… og gettu nú, sagði Sfinxin

-Hvernig myndirðu lýsa nútíma Íslendingnum? spurði túristinn, sem hafði hugmyndir sínar um land og þjóð fyrst og fremst úr fornritunum.

Hann er óttalega lítilfjörlegur. Allavega hvorki hetja né skáld. Hann heldur að hann sé merkilegur frumkvöðull og lifir samkvæmt lögmálinu -það reddast. Honum finnst hann víkingur og hetja fyrir bragðið. Svo bloggar hann líka en sjaldan af mikilli list. Samt telur hann víst að bloggið hans sé einkar áhugavert lesefni. Merkilegt nokk hvað við höldum fast í ímyndina þegar engin innistæða er fyrir henni lengur, ef hún var þá nokkurntíma til staðar.

-Og íslenska konan? Er hún Valkyrja? Skörungur mikill og drengur góður? spurði útlendingurinn.

-Æ nei, hún er óttaleg rola en á eilífri þroskabraut. Ástsjúk og vanmetin, með brotna sjálfsmynd eða lágt sjálfsmat og yfirhöfuð óskaplega lítið af öllu sem byrjar á sjálf. En hún er stöðugt að læra, stöðugt og á endanum fær hún nóg af því að láta vaða yfir sig, tekur á sig rögg og sýnir skörungsskap sinn. Konan þarf svo mikið að læra og þroskast á meðan karlinn bara er.

-Hver hefur eiginlega búið til þessar ímyndir? spurði ferðalangurinn og þótt sé varla hægt að benda á einhvern einn sem á heiðurinn eða sökina þá verður að viðurkennast að sumir eru sekari en aðrir.

 

One thought on “… og gettu nú, sagði Sfinxin

  1. ————————————

    Í þessu samhengi verð ég að benda á frábæra skemmtilesningu í boði ríkisins, Skýrslu nefndar um ímynd Íslands: http://www.forsaetisraduneyti.is/utgefid-efni/nr/2904
    Posted by: Unnur María | 10.06.2008 | 10:42:55

    ————————————

    Mér finnst sérstaklega skemmtilegt hverng einkunnarorðin „kraftur, frelsi, friður“ endurspeglast í sögu borgarstjórnar Reykjavíkur á yfirstandandi kjörtímabili.

    Posted by: Eva | 10.06.2008 | 11:10:59

    ————————————

    Ég ligg í sófanum mínum á kvöldin með skýrsluna, allar skviljón blaðsíðurnar, og flissa!

    Posted by: Unnur María | 10.06.2008 | 16:24:22

Lokað er á athugasemdir.