Margarítu-svindl

Ég drakk frosna Margarítu í gær og það passar nú ekki við það sem ég einsetti mér bara tveimur dögum fyrr.

Við vorum með matarboð á miðvikudaginn og þá var enginn að drekka kokteila og ég stóð við allt sem ég hafði ætlað mér. Ég hafði alveg rétt fyrir mér með það að enginn tók eftir neinu óvenjulegu þótt ég sneiddi hjá kartöflunum í kjötsúpunni og fengi mér ekki rjóma með ávaxtasalatinu.

En í gær bauð Einar semsagt upp á Margarítur, sem eru í uppáhaldi hjá mér og það var alls ekki það að ég stæðist ekki freistinguna heldur það að ég nennti ekki að fara að útskýra hvað ég er að gera. Þetta snýst nefnilega ekki um það hvort ég innbyrði 250 hitaeiningar til viðbótar (og það hefði orðið auðvelt að sannfæra mig um að ég „ætti það inni“ þar sem ég hafði borðað eins og fugl síðustu þrjá dagana) heldur hitt að breyta þeim hugsunarhætti að ég þurfi endilega að borða allt sem mín inni feitabolla fyrirskipar. Einar trúir hvorki á galdur né hliðarsjálf og ekki einu sinni frjálsan vilja mannsins svo þetta er alveg efni í hinar skemmtilegustu rökræður sem munu taka minnst þrjú kvöld og þrjá labbitúra.

Einar byrjaði að undirbúa kokteilgerðina áður en gestirnir komu. Ég sagði honum að reikna ekki með mér. Hann setti upp svipinn sem segir „hvaða vitleysa er nú hlaupin í þig?“ og auðvitað var það kjörið tækifæri til að segja honum hvað ég er að reyna að gera. En ég gerði það ekki og því síður hefði ég nennt að bjóða upp á rökræður um kenningu mína um stjórnlyndi minnar innri feitabollu með fleira fólk á staðnum.

Svo ég drakk Margarítu.

Ég hefði ekkert þurft að drekka hana. Ég hef ekki einu sinni þá afsökun að félagslegar aðstæður hafi kallað á það því af þremur vinkonum sem komu í mat voru tvær sem drukku ekki, önnur ólétt og hin í áfengis- og sykursnauðum „meistaramánuði“. Ég hefði ekki getað logið á mig óléttu en ég hefði getað tekið upp meistaraföstudagskvöld á staðnum.

Ég hefði líka getað látið Margarítuna bráðna í glasinu og hellt henni niður í laumi en það myndi nýtingarfasistinn í mér aldrei taka í mál. Ég gat ekki einu sinni hugsað mér að henda fitunni af súpukjötinu á miðvikudaginn svo ég frysti hana ásamt beinunum. Skúli (hundurinn hennar Heiðu B Heiðars) fékk svo pokann heim með sér í gær. En auðvitað er ég ekkert laus við tvískinnung. Þegar ég var í Palestínu lét ég mig hafa það í nokkur skipti að hella dísætu tei og kóki niður í grassvörðinn þegar heimamenn réttu mér glas og tóku það ekki gilt þegar ég afþakkaði.

Það væri hinsvegar fáránlegt að leika slíka leiki gagnvart vinum og vandamönnum, hvað þá heima hjá sér. Það sem máli skiptir hér er að ég hefði vel getað afþakkað Margarítuna og það átti ég bara að gera. Maður þarf ekki að gefa skýringar á því að vilja skyndilega ekki eitthvað sem manni finnst gott. Ekki heldur maka sínum.

Það er heldur ekki það að mig skorti skap til þess að afþakka. Ég er ekkert vön því að borða til að þóknast öðrum, hvað þá að drekka áfengi bara af því að einhver reiknar með því. Þetta með að nenna ekki að útskýra – það er einfaldlega afsökun af lélegasta tagi.

Ég hef engar áhyggjur af sykrinum enda auðvelt að bæta fyrir eina Margarítu með því að borða ekkert nema gúrku fram að kvöldmat, það hef ég oft gert. En að ætla sér að grennast og setja svo eitthvað ofan í sig bara af því að maður hefur ekki nógu góða „afsökun“ til að afþakka, það er bara rangt hugarfar.

Þannig að til viðbótar við fyrri reglur tek ég hér með upp eina til viðbótar:

  • Afþakka það sem ég hef ekki í hyggju að láta ofan í mig, hiklaust og án skýringa. Ég þarf ekki afsökun.

Deila færslunni

Share to Facebook