Frí

Sunnudagur og ég er í fríi. Næstum búin að gleyma hvernig það er. Svaf út í morgun, alveg til 7:30 og sökum ofvirkni minnar tók ekki nema 5 klst að þrífa íbúðina. Herbergi yngissveinsins er að sjálfsögðu undanskilið enda húsagaþátturinn Allt í drasli á dagskrá sjónvarpsins í kvöld og standa vonir til að snertirinn hræði drenginn til að moka aðeins undan rúninu og ofan af hillunum. Halda áfram að lesa

Hjálpsamur yfirmaður

Eigandinn setti upp geiflu sem var einhversstaðar miðja vegu milli glotts og kátínubross þegar við hittumst á Nesjavöllum í gær. Kvaðst hafa lesið bloggið mitt og bauðst til að útvega mér nokkur símanúmer.

Ég veit nú ekki alveg hvort maður á að stóla á árangur af því. Eða hvernig hljómar þetta:
-Sæll Gísli/Eiríkur/Helgi, Eva heiti ég. Yfirmaður þinn las á blogginu mínu að ég væri að leita að fallegum hálfvita og gaf mér símanúmerið þitt. Ég var svona að velta fyrir mér hvort þú hefðir áhuga á að mæta í viðtal.

Allt í drasli

Ég ætlaði eiginlega að fagna þessum fyrsta frídegi frá páskum með því að gera ekkert af viti en sé ekki alveg fram á að það gangi upp. Ég hef tekið eftir því að á meðan ég er að heiman vex þvottur í óhreinatauskörfunni og tölvan mín dregur ekki að sér ryk eins og aðrar tölvur, heldur framleiðir hún það. Spurning hvort sé ekki hægt að græða eitthvað á því, stofna rykgerðina ehf.

Þegar Darri var lítill þurfti ég aldrei að ryksuga. Hann var nefnilega alltaf skríðandi í gólfunum og hann átti flíspeysu sem hann var mjög hrifinn af og hún dró að sér öll hundahárin og rykið. Á tímabili stofnaði ég fyrirtæki í kringum hann. Það var fyrirtækið Hárfinnur ehf. Darri var eini starfsmaðurinn og hafði ég töluverðar aukatekjur af því að leigja hann út. Svo kom fulltrúi barnaverndarnefndar í heimsókn og benti mér á að það samræmdist ekki samþykktum EES að láta börn skríða í gólfunum og draga að sér ryk og gæludýrahár í hagnaðarskyni. Fulltrúinn skipaði mér líka að þvo peysuna. Þá grét Hárfinnur og úrsurðaði peysuna ónýta. Síðan hef ég þurft að ryksuga sjálf og það í frítíma mínum. Svona er lífið erfitt.

Fuglasöngur

Mikið er nú dásamlegt að vakna við fuglasöng í stofunni. Sérstaklega eru það þessi háu, hvellu hamingjuóp sem gleðja mig. Ég er að hugsa um að leyfa reykingar inni hjá mér í von um að helvítið fái lungnakrabba.

Eldsnemma að morgni

Klukkuna vantar 20 mínútur í 7 á laugardagsmorgni og ég er á leiðinni á Nesjavelli. Ekki skrýtið að fólk haldi að ég sé galin. Ekki nóg með að ég ætli að eyða laugardeginum, þessum eina í vikunni, við að skrúfa saman hommarör (hvað sem það nú er) heldur ætla ég líka að hætta lífi mínu með því að sitja í bíl með Sigrúnu. Ojæja einn laugardagur Mammoni til heiðurs og hinum fríða flokki karlmanna sem er vistaður þarna uppfrá til yndisauka er víst ekkert óyfirstíganlegt.

Ég er búin að komast að því hvað varð um ostinn minn. Þarf bara að yfirstíga eina hindrun svo ég komist til að sækja hann en það er ekki bara verkefni heldur raunveruleg hindrun. Samkvæmt Brian Tracy er hindrun víst öruggt merki þess að maður sé á vegi velgengninnar. Það er kannski bull í kallinum en ég ætla allavega að hafa það.

Er að bíða eftir henni

Í gær uppgötvaði ég ákveðna fordóma hjá sjálfri mér. Ég á kunningja, sætan strák sem ég vissi ekki betur en að væri algjör drusla. Auk þess er hann alki svo það er engin hætta á að ég verði ástfangin af honum. Hann var þessvegna um hríð ofarlega á lista yfir þá fjölmörgu karlmenn sem ég hafði í hyggju að forfæra en fyrst dróst það sökum anna og svo komst ég að því að hann var ekki nærri jafn vitlaus og hann leit út fyrir að vera. Það varð til þess að ég lagði plön mín um að táldraga hann til hliðar, ég hef það nefnilega fyrir reglu að sofa aldrei hjá neinum sem hefur ekki fallið á greindarprófi. Nema náttúrulega að ég ætli að giftast honum, þá má hann slaga upp í meðalgreind en samt ekki vera klárari en ég. (Enda sjaldan nokkur hætta á því og er ég þó mun vitlausari en ég lít út fyrir að vera) Undantekningin er doktorsnefnan sem hefur aldrei viljað mig, hann er miklu klárari en ég en ég myndi samt alveg giftast honum. Af því ég veit að hann verður góður við konuna sína. Halda áfram að lesa

