Du Prés virðist hafa tekið að sér hlutverk sérlegs selskaparráðgjafa míns.
Ég veit ekki hver Du Prés er en hann minnir mig á mann sem ég hef ekkert umgengist að ráði í mörg ár. Sá vissi yfirleitt nákvæmlega hvað hafði klikkað í lífi viðmælenda sinna og var alltaf tilbúinn til að gefa góð ráð. Það undarlega var að enda þótt hann væri algjörlega með það á hreinu hvað virkaði og hvað ekki, var venjulega allt í rugli hjá honum sjálfum; fjármálin í steik, hjónabandið í rúst og sambönd við hinar ýmsu hjákonur í uppnámi. Því tóku samt fáir eftir. Honum var nefnilega svo vel lagið að gefa öðrum þá tilfinningu að honum þætti líf þeirra áhugavert að iðulega gerði fólk þau mistök að hlusta á það sem hann sagði í stað þess að horfa á það sem hann gerði.
Ég held næstum að Du Prés gæti verið þessi sami maður ef hann tæki ekki strætó. Sá sem ég hef í huga hefur áreiðanlega ekki stigið inn í strætisvagn á Íslandi í 30 ár. Samt myndi hann aldrei ráðleggja nokkrum manni að kaupa sér bíl.