Áramótaheitið ætlar að halda

Þegar ég mætti í fyrsta tímann reiknaði ég fastlega með því að meirihluti orkunnar færi í að halda mér í hver-ætti-svosem-að-mega-vera-að-því-að-góna-á-mig gírnum, slettandi appelsínuhúðinni meðal átján ára álfakroppa.

Það hefur samt lítið reynt á sjálfstraustið því flestar þeirra reyndust vera hinar húsmóðurlegustu júffertur og álíka kýrlegar í hreyfingum og ég sjálf. Annars fer orkan í að fylgjast með og reyna að samhæfa mjaðmir, arma og fótleggi svo maður má svosem ekkert vera að því að horfa á hinar.

Það merkilega er að ég þarf ekkert að hafa fyrir því að vera jákvæð. Ég hef ekki viljað slá neinu föstu um það fyrr, en nú er ég búin að mæta í fimm tíma og hlakka til að mæta á morgun. Án þess að hafa eytt svomiklu sem fimm mínútum í að heilaþvo sjálfa mig.

Það er semsé til hreyfing sem er skemmtileg í eðli sínu.
Magadans.

Best er að deila með því að afrita slóðina