Maðurinn sem vissi alltaf hvað virkaði

Du Prés virðist hafa tekið að sér hlutverk sérlegs selskaparráðgjafa míns.

Ég veit ekki hver Du Prés er en hann minnir mig á mann sem ég hef ekkert umgengist að ráði í mörg ár. Sá vissi yfirleitt nákvæmlega hvað hafði klikkað í lífi viðmælenda sinna og var alltaf tilbúinn til að gefa góð ráð. Það undarlega var að enda þótt hann væri algjörlega með það á hreinu hvað virkaði og hvað ekki, var venjulega allt í rugli hjá honum sjálfum; fjármálin í steik, hjónabandið í rúst og sambönd við hinar ýmsu hjákonur í uppnámi. Því tóku samt fáir eftir. Honum var nefnilega svo vel lagið að gefa öðrum þá tilfinningu að honum þætti líf þeirra áhugavert að iðulega gerði fólk þau mistök að hlusta á það sem hann sagði í stað þess að horfa á það sem hann gerði.

Ég held næstum að Du Prés gæti verið þessi sami maður ef hann tæki ekki strætó. Sá sem ég hef í huga hefur áreiðanlega ekki stigið inn í strætisvagn á Íslandi í 30 ár. Samt myndi hann aldrei ráðleggja nokkrum manni að kaupa sér bíl.

Dæs

Og nú hef ég eignast verndarengil líka.

Skrýtið að ég skuli aldrei hafa áttað mig á bjargarleysi mínu sjálf.
Ég vildi að væri jafn auðvelt að fá þjónustu pípara og mannkynslausnara.

Stofnfundur

Dándikvennafélagið Dindilhosan -hagsmunasamtök aðþrengda og einhleypra glæsikvenda, hélt stofnfund sinn á Vesturgötunni í dag.

Á stofnfundinn mættu eftirtaldar dívur:
Eva

Jamm. Það mætti sumsé engin. Ekki heldur þær sem höfðu staðfest ásetning sinn um að mæta. Ekki heldur sú sem átti hugmyndina að þessum félagsskap.

Það er rangt að dýrmætasti auður hvers manns séu frumlegar hugmyndir. Góð hugmynd er harla lítils virði nema hún sé framkvæmd. Dýrmætasti auður hvers manns er fólginn í sjálfsaga hans til að lyfta skvappokunum upp úr sófanum og gera eitthvað. (Þess ber að geta er hér merkir „að gera eitthvað“ ekki að sitja pöbb og drekka bjór eða fara út að reykja.)

Á stofnfundinum var tekin ein ákvörðun. Ákvörðun um að Dindilhosan myndi hér eftir sem hingað til eyða tíma sínum í fólk sem nennir að gera eitthvað. Semsagt sjálfa sig.

Dylgjublogg

Það er ákveðin fegurð í því fólgin að fá skilaboð sem enginn annar áttar sig á. Þú ert vissulega blábjáni en þekkir mig þó nógu vel til að vita hvað fangar athygli mína.

Ástargaldur í undirbúningi

Þegar maður hefur engu að tapa er tilvalið að fylgja ráðum sem hljóma út úr kortinu. Sjónvarsþættir koma ekki til greina en ég notaði morguninn til að hanna nýjan ástargaldur, sem á að seiða til mín fjölda karlmanna sem ég kæri mig ekkert um, t.d. sanntrúaða sjálfstæðismenn. Svo þarf ég bara að forrita sjálfa mig til að skipta um skoðun á þeim. Halda áfram að lesa

Íslenska dindilhosan

-Þú ættir að bjóða þig fram sem íslenska batsjellorett, sagði hann. Ég hló.
-Ég er ekki að grínast, sagði hann og hljómaði eins og honum væri virkilega alvara.
Jamm, það færi mér vel. Hvaða lúði sýnir frumlegustu smjaðurtæknina og fær piparkerlingu í verðlaun? Missið ekki af næsta þætti af íslensku dindilhosunni! Halda áfram að lesa

Nornakvöld

Nornakvöld fyrir leshing með mat og öllu tilheyrandi. Spúsa mín ennþá í tarotmaraþoni.