Passa þig

-Mig vantar leikfélaga, strák til að spila skrabbl og fara með mér í leikhús og á myndlistarsýningar og svoleiðis.
-Varstu ekki búin að finna einhvern?
-Hélt það kannski jú en hann hefur aldrei samband að fyrra bragði. Sennilega hræddur við mig.
-Ég er ekki hræddur við þig.
-Ég veit, afhverju heldurðu að ég sé að hringja?
-Þú ert hinsvegar hrædd við mig.
-Glætan. Nenni bara engu rugli og þú ert ekki jafnoki minn í skrabbli.
-En hvað? Allt er hey í harðindum?
-Þeir fiska sem róa.
-Við erum góð. Ættum að gefa út málsháttabók. Halda áfram að lesa

Auglýsing

Hér með auglýsist:

Vegleg laun í boði handa hverjum þeim sem vill taka að sér að myrða helvítis páfagaukinn (hvern ég hata), gangast við morðinu og baka sér þannig ævilanga óvild sonar míns (hvern ég elska og vil helst ekki að flytji úr móðurhúsum sökum morðæðis móður sinnar áður en hann útskrifast úr grunnskóla).

Daylight come and we wan’ go home

Úlnliðirnir á mér eru svo aumir að ég get ekki einu sinni pikkað á lyklaborðið án þess að verkja upp í olnboga, auk þess kvefuð og hef gengið á íbúfeni og norskum brjóstdropum síðustu daga. -Þetta var sjálfsvorkunn vikunnar, þá er það afgreitt.

Plastið er rafmagnað. Fyrstu dagana vorum við líkust stjörnuljósum en svo lagðist Sigrún í eðlisfræðirannsóknir og síðan hefur hún vökvað smiðjugólfið reglulega. Neistaflugið er minna, en þegar sjúkraliðinn mætir með slegið hár, rís það líkt og strákústur upp í loftið þegar hún lyftir böggunum. Halda áfram að lesa

Afturbati?

-Hvernig stafsetur maður Krókháls? spurði Haffi og stakk pennanum í annað munnvikið.

Andartak hélt ég að hann væri að reyna að vera fyndinn en ráðaleysið í svipnum var ekta og hann ER skelfilegur í stafsetningu.
-Eins og það er sagt. Með stóru kái… sagði ég án þess að gera mér almennilega grein fyrir því hverju hann væri að fiska eftir. Halda áfram að lesa

Vöðvarækt

Um síðustu helgi var hægri handleggurinn á mér orðinn eins og á Möggu stera en sá vinstri eins og á Óla Skans. Síðan hef ég snúið sveifinni með vinstri hendinni og er svona hvað úr hverju að verða symmertrisk aftur.

Segi ekki að þetta sé gefandi starf en hvað er eiginlega að fólki sem borgar sig inn í líkamsræktarstöðvar þegar er hægt að ná sama árangri án þess að klæða sig eins og fáviti, vera ofurseldur einhverri hallæris stuð tónlist og fá borgað fyrir það í þokkabót?

Í sveitinni

Ég hélt á varalitnum þegar Sigrún renndi í hlað í morgun, 5 mínútum of snemma og rauk út með ómálaða neðri vör. Reyndar ekki í minipilsi og á hælum því þótt það hefði verið mun huggulegra reikna ég ekki með að körlunum hefði orðið mikið úr verki ef ég hefði flaggað ómótstæðilegi flóðbylgju lærapoka minna og ekki vill maður nú skaða hagsmuni fyrirtækisins. Halda áfram að lesa

Drullusokkar

Pistill Jódu um drullusokka á 340 kr. rifjaði upp fyrir mér smáatvik sem ég var næstum búin að gleyma.

Fyrir rúmu ári var baðið í Starrahólunum stíflað. Ég fann ekki drullusokkinn og Vörður laganna (sem hafði ekki hugkvæmi til að gera neitt í málinu nema gráta) var rambandi á barmi örvæntingar yfir því að þurfa að lykta eins og skítahaugur um alla framtíð. Eftir dauðaleit að drullusokknum fór ég í Nóatún og keypti nýjan (hann var reyndar aðeins dýrari en þessi sem Jóda talar um í sínum pistli, mig minnir að hann hafi kostað 420 kr.) Ég var að flýta mér (enda hafði blessaður lögregluþjónninn ekki komist í sturtu síðan í hádeginu) og spurði konu sem var að raða tannkremstúpum í hillu hvort þau væru ekki með drullusokka. Hún svaraði að bragði; „jújú það er nóg af þeim hér, verslunarstjórinn er að vísu ekki við en þú getur prófað að reyna við Pétur“ og kinkaði í átt að starfsmanni sem var að fylla á frystinn.

