Mér gramdist þegar hugmyndir um sjónvarpsþátt fyrir konur sem hafa áhuga á einhverju öðru en tísku og karlmönnum fengu engar undirtektir. Ekki af því að sé ekki allt í lagi með þátt um þessa hluti sem almennt er viðurkennt að höfði til kvenna, heldur finnst mér bara svo sjúkt og rangt að svo fáari konur taki þátt í því að móta samfélag sitt og ég held að það þurfi kannski aðeins öðruvísi efni til að höfða til okkar en karlmanna. Þessvegna vildi ég sjá svoleiðis þátt. Þátt sem vekur áhuga minn á t.d. efnahagsmálum, skipulagsmálum og öðrum hlutum sem koma mér við en ég eyði litlum tíma í að setja mig inní og enn minni tíma í að tala um. Halda áfram að lesa
Greinasafn fyrir merki: Bleikt klám
Að skapa gjá milli kvenna
Mér finnst bleikt.is óþolandi síða. Ekki vegna þess hve hátt hlutfall af efninu snýst um tísku og sambönd heldur vegna þess;
- hvað þessi síða er hroðalegt dæmi um vonda blaðamennsku
- hvað er erfitt að komast hjá því að verða var við þennan hroða (ég hef engan áhuga á golfi en golfáhugamenn mega alveg stunda sitt golf í friði fyrir mér, mér þætti hinsvegar pirrandi að rekast daglega á eitthvert golfefni innan um fréttir sem koma mér við,
- hvað fjölmiðlar eru virkir í því að ýta undir þá hugmynd að umfjöllunarefni slíkra síðna séu einhverskonar kvenlegt norm,
- að það bæði hryggir mig hversu margar konur leggja lítið til samfélagsumræðu og sýna lítinn áhuga á öðru en því sem ég álít yfirborðslegt og ég finn til vanmáttar yfir því að geta ekki bara skipað öllum konum að hugsa sjálfstætt og hafa áhuga á því sem mér finnst mikilvægt.
Við sem hvorki erum karlar né konur
Vitur kona sagði eitt sinn „Það er eðlilegast og hollast fyrir konur að vera ekki að koma karlmönnum mikið inn í heim varalitsins og maskarans því þá dettur allur sjarmi niður!“
Á þeim tíma hélt ég að þessi hugsunarháttur einkenndi aðeins örfáar manneskjur en í dag veit ég betur. Í dag veit ég að munurinn á karli og konu felst í því að konur hafa áhuga á útliti sínu, snyrtivörum og kynlífi en ekki samfélagsmálum. Konur lesa skvísubækur og horfa á Sex & the City. Karlar hinsvegar, þeir eru bara svona allskonar. Halda áfram að lesa
Bleikt klám
Ég hef verið kölluð klámsinni, af því að ég er mótfallin ritskoðun. Af því að þótt mér kunni að þykja einhver list og dægurmenning vond og lágkúruleg, finnst mér tjáningarfrelsið of dýrmætt til að fórna því á altari smekklegheita og siðsemi.
Það er hinsvegar sitthvað ritskoðun og ritstjórn. Sumu efni hæfa bara ekkert hvaða miðlar sem er og klám er meðal þess efnis sem maður á að geta fulla stjórn á hvort maður verður var við eða ekki. Það er þessvegna sem dagblöð og aðrir almennir fréttamiðlar birta ekki hópreiðarsögur og innanpíkumyndir.
Undarlegt nokk virðist þessi ritstjórnarstefna þó eingöngu gilda um blátt klám. Það er hinsvegar orðið fátítt að ég opni íslenskan netmiðil, án þess að við mér blasi bleikt klám af einhverjum toga. Fréttir af einkalífi fólks sem hefur unnið sér það til frægðar að vera duglegt að djamma. Myndir af þessu sama fólki og tenglar á fróðleiksmola af bleikt.is. Ég held að Smugan sé eini miðillinn sem ég skoða reglulega sem hlífir mér við áreiti af þessu tagi.
Þeir sem hafa áhuga á þessu efni hafa greiðan aðgang að því og ekki vil ég að bleikt klám verði bannað frekar en blátt. Mér þætti hinsvegar við hæfi að fréttamiðlar sem vilja láta taka sig alvarlega, slepptu því að troða þessum hroða upp á lesendur sína.