Frýrnar hæstánægðar og skemmta sér hið besta. Ég eins og fluga hinummegin við þilið og það get ég sagt ykkur að þessar nornir eru sko ekki að sóa tímanum í eitthvert small talk. Vissara að fara ekki nánar út í þá sálma.

Small talk

Du Prés ráðleggur mér að æfa mig í almennu kjaftæði (small talk) Satt að segja finnst mér meiri áskorun að halda uppi samkvæmisblaðri um bólfarir en listaverk, enda þótt du Prés telji það umræðuefni ekki henta. Ég held að sé alveg eins hægt að halda uppi innhaldslausu þvaðri um það eins og hvað annað. Bara að virða regluna um að hafa ekki of sterkar skoðanir og halda umræðunni á ópersónulegu plani. Býður líka upp á möguleikann á nánari kynnum. Halda áfram að lesa

Að vilja eða vilja ekki

Almennt er snjallt að gera allt sem maður vill og ekkert sem maður vill ekki.

Stundum rekst þetta tvennt á en fólk sem er ekki þeim mun eigingjarnara og heimskara velur sjaldan kost sem er beinlínis skaðlegur. Mann langar kannski að aka yfir á rauðu ljósi en það þarf ekki mikinn ástríðuhita til að langa ennþá meira að komast heim án þess að drepa einhvern. Halda áfram að lesa

Nýjar hendur

Á nýju tungli er við hæfi að fara í vakurleikaviðgerð.

Eftir síðustu tilraun til að gerast iðnaðarmaður, framdi ég vakurleikaviðgerð á sjálfri mér. Fólst hún í því að fela ummerkin eftir fúgusparslið (ég neita að skirfa spartl) með hvítum plastnöglum. Það reyndist hvorki fögur lausn né endingargóð. Úr því var bætt í morgun og verða hinar nývökru hendur mínar til sýnis í Nornabúðinni í dag. Einnig verður opið hús heima hjá mér í kvöld, svo þeir sem komast ekki til að berja krumlur mínar augum á vinnutíma, geta komið og vottað þeim aðdáun sína heima.

Bílastæðamafían

Síðustu daga hafa tveir bílastæðaverðir húkt í bílahúsinu á Vesturgötu eða á stéttinni fyrir utan það allan daginn. Í hvert sinn sem bíll kemur í húsið eða fer, skrifar annar þeirra eitthvað í bók á meðan hinn drekkur kaffi.

Þetta hljóta að vera mjög mikilvægar upplýsingar sem þeir eru að skrá, fyrst bílastæðasjóður er með tvo menn á launum við það. Halda áfram að lesa

Fyrirboði um nefborun?

Ég er að prófa nýja gerð af tarotspilum sem ég næ ekki alveg kontakt við. Þau halda því fram fullum fetum að í dag muni dramatískir atburðir eiga sér stað. Síðasta helga véð muni falla, einhver hafi af mér mjög persónuleg afskipti þvert gegn vilja mínum og ég muni tapa sakleysi mínu.

Ég hlýt að túlka þetta á þann veg að einhver muni reyna að bora í nefið á mér. Nasirnar eru allavega einu líkamsop mín sem enginn hefur ennþá svo ég muni, fálmað í eða gert sig líklegan til að slefa á að mér forspurðri.

Crowley segir hinsvegar að þetta verði afskaplega venjulegur dagur. Ég treysti hans spilum satt að segja betur.

Leiðrétting

Var partý? spyr ég og legg frá mér krossgátuna.
Nei, ég svaf í nótt, svarar hann.
-Og hvað rekur þig á lappir kl. 7 á sunnudagsmorgni?
-Ég vaknaði til að hitta þig. Ef ég þekki þig rétt verður þú farin að vinna um hádegi.
-Vaknaðirðu alvöru til að hitta mig?
-Mmmm. Má ég leggjast hjá þér?
-Já, ef þú ferð úr skónum,
segi ég og færi mig.
-Mig langaði að sofa lengur, segir hann, en ég hef vanrækt þig og þá fer postulínsbrúðan í þér að halda að mér sé sama um þig. Ég vil frekar leiðrétta það en að sofa fram eftir.

