Rauð viðvörun

Það snjóar í Glasgow. Þetta er í fyrsta sinn á þessum 6 árum sem ég hef búið hér sem snjó festir lengur en sólarhring. Í gærmorgun var logn og jafnfallinn snjór, varla meira en 5 cm. Ég fékk þessa tilkynningu í pósthólfið „Please note that due to severe weather the University is closed today“. Halda áfram að lesa

„Ég átti ekki við þig“

Lestin renndi að og kona sem hafði greinilega gengið hraðar en henni þótti þægilegt kom niður á brautarpallinn í sömu andrá. „Ég er fegin að ég náði lestinni, það er svo langt á milli ferða á kvöldin“ sagði hún um leið og við stigum inn í vagninn. „Annars á maður ekki að kvarta yfir Scotrail, ég bjó í London í tvö ár og lestarkerfið þar er hræðilegt. Það er ekki mikið um seinkanir hér og lestirnar eru hreinar og þægileg sæti“ hélt hún áfram. Hún settist á móti mér og var greinilega í stuði til að spjalla. Ég tók undir ánægju hennar með Scotrail, sagðist ekki spennt fyrir því að aka í vinstri umferð. Halda áfram að lesa

Áramótaheitið

Ég hef alveg staðið við að taka myndir en þær eru allar ömurlegar og mig langar ekki að birta þær. Lét mig hafa það fyrstu dagana af því að ég hélt að ég þyrfti bara að læra á vélina og ætlaði ekki að finna mér neina afsökun. En það er ekki ég sem er vonlaus. Borghildur kom í gær og sannreyndi að það er myndavélin sem er drasl. Við erum að fara heim í dag og þar er betri sími með myndavél sem er örugglega töluvert betri. Það er reyndar frekar fúlt að alla daga það sem af er árinu hef ég haft eitthvert tilefni til að mynda og má búast við að það verði heldur minna um hopp og hí á næstu vikum en ég verð þá bara að taka myndir af Einari.

Hvaðan kemur þessi sýra?

Í nótt var ég í eldhúsinu að djúpsteikja rækjur (sem ég geri aldrei) af því að stöðugleikastjórnin var að koma í mat. Ég hafði boðið öllu liðinu í mat til að kynna þeim splunkunýja stjórnarskrártillögu sem engill drottins hafði fært mér á gulltöflum. Ég gerði mér grein fyrir því að það kynni að þykja ótrúverðugt og var eitthvað að velta því fyrir mér hvort yrði kannski bara trúverðugra að eigna sjálfri mér krógann. Í draumnum hafði ég samt engar áhyggjur af því að sú staðreynd að ég var í kafarabúningi, með froskalöppum og súrefniskút, kynni að hafa áhrif á trúverðugleika minn.

Egg í sultu

Dreymdi að ég væri þáttakandi í raunveruleikaþætti kokka. Verkefnið var að útbúa rétt sem lýsti ríkisstjórn DVB. Minn réttur var linsoðin egg í rabarabarasultu.

Ég útskýrði að Vg væru rauðan, Sjallar hvítan og Framsókn sultan, af því að rabarabrasulta væri bæði þjóðleg og klístruð. Ég skil þetta með sultuna en veit ekki hversvegna Vg og Sjallar ættu að líkjast eggi.

Ég vissi að þetta gæti ekki verið góður réttur en verkefnið var ekki að elda eitthvað gott, heldur táknrænt.

Ég er ekkert að flytja til Íslands

Síðustu tvo daga hafa margir komið að máli við mig. Ekki samt til að hvetja mig til að fara í framboð heldur til að spyrja hvort við Einar séum að flytja til Íslands, svona í ljósi þess að hann ætlar að gefa kost á sér í prófkjöri, hjá Pírötum að sjálfsögu.

Ég er í skóla hér í Glasgow og er ekkert að flytja til Íslands í vetur að minnsta kosti. Ef svo fer að Einar lendi á þingi þá verður hann auðvitað að flytja til Íslands og ég á þá frekar von á því að ég yrði þar næsta vetur. Mig langar ekkert til þess en mig langar heldur ekki að vera langtímum án hans.

Er að léttast :)

Myndin er eftir Saudeck

Við komum heim á sunnudag og frá og með þeirri stund er ég í alvöru megrun. Aðalmarkmiðið er að hætta að borða í hugsunarleysi, af tómum leiðindum eða vana eða bara af því að eitthvað gott er í boði. Venjulega er það langt frá því að vera síðasta tækifæri í lífinu til að borða kökuna/snakkið/sósuna svo ég getur bara gert það einverntíma seinna þegar ég er í alvöru svöng. Halda áfram að lesa

Þetta er ekki hungur

Mín innri feitabolla er að reyna að sannfæra mig um að nú sé góður tími til að borða eitthvað. Bara eitthvað. Ég er ekki svöng. Borðaði tvö svínarif og banana um kl hálf tíu í morgun og svo kaffi með mikilli mjólk. Ég var reyndar svöng í alvöru en hefði vel getað beðið í háftíma án þess að líða beinlínis illa. Vanrækti það, sem er svindl. Smásvindl. Halda áfram að lesa

Kostkó „bouquet“

Ég hef aldrei komið í Kostkó og hef enga skoðun á þeirri búð. Mér finnst dálítið krúttlegt hversu margir voru með Kostkó á heilanum dögum saman í kringum opunina, og reyndar margir sem eru það enn, bæði fólk sem er emjandi af gremju yfir því að þessi verslun skuli hafa opnað á Íslandi og aðrir sem eru í nánast trúarlegri vímu yfir öllu ódýra fíneríinu sem þar mun fást. Halda áfram að lesa

Áramóta

2016 bráðum búið. Hvað sjálfa mig varðar var það viðburðarsnautt í jákvæðri merkingu. Enginn sem stendur mér nærri dó (og ég ætla rétt að vona að þessi eini og hálfi dagur sem eftir er breyti ekki þeirri daumastöðu) ferðalög voru tóm sæla og afslöppun með engu frásagnarverðu, maðurinn minn hélt áfram að vera góður við mig, lögfræðin er ennþá skemmtileg og og Leitin að svarta víkingnum kom loksins út og seldist upp fyrir jól.

Ef ekkert óvænt verður til þess að breyta þeim áformum mínum, ætla ég að hefja árið 2017 á löngu og farsælu fríi frá fésinu. Er semsagt hvorki að plana hryðjuverk né sjálfsmorð þótt ég setji prófílinn í geymslu einhvern næstu daga. Skemmtið ykkur nú sem mest þið megið um áramótin og æ síðar. Glimmer, hjörtu og flugeldar og allt það.