Iðnaðarmannaþula

Merkilegt hvað maður verður lúinn af því að gera eitthvað sem maður er óvanur. Á ekki einmitt tilbreyting að vera svo afslappandi og endurnærandi?

Mér finnst ekki endurnærandi að standa í steypuviðgerðum og flísalögnum. Það er hinsvegar endurnærandi að sjá árangur erfiðis síns. Ólíkt hreingerningum varir árangurinn af líkamlegu púli iðnaðarmanna í mörg ár og þeir eru á miklu hærri launum. Þessvegna skil ég ekki alveg í dag hvernig í fjárnaum mér henfur nokkurntíma dottið í hug að skúra fyrir skít og kanil þegar ég hefði getað málað, smíðað og flísalagt fyrir 100-150% hærri laun. Auk þess virðist algeng taktík hjá iðnaðarmönnum að vera í kaffi fram að hádegi og láta sig þá hverfa, (sem dregur tímakaupið enn upp). En það er kannski skiljanlegt. Maður verður ósköp lúinn af því að gera það sem maður er óvanur.

Nú er ég búin að læra hver er ekki hentugasta aðferðin við flísalagnir.

Það eina sem iðnaðarmenn hafa sem ég hef ekki er þekking, reynsla og verkfæri. Verkfæri er auðvelt að ná í. Þekkingu er hægt að verða sér úti um á skemmri tíma en tekur iðnaðarmann að banka í veggi og segja hmmm. Reynsla kemur smátt og smátt með mistökunum.

Mistök eru pirrandi en samt sem áður mikilvægur liður í því að gera hlutina vel. Það er tímafrekt að verða sér úti um reynslu svo ef maður vill hafa eitthvað fullkomið er best að reikna með að þurfa mörg verkefni til að æfa sig á fyrst. Það er samt þess virði að geta einhverntíma gert hlutina sjálfur. Maður getur ekki reiknað með að hafa endalaust aðgang að Uppfinningamanninum, Tomislav og öðrum hjálpsömum öðlingum.

Sjálfsbjargarviðleitnin kemur manni þó nokkuð langt.

Best er að deila með því að afrita slóðina