Styttist

Þann þrítugasta júní verður kveðinn upp dómur í stóra vegatálmunarmálinu. Ef ég vinn (og eftir að hafa heyrt málflutninginn finnst mér það sennileg niðurstaða) ætla ég að halda upp á afmælið mitt.

Svo nokkuð sé nefnt

-rjómi út í kaffið
-að hnoða volgt brauðdeig
-lyktin af nýslegnu grasi
-að liggja í mosabing
-kjötsúpa á óveðurskvöldi
-sofandi börn
-kálfar
-kakó fyrir svefninn
-Roger Whittaker
-bros ungbarns
-að greiða hár fullorðna drengsins síns
-óvæntur koss á ennið
-hönd karlmanns undir þindinni
-bréf frá týndum vini
-að búa um sár einhvers sem er manni kær
-að skynja hugarangur einhvers sem á eitthvað ósagt og heldur að nokkrir kílómetrar komi í veg fyrir að maður finni það,

t.d. það gerir sálina í mér mjúka.

 

Dansur

Ingólfstorg á sunnudegi. Fólk að dansa. Mér líður eins og Færeyingi. Hvað er ég eiginlega að gera hér? Af hverju er ég ekki hjá Garðyrkjumanninum? Að vísu fékk ég háklassa handsnyrtingu í gær en ég næ sambandi við mold og hann myndi útvega mér latexhanska og blístra ‘Liljan fríð’ á meðan hann mokaði skít upp í hjólbörur, eða hvað það nú annars er sem garðyrkjumenn gera. Halda áfram að lesa

Af englum

-Ooooooo Sigrún! Ég þarf svo á því að halda að komast í almennilegt frí og ég sé ekki fram á að það takist nokkurntíma. Mammon kemur bara með endalausar skítareddingar, aldrei neitt sem breytir stöðunni varanlega og það er sko ekki það að ég hefi ekki gert mína samninga við Djöfulinn, því það hef ég reynt, trúðu mér. En svo ég vitni í Laxness; ‘Pokurinn sveik mig’. Aftur. Og það er ekki bara það að ég sé skíthrædd um að þurfa að selja bréfin mín, heldur er ég bara líka að drepast úr höfnunarkennd. Ekki einu sinni Andskotinn vill mig, hversu ömurlegt er það? Halda áfram að lesa

Grunur

Líklega sýndi ég þér grimmd með því að hafna samúð þinni. Þú vildir vel, ég veit það. Ætlaðir bara að koma til mín og kyssa sársaukann úr hjartanu mínu af stakri vinsemd. Það bara hefði ekki orðið neitt meira en andartaks fróun. Kannski hefði ég þegið návist þína ef þú hefðir frétt þetta á meðan ég var hvað viðkvæmust en þú hefðir bara kysst ennþá meiri sársauka inn í hjartað í mér. Halda áfram að lesa

Sápuópera – greiningardeild

Ég hugsa -þessvegna er ég til.

Samkvæmt því er ég alveg rosalega mikið til. Ég hugsa nefnilega svo mikið. Stundum hugsa ég klukkutímunum saman. Sumir halda því jafnvel fram að ég hugsi of mikið. Sem bendir þá til þess að ég sé of mikið til. Ekki svo að skilja að allt þetta hugs leiði mig endilega að niðurstöðum eða ákvörðunum en það er annað mál. Halda áfram að lesa

Undir þindinni

Sakna ég hans virkilega ekkert, spyrð þú og stundum trúi ég því ekki hvað þú þekkir mig illa.

Svo fór sem fór og það þjónar ekki tilgangi að velta sér upp úr því en auðvitað kemur það yfir mig að sakna hans. Það er nú bara normalt. Ég er þrátt fyrir allt normal, sjáðu til, og maður getur ekki fyllt hverja einustu mínútu dagsins af einhverjum skemmtilegheitum. Og ef út í það er farið finnst mér skömminni skemmtilegra að sakna hans en að skila vaskinum svo það má grípa til skyndisturlunar á borð við tilefnislítinn söknuð ef maður vill fresta einhverju bókhaldsböggi í nokkrar mínútur. Ég meina, maður getur nú verið með kökk þótt maður grenji ekki.

