en þá um nóttina er einnig fyrsta fullt tungl í nýju ári. Ég endurtek þá bara lækningagaldrara sem ég framdi síðustu nótt, þeir verða bara magnaðri fyrir vikið.
Gullkorn dagsins
Sonur minn Byltingamaðurinn:
Ég held að heimurinn yrði betri ef allir væru eins og ég.
Að vísu yrði frekar mikið drasl í honum.
Á hinn bóginn liti enginn á það sem vandamál.
Urr
Ég kemst ekki inn á bloggsíðuna mína (þ.e.a.s. síðuna sem birtist a blogspot.) Aðrar blogspot síður koma upp en mín er bara hvít. Fékk andartak hland fyrir hjartað því ég á ekki afrit af þessum textum og ég hugsa að ég sæi eftir nokkrum þeirra ef kæmi í ljós að síðan væri bara horfin. Ég get allavega afritað þá ennþá, það kom í ljós þegar ég reyndi að komast inn á ritsíðuna (blogger) eða hvað sem það heitir á íslensku).
Ég um mig til minnar listsköpunar
Það er nú mannsins eðli að álíta sjálfan sig áhugaverðusta einstakling á jarðríki. Flestir hafa mikla þörf fyrir að tala um sjálfa sig (annars þrifust ekki allar þessar bloggsíður) og sumir eiga svolítið erfitt með að átta sig á því að allir hinir hafa þessa sömu þörf fyrir að tjá sig um sjálfa sig. Mikilvægasta orð í heimi er „ég“. Halda áfram að lesa
Gerningar
Gerast nú dröm mikil í þeim þáttum sápuóperu tilveru minnar sem eigi er birtingarhæf í bloggheimum. Hef þegar varið 30 mínútum af þessum morgni í að reyna að leiða möppudýrum kerfisins fyrir sjónir þau voðaverk sem eru í uppsiglingu en spádómsgáfa mín er að engu höfð.
Ég hef aldrei gert alvarlega tilraun til veðurgaldurs en mun nú beita mér af öllu afli fyrir því að aðfaranótt 10. janúar gangi fellibylur yfir Keflavíkurflugvöll.