Höldum hvort um annars úlnlið. Krossgátan má bíða. Maðurinn er aldrei alveg einn.

Úff!

-Hrútur fær gervilimi, svo hann geti „lifað eðlilegu lífi“. T.d. að ferðast með fjölskyldubílnum og liggja í stofusófanum.

-Þrálátur hiksti læknar ungan mann af félagsfælni. Hvernig í ósköpunum, það kemur ekki fram.

-„Listamaður“ hylur hús með osti. Líklega hefur engum dottið í hug að meindýr drægi fljótt að.

80-90% sjónvarpsþátta sem boðið er upp á hjá rúv og skjá einum eru í besta falli heimild um forheimskun og andlega geldingu múgans. Það er nóg að sjá einn úr hverri þáttaröð til að vera sérfræðingur í íslenskri alþýðumenningu.

Þegar ég á annað borð hef tíma til að horfa á sjónvarp, vel ég einn heimildaþátt (rúv hefur staðið sig á miðvikudagskvöldum) og einn afþreyingarþátt. Boston Leagal núna, House á meðan þeir þættir voru sýndir. Ég hef séð einn af aðþrengdum eiginkonum og líst vel á þá líka. Restin er rusl.

Sex & the city virðist vera voða vinsælt sjónvarpsefni. Ég hef gaman af létt poppaðri kynjafræði (svo framarlega sem hún er sett fram sem popp en ekki tekin of alvarlega). Ég gæti sennilega hugsað mér að fylgjast með þeim ef ég væri ekki haldin þvílíku ógeði á aðalpersónunni að ég verð líkamlega reið þegar hún birtist á skjánum.

Ekki svo að skilja að ég eigi neitt bágt. Ég hef nóg annað að gera en að horfa á sjónvarp. En mér finnst dálítið sorglegt að annað eins kraðak af innihaldslausum hvunndagshúmor og sýndarveruleikaraunsæi skuli ganga svona vel í landann.

Innlitsþátturinn

Ég verð í þættinum Innlit-útlit kl 21 í kvöld.

Ég hef að vísu áhyggjur af því að áherslan verði meiri á mitt sauðvenjulega heimili en búðina mína, sýnist það svona á auglýsingunni. Ef það fer svo verð ég frekar spæld. Allt í lagi að hórast í einhverjum sjónvarpsþætti ef það verður til þess að stórir hópar og margir koma hingað í kaffi og kynningu. Að öðru leyti hef ég ekki áhuga á að kynna mig sem innanhússarkitekt eða tískuspengil.

—–

Uppfært: Innlitsþátturinn er kominn á vefinn. Ég er rétt framan við miðju.

Allt bókfært í kerfinu

Ég hef óbeit á stöðumælasektum, enda er það argasta guðlast gagnvart honum Mammoni mínum að kalla yfir sig slíkan ófögnuð. Þó gerðist ég nýverið sek um slíkt guðlast og hef nú, auk friðþægingarfórnar til Mammons, greitt sekt mína innheimtumönnum bílastæðasjóðs.

Sektina borgaði ég í heimabankanum en sá þá mér til furðu að dagsetningin á greiðsluseðlinum stemmdi ekki við dagsetninguna á handskrifaða miðanum. Halda áfram að lesa

Tungl

Magnaðasta tungl ársins.

Fórum út og horfðum á það gyllt og gríðarstórt, snerta sjóndeildarhringinn og hoppa upp á himininn aftur.

Fyrr í dag fór ég með Byltinguna upp í Heiðmörk svo hann gæt bætt fyrir galdurinn sem verðir laganna klúðruðu fyrir honum síðustu nótt.

Söguleg fermingarveisla í millitíðinni.
Þetta var góður dagur.