Ég fór út með rauðan gúmídrullusokk. Leist ekkert á Pétur en átti auk þess íðilfagran drullusokk með lifur og nýru heima hjá mér. Við fluttum úr Starrahólunum viku síðar og nú á ég lítið notaðan rauðan Nóatúnsdrullusokk en engan af holdi og blóði. Kannski ætti ég að skreppa í Nóatún og athuga hvort Pétur sé genginn út.

Sigrún hefur tekið umkvartanir

Sigrún hefur tekið umkvartanir mínar um skort á áhorfanlegum karlmönnum í vélsmiðjunni alvarlega. Allavega verðum vér kerlingar á Nesjavöllum um helgina, væntanlega í fríða karla flokki.

Ég ætti að vera sofnuð en þar sem heimasætan valdi einmitt þetta kvöld til að leggja drög að nýjum og dramatískum kafla í sápuóperu heimilisins, reikna ég með að verða í tussulegra lagi í fyrramálið. Það var svosem auðvitað. Ojæja, Sigrún sækir mig klukkan 7 svo ég hef klukkutíma til að smyrja á mig hrukkukremi og æfa mig í að vera kókett áður en ég hitti alla þessa dásemdar karlmenn.

Óháð tekjum

Péningakallar fullyrða að hægt sé að spara óháð tekjum. Ég hef alltaf sottla trú á því að þeir sem eru ríkir viti eitthvað um fjármál svo ég held að það hljóti að vera eitthvað til í þessu. Samt er ég ekki alveg sannfærð.

Sá sem hefur milljón á mánuði í ráðstöfunartekjur getur augljóslega sparað. En hvað um þann sem hefur engar tekur? Þann sem er á framfæri annarra og hefur ekkert ráðstöfunarfé? Hann sparar auðvitað ekki nema einhver gefi honum peninga, það hljóta allir að viðurkenna. Halda áfram að lesa

Plan A

Ég held að ég sé fullkomlega fær um að drepa. Þ.e.a.s. ef ég sæi virkilega ástæðu til þess. Það hefur bara ekki gerst ennþá að neinn hafi pirrað mig nógu mikið til þess að ég vildi taka það að mér. Ekki fyrr en núna. Ég er búin að finna erkióvin minn númer 1, 2 og 15.

Ég ætla að fremja morð. Ég er ekki ennþá búin að finna aðferðina en það kemur allt með góðum ásetningi.

Ég ætla að drepa skattinn.

200%

Ég hélt að ég væri komin í feitt í vélsmiðjunni en um leið og ég birtist á staðnum sendi Eigandinn blóma fyrirtækisins á Nesjavelli svo ég hef unnið með eintómum kellingum og svo örfáum harðgiftum öðlingsmönnum. Allir töffararnir í sveitinni og vita ekki einu sinni að ég er til. Þetta er skandall. Gerir annars ekkert til, ég er hætt að leita, þetta er bara eins og með kaffið, maður hellir í bollann af gömlum vana þótt mann langi hreint ekkert í kaffi.

Í gær leit ég aðeins á einkamal.is til að gá hvort þar væru einhverjir nýir og spennandi karlmenn. Svo er ekki. Allavega rakst ég ekki á þá. Eitt finnst mér voðalega skrýtið á einkamálavefnum og það er allt þetta fólk sem lofar 200% trúnaði. Hvaða bull er það? Hvernig getur trúnaður verið meira en fullkominn? Kannski er átt við hið gagnstæða; sá sem lofar 200% trúnaði tekur t.d. þátt í orgíu með nokkrum þjóðkunnum mönnum og konum og fer svo út um allt og lætur fólk vita, bara til öryggis, að hann hafi aldrei átt neitt samneyti við aðra orgíuþátttakendur???

Hótun

-Ég færi ykkur miklar gleðifréttir: Um helgina verður tekið til í herbergjunum ykkar og ef þið gerið það ekki þá geri ég það sjálf, sagði ég í hótunartón.

Þegar ég kom heim í gærkvöld voru Byltingamaðurinn og Sykurrófan farin í leikhús. Á herbergishurðinni var miði með þessari áletrun:

Gleðifréttir staðfestar.
Tiltekt hófst áðan og verður haldið áfram á eftir. Vinsamlegast aðhafist ekkert í millitíðinni.
-H

Þá er því markmiði náð. Nú þarf ég bara að kúga Heimasætuna og Pysjuna til starfa.