Dýr myndi Smiðliði allur

Um það leyti sem við opnuðum búðina, mundaði spúsa mín borvélina og smeið mér af snilli sinni vegg einn fagran. Það var frumraun hennar á sviði trésmíða og tók hana rúma tvo tíma. Ég bætti svo um betur og varði tæpri klukkustund í að sparsla, mála og snurfusa til að fullkomna verkið. Stendur þessi veggur enn keikur og vekur óskipta aðdáun hvers sem á hann lítur.

Í ljósi þessarar reynslu gripu okkur ákveðnar efasemdir um vaskleik og athafnagleði tveggja trésmiða sem komu hingað í fyrradag til að meta kostnað, tíma og vesenissparnað við að láta fagmenn um að reisa sambærilegan vegg í „ráðstefnusalnum“, bæta við tveimur klósetthurðum (flekum sem yrði lokað með krók) og ganga fallega frá inngangnum úr búðinni. Helst vildum við hafa hann bogadreginn.

Smiðliði, smiður til 40 ára, taldi að þeir yrðu fullar 30 klst að ljúka verkinu. Það þótti okkur ekki knátt. Hugsanlega má skrifa hluta þessa langa tíma á reynsluleysi félga hans, en hann hefur ekki starfað sem smiður nema í 25 ár. Kannski hafa þeir líka verið að hugsa um marmaravegg sem vissulega færi vel við nýlakkað gólfið og spónaplötuhillurnar.

Dýr myndi Goðheimur allur ef svo skyldi hver veggur. Seyðkonan sagðist treysta sér til að reisa annan vegg en mig dauðlangaði í fallegan inngang sem gat aftur orðið flóknara mál. Ég gerði það eina rökrétta í stöðunni, færði Mammoni fórnargjöf og hét því að grípa þau tækifæri sem hann byði mér. 10 mínútum síðar laust hann mig með hugmynd sem ég get framkvæmt sjálf, kostar ekki krónu og er mun meira spennandi en bogadyr.

Tókum á móti 26 manns í óvissferð í gær og í dag eigum við von á 20 manna hópi. 20-25 manns bókaðir 1. apríl svo við reiknum ekki með að að mygla yfir survivor á næstunni.

Best er að deila með því að afrita slóðina