Úff!

-Hrútur fær gervilimi, svo hann geti „lifað eðlilegu lífi“. T.d. að ferðast með fjölskyldubílnum og liggja í stofusófanum.

-Þrálátur hiksti læknar ungan mann af félagsfælni. Hvernig í ósköpunum, það kemur ekki fram.

-„Listamaður“ hylur hús með osti. Líklega hefur engum dottið í hug að meindýr drægi fljótt að.

80-90% sjónvarpsþátta sem boðið er upp á hjá rúv og skjá einum eru í besta falli heimild um forheimskun og andlega geldingu múgans. Það er nóg að sjá einn úr hverri þáttaröð til að vera sérfræðingur í íslenskri alþýðumenningu.

Þegar ég á annað borð hef tíma til að horfa á sjónvarp, vel ég einn heimildaþátt (rúv hefur staðið sig á miðvikudagskvöldum) og einn afþreyingarþátt. Boston Leagal núna, House á meðan þeir þættir voru sýndir. Ég hef séð einn af aðþrengdum eiginkonum og líst vel á þá líka. Restin er rusl.

Sex & the city virðist vera voða vinsælt sjónvarpsefni. Ég hef gaman af létt poppaðri kynjafræði (svo framarlega sem hún er sett fram sem popp en ekki tekin of alvarlega). Ég gæti sennilega hugsað mér að fylgjast með þeim ef ég væri ekki haldin þvílíku ógeði á aðalpersónunni að ég verð líkamlega reið þegar hún birtist á skjánum.

Ekki svo að skilja að ég eigi neitt bágt. Ég hef nóg annað að gera en að horfa á sjónvarp. En mér finnst dálítið sorglegt að annað eins kraðak af innihaldslausum hvunndagshúmor og sýndarveruleikaraunsæi skuli ganga svona vel í landann.

Innlitsþátturinn

Ég verð í þættinum Innlit-útlit kl 21 í kvöld.

Ég hef að vísu áhyggjur af því að áherslan verði meiri á mitt sauðvenjulega heimili en búðina mína, sýnist það svona á auglýsingunni. Ef það fer svo verð ég frekar spæld. Allt í lagi að hórast í einhverjum sjónvarpsþætti ef það verður til þess að stórir hópar og margir koma hingað í kaffi og kynningu. Að öðru leyti hef ég ekki áhuga á að kynna mig sem innanhússarkitekt eða tískuspengil.

—–

Uppfært: Innlitsþátturinn er kominn á vefinn. Ég er rétt framan við miðju.

Allt bókfært í kerfinu

Ég hef óbeit á stöðumælasektum, enda er það argasta guðlast gagnvart honum Mammoni mínum að kalla yfir sig slíkan ófögnuð. Þó gerðist ég nýverið sek um slíkt guðlast og hef nú, auk friðþægingarfórnar til Mammons, greitt sekt mína innheimtumönnum bílastæðasjóðs.

Sektina borgaði ég í heimabankanum en sá þá mér til furðu að dagsetningin á greiðsluseðlinum stemmdi ekki við dagsetninguna á handskrifaða miðanum. Halda áfram að lesa

Tungl

Magnaðasta tungl ársins.

Fórum út og horfðum á það gyllt og gríðarstórt, snerta sjóndeildarhringinn og hoppa upp á himininn aftur.

Fyrr í dag fór ég með Byltinguna upp í Heiðmörk svo hann gæt bætt fyrir galdurinn sem verðir laganna klúðruðu fyrir honum síðustu nótt.

Söguleg fermingarveisla í millitíðinni.
Þetta var góður dagur.

Bloggans

Ég virðist vera eina manneskjan í heiminum sem lendi í vandræðum með að nota w.bloggar. Allavega hef ég ekki séð kvartanir frá neinum öðrum. Kannski er þetta tákn frá Gvuði um að ég eigi alls ekki að drepa náunga minn úr leiðindum með óhóflega löngum færslum.

Af margháttaðri geðsýki minni

Ég hef ekki farið í Bónus nema einu sinni síðan á Þorláksmessu en nú er Pysjan í sveitinni og Byltingin ekkert að stressa sig á því að taka bílpróf, svo ég neyddist til að sjá um páskainnkaupin sjálf.

Ekki hefur langtímafráhald frá stórmörkuðum minnstu áhrif á mannmorsfóbíuna í mér og þetta er líklega ekki besti dagurinn til að æfa sig. Finn hendurnar kólna upp, kjálkana læsast saman, kokið verður eins og sandpappír, blessunarlega því það er þá of sársaukafullt að hleypa öskrinu út til að það gerist óvart. Halda áfram að lesa

Netsíðan komin í loftið

Fyrsta Bakkusarblót Nornabúðarinnar fór fram á laugardagskvöld og tókst vel að öðru leyti en því að ég gekk fulldjarflega fram í dýrkun minni á Bakkusi og tók út verðskuldaða refsingu á sunnudaginn. Var öllu líkari fórnarlambi vampýru en norn í kaffiboðinu á sunnudaginn en tókst samt að skúra yfir salinn, fjarlægja bjórflöskur og skella á tertubotna áður en fólkið kom.