Kiskis

Ljósmyndarinn lagði vélina frá sér, settist niður og hló.

-Ertu alltaf svona grimmdarleg fyrir framan myndavél eða er þetta hluti af nornalúkkinu?
 sagði hann.
-Ég hlýt bara að vera svona grimmdarleg yfirhöfuð, sagði ég, sem hafði staðið í þeirri trú að ég væri frekar yfirveguð með vott af brosi en blaðskellandi tanngarðsbros var ekki viðeigandi í þessu tilviki. Halda áfram að lesa

Sálfræði geðþekka kjarkleysingjans

Hættulegasta fólkið er ekki það sem ræðst á mann með orðum. Ekki heldur það sem dregur mann niður með neikvæðni og fýlu eða er stöðugt að búa til vandamál. Ekki einu sinni alkóhólistinn, þótt ég hafi sannarlega illan bifur á honum líka. Erfitt fólk getur verið orkusugur og mann langar kannski ekki að umgangast það en það kemur fljótlega upp um sig og þá er einfalt mál að loka á það.

Hættulegasta manngerðin er geðþekki kjarkleysinginn. Brotni maðurinn sem lítur út fyrir að vera heill. Sá sem veitir manni öryggiskennd með notalegri framkomu sinni en kippir svo undan manni fótunum þegar kemur í ljós að fas hans og framkoma eru ekki í neinu samræmi við það sem er að gerast í hausnum á honum.

Á yfirborðinu er geðþekki kjarkleysinginn friðsamur og yfirvegaður undir niðri svo ólgandi af sársauka og ótta að hann er í raun eins og gangandi tímasprengja. Hann forðast deilur og mótmælir sjaldan en það er ekki vegna þess að umræðan eða aðstæðurnar skipti hann litlu máli, heldur er hann í rauninni svo ofboðslega hræddur við konflikta að hann þorir ekki að rugga bátnum. Hann segir já og brosir þótt hann sé í rauninni í uppnámi. Hann tekur því sem persónulegri árás ef einhver er honum ósammála eða sér fleiri fleti á málinu en hann snýst samt ekki til varnar þegar hann heldur að einhver sé að ráðast á hann, heldur skríður hann inn í skel. Brosandi. Hann tekst sjaldan á við tilfinningar sínar og forðast að ræða ágreining af því að hann heldur að öll skoðanaskipti séu í eðli sínu keppni þar sem annar aðilinn standi uppi sem sigurvegari og hinn sitji uppi með tapið og skömmina. Það er ekki endilega það að hann sé hræddur við að tapa, hann veit alveg að oft getur hann vel „unnið“, hann langar bara ekki að keppa við þá sem honum þykir vænt um og ef honum tekst að telja einhvern á sína skoðun líður honum eins og hann hafi kúgað hann. Hann er svo upptekinn af því að berjast og verjast að hann skilur ekki að samræður geti þjónað þeim tilgangi að víkka sjóndeildarhringinn og dýpka skilning fólks, jafnvel að komast að nýjum og áður óþekktum niðurstöðum. Það er ekki af því að hann sé kjáni sem hann forðast konflikta. Hann heldur ekki að ágreiningurinn hverfi ef hann kemur ekki upp á yfirborðið. Hann er bara svo hræddur við tilfinningar sínar að hann treystir sér ekki til að horfast í augu við þær, hvað þá útskýra þær. Hann er haldinn svo mikilli fullkomnunaráráttu að hann er stöðugt hræddur við að vera asnalegur, jafnvel þótt hann viti vel að fólk er að jafnaði frekar asnalegt. Hann óttast þær kenndir sem eðlilega vakna við rökræður. Þegar hann finnur fyrir gremju heldur hann að það merki að hann sé illmenni. Þegar hann verður hræddur heldur hann að hann sé aumingi. Þegar keppnisskapið í honum vaknar, heldur hann að það merki að hann sé grimmur. Hann gerir ekki greinarmun á ágreiningi og illdeilum og verður þessvegna skelfingu lostinn í hvert sinn sem einhver honum náinn er honum ósammála. Þessvegna þykist hann alls ósnortinn, sama hvað á gengur í kringum hann en tekur svo skyndilega geðbólgukast yfir því að vinir og vandamenn hafi ekki haft rænu á að lesa hugsanir hans.

