Ég er orðin feitabolla. Hef svosem verið það í allt sumar og hugsa daglega að nú ætli ég að fara að gera eitthvað í þessu. Ég hef enga afsökun, á ekki einu sinni neitt sérlega erfitt með að láta á móti mér að borða meira en ég þarf, ég hef bara verið of kærulaus.
Ég veit ekki hversu þung ég er, við eigum ekki vog á Íslandi og ég hef ekki vigtað mig í allt sumar. Ég sé það hinsvegar á fötunum mínum, í spegli og á myndum að ég þarf að losna við a.m.k. 4 kg til að verða ánægð og það er of mikið til þess að það hafist með því einu að borða ekki brauð og forðast sósur.
Ég veit alveg hvað ég þarf að gera. Ekkert LKL eða annað kúrakjaftæði. Ég hefði auðvitað gott af líkamsræktarprógrammi en ég grennist ekki af því einu og sér. Það sem ég þarf að gera er hreinlega að breyta því viðhorfi til fæðu sem ég hef verið að þróa með mér hægt og rólega en þó af mikilli staðfestu; það viðhorf að meira sé betra. Feitabollan er nefnilega fyrst og fremst í hausnum á manni og eina ráðið sem virkar er að hætta að hlusta á tillögur hennar. Ef maður hættir því ekki mun hún að lokum sannfæra mann um að meira sé aldrei nóg.
Ég þarf að hætta að borða áður en ég er orðin svöng. Ég þarf að hætta að narta milli mála eða borða eitthvað bara af því að það er fyrir framan mig og ég þarf að hætta að borða stærri skammta en ég þarf til að verða södd. Ég þarf að láta mér standa meira á sama um mat. Það er engin skylda að troða súkkulaði í andlitið á sér bara af því að það er í boði. Það verða nóg tækifæri til þess síðar. Og jújú, nammi er gott fyrir sálina en 10 skammtar af lúxus gera ekki meira fyrir mann en 1 skammtur.
Ég ætlaði eiginlega ekkert að birta feitabollumyndir fyrr en ég væri búin að ná árangri og gæti með ánægju birt „fyrir og eftir“ myndir en ég held svei þér þá að það sé mér bara hvatning að hafa þetta fyrir allra augum.
Það er ekkert hægt að skýra þetta varadekk með förðunarskorti eða óheppilegum klæðaburði og þótt lærin á mér verði aldrei mjó (nema ég verði fyrst flatbrjósta og kinnfiskasogin) er spiklagið töluvert þykkara en það þarf að vera.
Við förum heim 3. september. Ég þekki sjálfa mig nógu vel til að vita að ég mun ekki standa við neina reglubundna hreyfingu á þeim tíma sem við eigum eftir á landinu. Ég þarf rútínu til þess. Ég þarf ekki rútínu til að borða minna en mér liggur ekki svo mikið á að grennast að ég vilji sleppa matarboðum eða telja hitaeiningar og ég ætla alls ekki að sleppa mjólk í kaffið eða hætta að drekka áfengi. Planið er því þetta: Þann tíma sem við eigum eftir á Íslandi ætla ég ekki í neitt sérstakt prógramm eða að neita mér um tiltekinn mat en ég ætla hinsvegar að fylgja örfáum einföldum reglum:
- Ekki borða fyrr en ég er orðin líkamlega svöng
- Þegar mér finnst ég vera orðin svöng, drekka vatnsglas og bíða í korter
- Ekki fá mér aftur á diskinn nema ég sé ennþá raunverulega svöng
- Ekki borða meira en einn lítinn skammt af sætindum eða snakki í einu og bara ef við borðum með öðrum
- Ekki drekka bjór eða kokteila. Vín eða g&t nægir.
Þetta á ekki að vera neitt mál. Ég hef t.d. ekkert borðað í dag (og klukkan er næstum 2) vegna þess að ég er einfaldlega ekki orðin svöng. Ég er hinsvegar búin að standa upp og opna ísskápinn hvað eftir annað, bara af geðveiki og vana. Ég ætla bara að hætta því. Ég er farin að finna fyrir tómleikatilfinningu í maganum núna en ég er að sjóða vatn í te og það er ekki erfitt að bíða þar til ég er búin að drekka einn tebolla og bíða svo aftur í korter. Ég fæ fólk í mat í kvöld og ætla að elda kjötsúpu. Ég þarf ekki að klára afganginn til að þurfa ekki að henda honum, hann geymist vel og auk þess er maginn á mér ekki ruslafata. Mér finnst gott að fá bjór með kjötsúpunni en ef mig langar rosalega í hann ætla ég að kíkja á þessar myndir sem ég var að birta hér og athuga hvort þær slá ekki á græðgina. Ég ætla að bjóða upp á ávexti og rjóma á eftir. Mér finnst rjómi góður en ekki nauðsynlegur svo ég ætla að sleppa honum. Ég er næstum viss um að það tekur enginn eftir neinu óvenjulegu
Ég ætla ekki að setja mér nein árangursmarkmið í bili, bara að breyta hugarfari mínu. Ég endurskoða þá stefnu svo þegar við erum komin til Glasgow.