Drullusokkar

Pistill Jódu um drullusokka á 340 kr. rifjaði upp fyrir mér smáatvik sem ég var næstum búin að gleyma.

Fyrir rúmu ári var baðið í Starrahólunum stíflað. Ég fann ekki drullusokkinn og Vörður laganna (sem hafði ekki hugkvæmi til að gera neitt í málinu nema gráta) var rambandi á barmi örvæntingar yfir því að þurfa að lykta eins og skítahaugur um alla framtíð. Eftir dauðaleit að drullusokknum fór ég í Nóatún og keypti nýjan (hann var reyndar aðeins dýrari en þessi sem Jóda talar um í sínum pistli, mig minnir að hann hafi kostað 420 kr.) Ég var að flýta mér (enda hafði blessaður lögregluþjónninn ekki komist í sturtu síðan í hádeginu) og spurði konu sem var að raða tannkremstúpum í hillu hvort þau væru ekki með drullusokka. Hún svaraði að bragði; „jújú það er nóg af þeim hér, verslunarstjórinn er að vísu ekki við en þú getur prófað að reyna við Pétur“ og kinkaði í átt að starfsmanni sem var að fylla á frystinn.

Ég fór út með rauðan gúmídrullusokk. Leist ekkert á Pétur en átti auk þess íðilfagran drullusokk með lifur og nýru heima hjá mér. Við fluttum úr Starrahólunum viku síðar og nú á ég lítið notaðan rauðan Nóatúnsdrullusokk en engan af holdi og blóði. Kannski ætti ég að skreppa í Nóatún og athuga hvort Pétur sé genginn út.