Ég hef aldrei komið í Kostkó og hef enga skoðun á þeirri búð. Mér finnst dálítið krúttlegt hversu margir voru með Kostkó á heilanum dögum saman í kringum opunina, og reyndar margir sem eru það enn, bæði fólk sem er emjandi af gremju yfir því að þessi verslun skuli hafa opnað á Íslandi og aðrir sem eru í nánast trúarlegri vímu yfir öllu ódýra fíneríinu sem þar mun fást.
Þetta var samt orðið fullmikið af því góða, svona fyrir minn smekk, þegar meira en annað hvert innlegg sem ég sá á fréttaveitunni minni á FB snerist um Kostkó. Til þess að leiðindajafna internetið tók ég þessvegna upp á því að pósta mynd af froski í hvert sinn sem ég sá nýjan Kostkó þráð. Einhverjir misskildu þetta og héldu að ég væri að skamma þá en það var ekki ætlunin heldur bara að leiðindajafna. Það eru til svo margar froskategundir og litadýrðin með ólíkindum, getur ekki verið annað en gott að birta sem flestar froskamyndir.
Fyrst ég er sjálf að tala um Kostkó neyðist ég til þess að pósta froskamynd.
Þannig eru reglunar. Þessi er alveg í stíl við búkettinn.
Froskaherferðin mín fór ekki fram hjá vinafólki okkar sem kom í mat í gærkvöld. Þar sem þau töldu hana merki um að mér þætti sérstaklega vænt um Kostkó, ákváðu þau að færa okkur alveg sérstaka gjöf úr froskabúðinni sjálfri. Alla sagði mér að þau hefðu verið lengi að velja enda er smekkvísi þeirra með eindæmum. Þau duttu loks niður á sérstakan súkkulaði „bouquet“ sem tekur flestum blómvöndum fram að glæsileika og er neysluhæfur í þokkabót og hentar því nýtingarfasista einkar vel.
Magnið hentar Einari svo aftur á móti. Hann er reyndar í kókosbollukasti þessa dagana, innbyrðir sjaldan færri en þrjár kókosbollur á dag. Nema síðasta sunnudag, þá urðu þær átta en það var nú bara af því að hann gleymdi að borða mat. Hver veit nema hann detti í Cadbury Twirl þegar hann fær nóg af kókosbollum.
Ég varð alveg svona glöð
Valdi bauðst til þess að gefa mér meðmæli til þess að auka líkur mínar á því að fá skólastyrk svo ég geti tekið meistaranám í Glasgow. Hann sagðist þá ætla að senda þeim þessa mynd frá verðlaunaafhendingu þar sem ég hafi fengið fyrstu verðlaun fyrir kjúklingasúpu. Það eru áreiðanlega ekki margir sem sækja um þennan styrk sem kunna að sjóða súpu svo það ætti að auka líkunar. Auk þess hlýt ég áreiðanlega náð fyrir augum úthlutunarnefndar út á þetta greindarlega augnaráð.
Eins og sjá má leist Einari líka einkar vel á búkettinn
Kvöldið var að einnig vel lukkað að öðru leyti. Skemmtilegt fólk og ég neyddist til þess að éta ofan í mig eðlisfræðikenningu mína um að það sé ekki hægt að laga súkkulaðifrauð í blandara. Einar, sem venjulega er nú svona frekar vísindalega sinnaður, hélt því fram að ef eðlisfræðin samræmdist ekki raunveruleikanum þá væri sennilega lítið að marka hana og reif af mér lapþunna soppuna áður en mér tókst að hella henni í vaskinn. Klukkutíma síðar var hún orðin stíf. Hann hefur þá sennilega ekki misminnt eftir allt saman. Ég ætla nú samt að halda fast við þá kenningu að það sé ekki hægt að þeyta rjóma eða eggjahvítur í blandara því eftirrétturinn varð ekki frauðkenndur heldur þykkur og þéttur. Mjög góður og var étinn upp til agna en þetta var samt ekki frauð.
Svalahurðin í svefnherberginu fauk af hjörunum í vetur og var enn negld aftur þegar þau komu en þeir sem reykja verða bara að bjarga sér og það er hægt að komast út á norðursvalirnar gegnum eldhússgluggann.