Hof Mammons hefur því fengið formlega vígslu og netsíðan okkar hin fullkomna er komin í loftið.

Ég verð í þættinum Innlit-útlit, þriðjudagskvöldið 18. apríl. Heppileg tímasetning svona rétt að afloknu páskafríi.

Brill

Jæja, þá fer nú að styttast í vígsluna á „ráðstefnusalnum“ eða „Hofi Mammons“ eins og við erum farnar að kalla hann. Bakkusarblót á laugardagskvöld og formleg víglsa Mammonsaltaris og vefsíðu fyrir fjölskyldur og velunnara á sunnudag.

Innlit-útlit á leiðinni til okkar. Það er brilljant.

Sonur minn er leikskáld

Byltingin hreppti þriðja sætið í örleikritakeppninni. Fjári fínt hjá honum og það í fyrstu tilraun til leikritunar. Ekki hefur neitt eftir mig ratað á leiksvið Þjóðleikhússins, eða nokkurt leiksvið ef út í það er farið.

Ég er óðum að læra trésmíðar. Niðurstaða dagsins er þessi; margar flísar í lófum valda erfileikum við verkfærabeitingu.

Dýr myndi Smiðliði allur

Um það leyti sem við opnuðum búðina, mundaði spúsa mín borvélina og smeið mér af snilli sinni vegg einn fagran. Það var frumraun hennar á sviði trésmíða og tók hana rúma tvo tíma. Ég bætti svo um betur og varði tæpri klukkustund í að sparsla, mála og snurfusa til að fullkomna verkið. Stendur þessi veggur enn keikur og vekur óskipta aðdáun hvers sem á hann lítur. Halda áfram að lesa

Ekki góður galdur

Fór í morgunkaffi í vélsmiðjunni til að sverma fyrir veggjasmið. Eigandinn gaf lítið út á galdrafærni mína. Að vísu sótti maður um vinnu á mánudaginn en það reyndist vera vesælingur sem ekkert er hægt að nota. Ég verð líklega að útvega mér nautsblóð ef á að vera hægt að loka inn á klósettið fyrir opnunarteitið.

Við erum að fá múg og margmenni í heimsókn á morgun og þá verður salurinn að vera orðinn íveruhæfur. Í augnablikinu virðist það fremur fjarstæðukennt.

Bögg

Ég held að ráterinn minn og blogger séu í hörkufýlu hvor út í annan. Hvort sem ég fer í gegnum nýja trixið eða reyni að blogga á hefðbundinn hátt, verða færslurnar undarlegar útlits og mánudagsfærslan vill bara ekki birtast á blogspot þótt hún sjáist inni á blogger. Samt var hún búin að vera uppi í einn dag og ég var búin að fá viðbrögð við henni þegar hún bara hvarf!

Kannski er andi einhvers framliðins tölvunörds að ásækja mig.

Garl dagsins

Í dag sannaðist að stór karl með kúbein, vinnur á þremur mínútum verk sem tekur litla konu með skrúfjárn þrjár klukkustundir.

Þegar hendurnar á mér voru orðnar of blógnar til að ég héldi taki á skrúfjárninu, útséð um að nokkur iðnaðarmaður á höfuðborgarsvæðinu gæti fórnað þremur mínútum af tíma sínum og enginn þeirra duslimenna sem hafa lýst yfir ástríðufullri þrá sinni eftir að þjóna mér, á lausu, hringdi ég í Sigrúnu og bað hana að beita töfrum sínum til að fá að senda mér vélsmiðjustrák. Halda áfram að lesa

Of mikið álag

Þessi helgi varð töluvert öðruvísi en til stóð. Sé fram á að morgundagurinn verði hrein og klár martröð. Enn og aftur staðfestist hættan við að vænta þess að aðrir geri eitthvað fyrir mann. Það er bara nokkuð sem maður getur ekki reiknað með sama hversu sjálfsagt það er.

Þetta er allt að koma

Við erum búnar að fá „ráðstefnusalinn“ afhentan… vííí!

Fáum 25 manna hóp úr MH í heimsókn á mánudaginn svo ég reikna með að fyrirhuguð dansæfing með Hörpu og Sigrúnu (sem stóð til að yrði fjögurra tíma sessjón) verði í styttri kantinum.

Nú þegar búið er að fixa og trixa bloggið mitt svo ég get fengið ritræpu án þess að lenda í vandræðum, hef ég hvorki tíma né andríki til að skrifa.

En þessa dagana gerast góðir hlutir á viðunandi hraða og bráðum verður allt fullkomið.