Óháð tekjum

Péningakallar fullyrða að hægt sé að spara óháð tekjum. Ég hef alltaf sottla trú á því að þeir sem eru ríkir viti eitthvað um fjármál svo ég held að það hljóti að vera eitthvað til í þessu. Samt er ég ekki alveg sannfærð.

Sá sem hefur milljón á mánuði í ráðstöfunartekjur getur augljóslega sparað. En hvað um þann sem hefur engar tekur? Þann sem er á framfæri annarra og hefur ekkert ráðstöfunarfé? Hann sparar auðvitað ekki nema einhver gefi honum peninga, það hljóta allir að viðurkenna.

Getur þá sá sem lifir á lágmarksbótum sparað? Hvar eru mörkin? Kannski hugmyndin um almenna sparnaðargetu byggist á því að börn og aðrir sem hafa engin fjárráð fái stundum 1000 kall í ammælisgjöf og geti þá lagt hann í banka þar sem þeir þurfa ekki að borga af kreditkortum eða kaupa í matinn? Kannski er þá eftir allt saman raunhæft að allir geti sparað þar sem allir hljóti í raun að hafa einhverjar tekjur?

Sá sem hefur bara 100.000 ætti allavega að geta sparað miklu meira en sá sem hefur engar tekjur. Þ.e.a.s. hann getur alveg tekið 10.000 kall af launum sínum eða bara 1000 kall og lagt í banka og látið restina duga. Nema náttúrulega að hann sé kominn í skuldir og með yfirdrátt og kreditkort og allan þann pakka. Ég þekki reyndar ekki marga með 100.000 á mánuði sem eru ekki í skuldum en líklega þekki ég bara eymingja. Það hlýtur að gefa auga leið að ef útgjöldin eru hærri en tekjurnar þá annaðhvort sleppir fólk því að greiða hluta útgjaldanna og fær þar með á sig dráttarvexti og lögfræðikostnað, eða það kemur sér í meiri skuldir strax til að draga aðeins úr vanskilakostnaði. Ég held allavega að það þætti ekki sérlega skynsamlegt að leggja 5000 kall inn á bankabók ef dráttarvextirnir á síðasta visareikningi eru ennþá ógreiddir. Kannski er lausnin fyrir láglaunafólk bara sú að biðja um þúsundkall í ammælisgjöf og byrja að spara óháð skuldum?

Ég skal með semingi þó fallast á að hægt sé að spara óháð tekjum. Það hlýtur að vera hægt að spara óháð tekjum fyrst er hægt að reykja óháð tekjum.

Ég er hinsvegar á því að það sé ekki raunhæft að spara óháð skuldum. Samt er hægt að reykja óháð skuldum. Það er eitthvað í þessu dæmi sem gengur ekki upp. Ég er líklega ekki efni í fjármálasnilling.

Ég er allavega búin að taka upp þá stefnu að á mínu heimili sé hægt að stunda leikhús og aðra menningu óháð tekjum og skuldum.

Best er að deila með því að afrita slóðina