Lögreglan upprætir galdrakúnstir -fyrri hluti

Síðustu nótt gerðist það, (vonandi) í fyrsta sinn á þessari öld, að lögreglan hafði afskipti af galdraiðkunum. Það var sonur minn Byltingin sem komst í kast í við lögin eða öllu heldur verði laganna því hann var ekki að gera neitt ólöglegt.

Hann ætlaði að nýta þessa fyrstu tunglfyllingu eftir vorjafdægur til að kasta auðgunargaldri og kom sér þægilega fyrir á auðu bílaplani. Mjög lítil umferð var um bæinn og veitingahús í nágrenninu lokað. Hann var ekki drukkinn. Ekki nakinn. Ekki með grímu. Hann kveikti ekki eld. Hann gólaði ekki, dansaði ekki eða hafði yfirhöfuð í frammi nokkurt það athæfi sem með góðum vilja mætti flokka sem óspektir.

Galdurinn fór þannig fram að hann sat á bílaplaninu og raðaði í kringum sig smásteinum. Við þessa iðju var hann truflaður, ekki af einum, heldur fjórum lögregluþjónum. Lögreglunni hafði borist ábending um mann sem hefði í frammi óvenjulegt hátterni og þótti það víst nógu alvarlegt til að senda ekki færri en tvo lögreglubíla á staðinn.

Látum það vera. Kannski hefur tilkynnandinn haldið að hann væri að hluta sundur lík. Það ótrúlega er að þegar minn maður gaf þá skýringu á veru sinni á bílaplaninu að hann væri að fremja auðgunargaldur, var hann beðinn um skilríki og símanúmer, auk þess sem hann var spurður hvort hann væri ekki í andlegu jafnvægi.

Best er að deila með því að afrita slóðina