Bleikt klám

Ég hef verið kölluð klámsinni, af því að ég er mótfallin ritskoðun. Af því að þótt mér kunni að þykja einhver list og dægurmenning vond og lágkúruleg, finnst mér tjáningarfrelsið of dýrmætt til að fórna því á altari smekklegheita og siðsemi.

Það er hinsvegar sitthvað ritskoðun og ritstjórn. Sumu efni hæfa bara ekkert hvaða miðlar sem er og klám er meðal þess efnis sem maður á að geta fulla stjórn á hvort maður verður var við eða ekki. Það er þessvegna sem dagblöð og aðrir almennir fréttamiðlar birta ekki hópreiðarsögur og innanpíkumyndir.

Undarlegt nokk virðist þessi ritstjórnarstefna þó eingöngu gilda um blátt klám. Það er hinsvegar orðið fátítt að ég opni íslenskan netmiðil, án þess að við mér blasi bleikt klám af einhverjum toga. Fréttir af einkalífi fólks sem hefur unnið sér það til frægðar að vera duglegt að djamma. Myndir af þessu sama fólki og tenglar á fróðleiksmola af bleikt.is. Ég held að Smugan sé eini miðillinn sem ég skoða reglulega sem hlífir mér við áreiti af þessu tagi.

Þeir sem hafa áhuga á þessu efni hafa greiðan aðgang að því og ekki vil ég að bleikt klám verði bannað frekar en blátt. Mér þætti hinsvegar við hæfi að fréttamiðlar sem vilja láta taka sig alvarlega, slepptu því að troða þessum hroða upp á lesendur sína.

Deildu færslunni

Share to Facebook