Af hverju er vandamál að stelpa vilji ekki vera strákur?

gettubetur

Mikið ofboðslega finnst mér það lítið vandamál að stúlkur skuli ekki sækjast mikið eftir því að taka þátt í spurningakeppni framhaldsskólanna.

Sumir telja þetta alveg ferlegt og öruggt merki um að stúlkum sé markvisst haldið niðri, hugsanlega séu þær lattar til þátttöku og allavega sé dræm þátttaka þeirra sönnun fyrir kvenlegri minnimáttarkennd.

Ég held að þetta sé þvæla. Sjálf þjáðist ég ekki af neinni minnimáttarkennd sem unglingur og taldi mig töluvert gáfaðri en þá flesta pilta sem ég umgekkst en aldrei hvarflaði samt að mér að taka þátt í spurningakeppni framhaldsskólanna. Ekki frekar en að mér hefði dottið í hug að læra öll trivial pursuit spjöldin utan að bara til að sanna gáfur mínar, mér gekk það bara svo ljómandi vel án svo hálfvitalegra aðferða.

Það eru margar ástæður fyrir því að stúlkur hafa minna sjálfstraust en drengir. Ein þeirra er sú að við ýtum stöðugt undir þá hugmynd að áhugamál karla séu merkilegri en áhugamál kvenna. Karlar virðast hafa meira keppnisskap en konur. Fleiri strákum en stelpum finnst gaman að flíka þekkingu sinni. Þeir virðast sjá meiri tilgang í því en stelpur að læra ofboðslegan helling af staðreyndum, í þeim tilgangi að vinna keppni. Þetta gæti verið hluti af skýringunni á því að strákar sækja meira í þessa keppni en stelpur. Kannski taka stúlkur það meira nærri sér að mistakast frammi fyrir áhorfendum, ég bara veit það ekki en ef það er staðreynd þá er til fullt af betri ástæðum til að byggja upp sjálfstraust stúlkna en sú að skortur sé á telpum til þátttöku í spurningakeppni.

Það er nefnilega ekki vandamál þótt stelpur séu ekki eins og strákar en hugsanlega er það vandamál hvað yfirborðsleg þekking aflar fólki mikillar virðingar. Það virðist þykja alveg óskaplega merkilegt að geta bunað út úr sér sem flestum svörum á sem stystum tíma þótt fólk lendi nánast aldrei í slíkum aðstæðum nema þá í svona keppni.

Mér þætti fróðlegt að sjá útkomuna ef stúlkur yrðu fengnar til að setja fram hugmyndir um einhverskonar spurningaþátt sem þær sjálfar gætu hugsað sér að taka þátt í. Mig grunar að sá þáttur yrði allt öðruvís en Gettu betur. Kannski yrði meiri áhersla lögð á útskýringar og minni á hraða. Kannski kæmi fram nýr efnisflokkur eða ný gerð spurninga.

Kannski ættum við að hafa minni áhyggjur af því að stelpur hafi ekki nóg sjálfstraust til að hegða sér eins og strákar og huga frekar að því að byggja upp samfélag þar sem bæði kynin fá að njóta sín og helst án þess að við þurfum alltaf að vera að einblína á kyn. Ég gæti m.a.s. best trúað því að ef hugðarefni kvenna nytu sömu virðingar og hugðarefni karla, myndu fleiri stúlkur hætta sér inn í þetta hallærislega pulsupartý sem spurningakeppni framhaldsskólanna er.

 

Deildu færslunni

Share to Facebook

One thought on “Af hverju er vandamál að stelpa vilji ekki vera strákur?

 1. það er heldur ekki neinn sómi að því að kalla þetta „hallærislega aðferð“ eða “ hallærislegt pulsypartý“ þar sem ég tel að unglingar í þessum skólum séu spenntir fyrir þessari keppni, hvort sem strákar eru í meirihluta eða ekki. Já kannski hafa „karlar meira keppnisskap en konur“ Og ég get ekki séð að hægt sé að ákvarða út frá spurningarkeppni hversu mikið eða lítið sjálfstraust stúlkur hafa. kveðja Nornin

  Posted by: svanfriður sturludóttir | 4.04.2011 | 9:45:14

  Takk fyrir innleggið.

  Mér finnst alveg ofboðslega hallærislegt að keppa í þekkingu. Mér finnst líka hallærislegt að keppa í fegurð. Hallærislegast finnst mér þó að stúlkan sem leggur á sig ómælt erfiði til þess að komast áfram í fegurðarsamkeppni er álitin hégómleg á sama tíma og strákurinn sem þjálfar sig í því að bunda út úr sér staðreyndum á ógnar hraða er álitinn gáfumenni, enda þótt keppnin þjóni nákvæmlega jafn miklum hégóma og fegurðarsamkeppni.

  Posted by: Eva | 4.04.2011 | 10:26:49

  Ég held að það sé nokkuð hæft í því að eitthvað við Gettu betur höfði betur til karla en kvenna, og gaman væri að sjá öðruvísi spurningaþátt. Væri fínt að stokka þetta form rækilega upp.

  Posted by: baun | 4.04.2011 | 20:59:56

  Það er gott að hafa val en það verður þá líka að vera raunverulegt.

  Verður ekki opinber stofnun, eins og Rúv, að gera keppnina þannig úr garði gerða að einstaklingar sem hafa gaman af því að læra svona staðreyndir utanað hafi sömu tækifæri til að taka þátt, hvort sem þeir eru stelpur eða strákar?

  Keppnin hefur í mörg ár verið afar karllæg. Einu sinni var fullt af stelpum í liðunum en þær hafa smátt og smátt horfið af sjónarsviðinu. Fer áhuginn minnkandi hjá þeim eða er stjórnendum og spurningahöfundum um að kenna?

  Posted by: Ibba Sig. | 11.04.2011 | 15:58:07

Lokað er á athugasemdir.