Myndin er eftir Saudeck
Við komum heim á sunnudag og frá og með þeirri stund er ég í alvöru megrun. Aðalmarkmiðið er að hætta að borða í hugsunarleysi, af tómum leiðindum eða vana eða bara af því að eitthvað gott er í boði. Venjulega er það langt frá því að vera síðasta tækifæri í lífinu til að borða kökuna/snakkið/sósuna svo ég getur bara gert það einverntíma seinna þegar ég er í alvöru svöng.
Á meðan við vorum á Íslandi gerði ég í raun ekkert annað en að stilla mig um að borða nema ég væri svöng. Ég veit ekki hvað ég var þung þegar ég byrjaði en ég veit að ég hef eitthvað lagt af því leðurstígvél sem ég fyllti út í um miðjan júlí en notaði svo ekki aftur fyrr en 1. september eru orðin víð.
Frá því að við komum heim hef ég svo til viðbótar við það að borða „meðvitað“ forðast orkuríkan mat. Ég ætla samt ekki að telja hitaeiningar. Ég hef venjulega gert það þegar ég hef verið að léttast en hef hvað eftir annað selt sjálfri mér þá hugmynd að ég „eigi inni“ orkukvóta og megi þessvegna borða súkkulaði. Ég er ekki að segja að ég ætli að hætta sælgætisáti alfarið en sú hugmynd að maður eigi eitthvað inni, viðheldur þessu slæma mynstri, að borða eitthvað bara til að borða.
Vigtin heldur því fram að ég hafi lést um 1,8 kg á þremur dögum. Það er ekki raunhæft, þetta er örugglega aðallega vatnslosun en það er hvetjandi að sjá svona tölur. Var semsagt 50,9 kg á mánudagsmorgun (íííík!) en er 49,1 kg í morgun. Ég vil helst vera 46 kg en sætti mig við 47. Allt yfir 48 er ástæða til að gera eitthvað róttækara en að neita sér um brauð og sósur í nokkra daga. Og já, ég vigta mig daglega. Vatnsbúskapur líkamans getur valdið svo miklum sveiflum í þyngd að ef maður vigtar sig bara einu sinni í viku eða mánuði þá fær maður ekki áreiðanlegar niðurstöður. Ef maður hinsvegar tekur meðalþyngd hverrar viku og ber saman þá sér maður nokkuð nákvæmlega hvað er að gerast.
Síðan ég kom heim hef ég haldið því að borða bara þegar ég er örugglega svöng (sem er ekki eins oft og maður gæti haldið) en til viðbótar hef ég eldað orkusnauðan kvöldmat. Einar er ekkert spældur yfir því, finnst bara fínt að hafa pláss fyrir nammi seinna um kvöldið. (Hann þarf pláss til að borða nammi enda borðar hann ekki af vana eins og ég hef gert.)
Kvöldmáltíðir síðustu daga:
- Soðnar rauðrófur og laukur með smjöri (venjulega hugsað sem forréttur en ég notaði þetta sem aðalrétt)
- Couscous með góðri tómatsósu og pepperoni (couscous er náttúrulega bara sterkja en ég hafði ekki borðað neitt kolvetnaríkt þann daginn og borðaði hóflega)
- Graskerssúpa með beikoni og þykkri jógúrt (magurt, grillað beikon ca 75 gr á mann)
Graskerssúpan dugði mér reyndar ekki alveg. Fékk mér lítinn banana og ca 2 dl af mjólk um kvöldið en vigtin er allavega hamingjusöm.
Ég þyrfti að fara í eitthvert æfingaprógramm. Hef lítið úthald og er öll slöpp og ógeðsleg. Vandamálin eru tvö; mér finnst ekkert gaman að hreyfa mig og ég verð svöng af því. Líkamsrækt er helvítis vítahringur ef maður er að reyna að léttast því maður neyðist til að innbyrða orku til þess að geta eitthvað, þannig að það sem maður brennir hefur ekkert að segja upp á fitumassann. En vöðvar eru flottir og það er svosem kostur að geta gengið við hliðina á Einari án þess að standa á öndinni. Hans eðlilegi gönguhraði er skilgreindur sem hlaup. Megrun eyðir heldur ekki mörkögglaáferðinni, veit svosem ekki hversu mikið er til í því að líkamsrækt geri það en hún skaðar allavega ekki.
Ég ætla ekki að gera neitt róttækara en að borða lítið í þessari viku en næsta mánudag byrja ég á einhverju prógrammi, veit ekki hverju og ætla ekki að hafa áhyggjur af því fyrr en um helgina.