Ljósmyndarinn lagði vélina frá sér, settist niður og hló.
-Ertu alltaf svona grimmdarleg fyrir framan myndavél eða er þetta hluti af nornalúkkinu? sagði hann.
-Ég hlýt bara að vera svona grimmdarleg yfirhöfuð, sagði ég, sem hafði staðið í þeirri trú að ég væri frekar yfirveguð með vott af brosi en blaðskellandi tanngarðsbros var ekki viðeigandi í þessu tilviki.
-Nei það ertu nú ekki því fyrir tveimur mínútum varstu sæt eins og kettlingur en um leið og ég beindi vélinni að þér var eins og þú værir að reyna að drepa mig með augnaráðinu.
-Jæja, og varðstu hræddur? sagði ég keik.
-Neinei, sagði hann en ég veit líka hversvegna þú ert svona. Fólk sem er hrætt við myndavélina setur upp svip sem það heldur að beri vott um öryggi og útkoman verður ýmist stíf eða aulaleg. Þú verður að slaka á, því við getum nú ekki birt mynd sem sýnir þig eins og raðmorðingja.
-Af hverju er fólk hrætt við myndavélar? spurði ég og æfði hringöndun. Er maður hræddur við að sjá sjálfan sig með augum annarra? Eða kannski að svipur sem maður er ósáttur við geymist að eilífu?
-Ég veit ekki hvað það er sem veldur myndavélarfóbíu, en ég get allavega lofað þér því að það sem ég sá í þér áður en þú fórst að reyna að skjóta eldingunum með augunum, kæmi miklu betur út á mynd en þessi manndráparasvipur.
-Það fer mér semsagt vel að vera sæt eins og kettlingur?
-Jaaaá… finnst þér það móðgandi?
-Nei nei, laug ég og slakaði nógu vel á kjálkavöðvunum til að kisusvipurinn næðist. Það var engin ástæða til að valda ókunnugum manni heilabrotum um það hversvegna er ekki eftirsóknarvert að líta út eins og kettlingur. Auk þess er ekkert skárra að heimurinn haldi að sálin í manni sé eins og í raðmorðingja.
Og þó.
Ég er smátt og smátt að venjast kisusvipnum á prófílmyndinni minni. Finnst hún sýna ósköp krúttlega konu. En auðvitað lít ég ekki svona út í alvöru.
—————————————-
Ég fattaði strax og með það sama að þetta væri þú!
Samt kem ég ekki þessu fiðrildi fyrir mig 🙂
Knús og kossar
Posted by: Hulla | 5.06.2008 | 20:30:37