Þetta er ekki hungur

Mín innri feitabolla er að reyna að sannfæra mig um að nú sé góður tími til að borða eitthvað. Bara eitthvað. Ég er ekki svöng. Borðaði tvö svínarif og banana um kl hálf tíu í morgun og svo kaffi með mikilli mjólk. Ég var reyndar svöng í alvöru en hefði vel getað beðið í háftíma án þess að líða beinlínis illa. Vanrækti það, sem er svindl. Smásvindl.

Ég hef annars að mestu leyti staðið mig í því að láta ekki að stjórn hinnar innri feitabollu. Systur mínar eru báðar óánægðar með holdafar sitt. Önnur er í megrun og henni finnst ótrúlega algengt að fæða sé sneisafull af kolvetnum en er sannfærð um að það sé skynsamlegt fyrir þá sem vilja léttast að fá sér kókosolíu eða rjóma út í kaffið. Hin er að reyna að þyngjast og hún kvartar yfir því að það séu bara nánast engin kolvetni í neinu. Hún á náttúrulega við að það séu engin kolvetni í uppáhaldsmatnum hennar; andrúmslofti og vatni. Svo hlær fólk þegar ég segi að ég sé sú eina í fjölskyldunni sem er ekki veruleikafirrt.

Ég er fegin að þurfa ekki að hugsa um hitaeiningar eða kotvetni. Það er tímafrekt. Það eina sem ég þarf að gera er að borða ekkert nema ég sé svöng. Venjulega er það ekkert erfitt, bara spurning um að segja feitabollunni að halda kjafti. Koma fram við hana eins og frekan krakka. Ef hún þagnar ekki að bjóða henni þá eitthvað sem er ekki slæmt (ég hef enga trú á meinlætalifnaði) en samt algerlega óspennandi, t.d. súrmjólk. Þá meina ég bara súrmjólk, ekki með korni eða ávöxtum. Ef mann langar ekki í hreina súrmjólk þá er þetta ekki hungur heldur Feitabollan að frekjast.

Það er sennilega alveg nóg fyrir kyrrsetufók að borða eina almennilega máltíð á dag en þess utan ekkert nema súrmjólk. En ég geng ekki svo langt enda liggur mér ekki svo mikið á að léttast heldur frekar að breyta þeirri hugmynd að ég þurfi endilega að vera síétandi. Ég hef borðað tvær máltíðir á dag síðustu vikuna. Í dag borðaði ég fyrri máltíðina fyrir hádegi svo nú er enginn matur aftur fyrr kl 19:30 í kvöld. Nema ef ég verð svöng í alvöru með garnagauli og hungurógleði. Ef það gerist þá fæ ég mér súrmjólk. Þetta sem er að angra mig núna er sjálfsblekking sem á ekkert skylt við hungur.

Deila færslunni

Share to Facebook