Ég er hvorki að bíða eftir Elíasi né leita að einhverjum öðrum og það er skrýtið ástand.
Ég kvaddi Elías formlega, fyrir löngu enda tilgangslaust að reyna að þróa samband við mann sem ætlar að verja mörgum árum í annarri heimsálfu. Þessvegna litum við heldur aldrei á það sem samband. Allt á hreinu fyrirfram og þannig á það að vera. Auk þess eigum við ekki margt sameiginlegt og hann mun líklega eignast sitt fyrsta barn um það leyti sem ég verð amma. Hann hefur samband við mig reglulega og mér þykir vænt um það en ég kvelst ekki af söknuði.
Mig langar ekki lengur í karlmann. Öll þessi 15 ár hefur mig langað að eiga almennilegan mann. Verið misupptekin af því reyndar en það hefur alltaf verið inni á óskalistanum. Ég hef átt nokkra leikfélaga en sambönd sem ég hef tekið alvarlega hafa verið fá og varað skamman tíma. Áhugaleysi mitt stafar ekki af því að ég sé búin að missa allt álit á tegundinni. Það hefur gerst reglulega í mörg ár og samt hef ég dáð og þráð þessar undarlegu skepnur sem oftast hafa kostað mig meiri sársauka en gleði. Elías er ekkert nema yndislegur, hegðar sér á margan hátt eins og hann elski mig og einu rökréttu viðbrögð mín væru endurvakin trú á karlkynið. Kannski er ég haldin vondu afbrigði af dramsýki. Missi áhugann um leið og ég fæ staðfestingu á því að möguleikinn á nokkurnveginn heilbrigðu sambandi sé meira en goðsögn.
Hvernig sem á það er litið hlýtur alltaf eitthvað að vera athugavert við tilfinningalíf mitt. Ef ég er einmana dreg ég þá ályktun að ég hljóti að vera haldin sjúklegri ástarfíkn. Ef ég er ekki einmana hef ég áhyggjur af því að ég hafi óeðlilega neikvæða mynd af samskiptum kynjanna.