Geðþekki kjarleysinginn er svo svo dauðhræddur við að vera ekki fullkominn að hann getur ekki viðurkennt eðlilegan ótta manneskjunnar. Óttann við að horfast í augu við sjálfan sig, viðurkenna mistök, láta í minnipokann, biðjast vægðar, standa á rétti sínum, skipta um skoðun, tjá þarfir sínar, mótmæla… Jú, hann getur kannski viðurkennt þennan ótta í öðru fólki, bara ekki í sjálfum sér. Hann þykist vera sterkur og stoltur en er í raun þjakaður af minnimáttarkennd og afskaplega einmana af því að hann heldur að þeir sem eru pínulítið minna hræddir við sársauka, niðurlægingu og konflikta en hann sjálfur, skilji ekki þennan ótta.

Og það er bara svo rosalega rangt, því þessi ótti er innbyggður í manneskjuna og þeir sem eru pínulítið minna viðkvæmir gagnvart honum, eru það vegna þess að þeir hafa tekist á við óttann og sársaukann sem því fylgir og skilja hann þessvegna alveg. Það þarf stundum dálítið hugrekki til að vera manneskja og hugrekki er ekkert dularfull náðargáfa sem aðeins fáum er gefin. Hugrekki er ekkert annað en það að gera það sem maður þorir ekki, aftur og aftur, alveg þar til maður þorir.

 

Óvæntur gestur

Leifur Runólfsson heimsótti mig í dag.Hugz hefur líklega klikkað á að vara hann við mér. Nema þetta hafi verið manndómsvígsla.

Blessaður maðurinn. Líklega er hann heima að sjúga þumalfingurinn núna.

Ástarbréf

Og þegar ég opnaði pósthólfið mitt og sá netfangið þitt innan um ruslpóstinn, þá hlýnaði mér pínulítið að innan. Ekki það að ég hafi ekki átt von á því að þú hefðir samband því það er nákvæmlega það sem þú gerir í hvert einasta sinn sem þú hefur ástæðu til að ætla að ég sé miður mín og einmana. Það hlýtur að styrkja karlmennskuímynd þína að sjá mig í rusli. Halda áfram að lesa

Oh!

Rassgat og alnæmi!

Ég var að spjalla við svo huggulegan og skemmtilegan mann sem ég rakst á á einni af stefnumótasíðunum á facebook. Hefði alveg viljað hitta hann en álpaðist til að skoða prófílsíðuna hans og komst þá að því að þótt hann sé skráður einhleypur á stefnumótasíðunni, er hann kvæntur samkvæmt aðal prófílnum. Ok, hugsanlega var prófíllinn eldgamall svo ég spurði hann, og jú það stendur heima að hann er víst pínulítið kvæntur ennþá. Halda áfram að lesa

Pappakassi

-Það er bara eitt sem ég skil ekki Eva mín, hvað sérðu eiginlega við hann?
-Hvað sé ég ekki við hann. Hann hefur grilljón kosti, ég held að ég sé búin að nefna a.m.k 100 þeirra.
-Jamm, hann er svona áreiðanlegur og góður gæi, fair enough, en í alvöru talað Eva, maðurinn er pappakassi. Ég skil hvað einhver húsamús myndi sjá við hann en hvað sérð ÞÚ við hann? ég meina… skilur hann þig? Halda áfram að lesa

Reclaim the song

Þetta var besta syngipartý sem ég hef nokkurntíma staðið fyrir.

Gestirnir farnir og ég er búin að þvo upp. Herregud hvað ég þarf að skúra hérna á morgun. Áfengisbirgðir fjölskyldunnar uppurnar. Völuvisa sungin. Darri sofnaður í rúminu mínu og egg á pönnunni.

Ég klikkaði á fertugsafmælinu mínu í fyrra. Veit einhver hvers vegna? Er nokkurt svindl að halda frekar upp á 41 árs afmæli?

Á morgun hitti ég mann sem skrifar tónlist. Það finnst mér áhugavert.