„Ég átti ekki við þig“

Lestin renndi að og kona sem hafði greinilega gengið hraðar en henni þótti þægilegt kom niður á brautarpallinn í sömu andrá. „Ég er fegin að ég náði lestinni, það er svo langt á milli ferða á kvöldin“ sagði hún um leið og við stigum inn í vagninn. „Annars á maður ekki að kvarta yfir Scotrail, ég bjó í London í tvö ár og lestarkerfið þar er hræðilegt. Það er ekki mikið um seinkanir hér og lestirnar eru hreinar og þægileg sæti“ hélt hún áfram. Hún settist á móti mér og var greinilega í stuði til að spjalla. Ég tók undir ánægju hennar með Scotrail, sagðist ekki spennt fyrir því að aka í vinstri umferð.

„Ertu í fríi hér?“ spurði hún. Ég sagði henni að ég byggi í Glasgow og væri í námi. Og jújú, mér líkaði ljómandi vel. Frábær háskóli, góð heilbrigðisþjónusta, vingjarnlegt fólk, þægilegar almenningssarmgöngur…
„Já, Skotland er ágætt, ég fæ afslátt í strætó af því að ég er orðin sextug og heilbrigðiskerfið er miklu betra hér en í Englandi. Enn að minnsta kosti. En svo veit maður ekki hvað gerist eftir Brexit.“

„Svo þú ert ekki hlynnt Brexit?“ sagði ég. Ég hef enn ekki hitt Skota sem er hlynntur Brexit og nei, henni leist ekkert á Brexit og sagðist viss um að margir þeirra sem kusu með dauðsæju eftir því. „En maður skilur svosem að fólk sé ekki hrifið af því að Evrópusambandið geti sagt okkur fyrir verkum og þetta dregur vonandi úr innflytjendavandanum“ sagði hún. Lýsti því svo hversu mikil byrði innflytendur væru orðnir. Allt of margir, sumir á bótum og allir með aðgang að heilbrigðiskerfinu.
„Leitt að heyra að  þú lítir svo á,“ sagði ég, og ég held að mér hafi tekist að spila mig meira leiða en reiða. „Þetta er í fyrsta sinn á þessum sex árum sem ég hef búið hér sem einhver segir mér hreint út að ég sé ekki velkomin.“

Hún starði spyrjandi á mig andartak en áttaði sig svo. „Ó guð! Ég meinti það ekki þannig. Ég átti ekki við þig – ekki fólk eins og þig …“
„Fólk eins og mig? Ég er innflytjandi, ég greiði sömu skólagjöld og Bretar og nota heilbrigðiskerfið,“ sagði ég og lagði mig virkilega fram um að vera ekki eins og freðýsa.
„Ég biðst afsökunar en það var í einlægni alls ekki það sem ég átti við.“
„Áttirðu við fólk frá Mið-Austurlöndum? Múslíma?“ sagði ég.
„Já einmitt, það er þessi kúltúr sem hef efasemdir um“ sagði hún, hamingjusöm yfir því að þessi misskilningur væri úr sögunni og nefndi einhverjar tölur um fjölda hælisleitenda. Mig langaði að reyna að tala um fyrir henni en það er ekki nema 7 mínútna lestarferð milli Queen Street og Partick og ég sá ekki tilgang í að hefja umræðu án þess að eiga möguleika á að ljúka henni.

Lestin var að renna að Partick. „Ég fer úr hér, hafðu það gott í kvöld“ sagði ég og stóð upp.
„Sömuleiðis og afsakaðu aftur þennan misskilning“ sagði hún.
„Ekkert mál“ sagði ég „Maðurinn minn er frá Íran en ég er glöð yfir því að þú áttir ekki líka við mig.“

Ég brosti og vinkaði um leið og ég steig út.