Sápuópera – greiningardeild

Ég hugsa -þessvegna er ég til.

Samkvæmt því er ég alveg rosalega mikið til. Ég hugsa nefnilega svo mikið. Stundum hugsa ég klukkutímunum saman. Sumir halda því jafnvel fram að ég hugsi of mikið. Sem bendir þá til þess að ég sé of mikið til. Ekki svo að skilja að allt þetta hugs leiði mig endilega að niðurstöðum eða ákvörðunum en það er annað mál.

Þess ber að geta að þótt ég hugsi mikið flýgur hugur minn ekki svo víða. Ég hugsa t.d. aldrei um vektora eða jötunuxa. Ég er aftur á móti djúphugul. Ég get hugsað tímunum saman um sama málið frá ýmsum hliðum og svo aftur á bak. Greint það í frumeindir og svo aftur. Eins og gefur að skilja gerir þráhyggja mín mig töluvert meira lifandi en annað fólk. Ég greini, þessvegna er ég til.

Ef ég hefði fengið greiddar, þótt ekki væru nema 1000 kr, fyrir hverja þá klukkustund sem ég hef varið til þess að sálgreina karaktera sem verða ekkert auðveldari viðureignar þótt maður sé búinn að greina þá í öreindir, skilgreina hugtök sem eru hvort sem er ónothæf, sundurgreina vandamál sem ekki er hægt að leysa, aðgreina ást og losta, ótta og reiði, söknuð og sorg, þá væri ég rík kona í dag.

Tókstu eftir því að í þessum stutta pistli er ég búin að greina nokkrar tegundir greiningar? Með greiningu á ég semsagt við að sálgreina, skilgreina, sundurgreina og aðgreina.

Þessi færsla var í boði greiningardeildar Sápuóperunnar.

 

Best er að deila með því að afrita slóðina

One thought on “Sápuópera – greiningardeild

  1. ————————————

    Þekki þetta. Þekki þetta afar vel. Mikið er gott að uppgötva að ég tilheyri hópi greinenda!

    Posted by: Ester | 6.06.2008 | 8:25:19

    ————————————

    En greinilega greiningarlega rík hvað sem öllu skotsilfri líður. Megi greiningardeild Sápuóperunnar dafna sem aldrei fyrr.

    Posted by: Hulda H. | 6.06.2008 | 12:23:56

Lokað er á athugasemdir.