Viðskiptatækifæri

-Ég er orðin svo leið á þessu basli. Það er alveg sama hvað ég vinn mikið, ég á aldrei afgang, sagði hún.
-Trixið er fólgið í því að halda sama lifistandard þótt tekjurnar hækki, sagði ég. Ekki kaupa þér föt sem þig vantar ekki, tala meira í símann eða hafa dýrari mat þótt þú takir aukavinnu eða klárir að borga upp eitthvert lán.
-Ég veit það svosem, svaraði hún, og ég dáist að þér. Málið er bara að ég gæti ekki lifað eins og þú.
-Hvernig þá?
-Bara, gert aldrei neitt og borðað þennan mat sem þú borðar.

Gert aldrei neitt? Ég fór reyndar í leikhús oftar en mánaðarlega árið 2005, einu sinni til útlanda, fór í fegrunaraðgerð og keypti hlut í fyrirtæki, en jæja, ég býst við að sé dýrt að vera á djamminu. Rifjaði upp matseðil síðustu daga: lasagne, fiskbollur, grjónagrautur og brauð, reykt hrossabjúgu, píta…

-Hvaða mat? spurði ég í forundran.
-Æ, þú veist, afganga og svoleiðis.

Jamm, þetta hafa verið góðir tímar en nú fer aldeilis að harðna á dalnum. Afgangarnir úr stóru veislunni sem ég hélt þegar Haukur fæddist eru bráðum uppétnir. Ekki fást afgangar í Bónusi svo nú blasir sulturinn við. Allavega ef ég ætla að halda þessu prinsippi að hækka ekki standardinn fyrr en verðbréfin eru farin að framfleyta mér.

En hér er viðskiptahugmynd sem hvur sem kýs má nýta sér. Matvöruverslun sem selur afganga og svoleiðis. Fyrir fólk eins og mig. Fólk sem nennir ekki að vinna 80 stunda vinnuviku allt árið.

Best er að deila með því að afrita slóðina