Að skapa gjá milli kvenna

images (1)

Mér finnst bleikt.is óþolandi síða. Ekki vegna þess hve hátt hlutfall af efninu snýst um tísku og sambönd heldur vegna þess;

  • hvað þessi síða er hroðalegt dæmi um vonda blaðamennsku
  • hvað er erfitt að komast hjá því að verða var við þennan hroða (ég hef engan áhuga á golfi en golfáhugamenn mega alveg stunda sitt golf í friði fyrir mér, mér þætti hinsvegar pirrandi að rekast daglega á eitthvert golfefni innan um fréttir sem koma mér við,
  • hvað fjölmiðlar eru virkir í því að ýta undir þá hugmynd að umfjöllunarefni slíkra síðna séu einhverskonar kvenlegt norm,
  • að það bæði hryggir mig hversu margar konur leggja lítið til samfélagsumræðu og sýna lítinn áhuga á öðru en því sem ég álít yfirborðslegt og ég finn til vanmáttar yfir því að geta ekki bara skipað öllum konum að hugsa sjálfstætt og hafa áhuga á því sem mér finnst mikilvægt.

Stundum taka vonbrigði mín og annarra sem eru sama sinnis, á sig mynd sem er líklegri til að fæla „bleiku konurnar“ frá áhuga á pólitík, vísindum og annarri menningu en tísku og útliti. Við tölum niður til þeirra. Gerum grín að vondu málfari. Einhver stofnar blogg sem er sérstaklega ætlað til að hæðast að stúlkum sem hafa áhuga á tísku. Við gubbum yfir eitthvað jafn kjánalegt og „rannsóknir sýna að konur með bólu á nefinu eru algjör dýr í rúminu“ á bleiku síðunum en horfum samtímis gagnrýnislaust á paranoju á borð við „rannsóknir sýna að karlar eru vitlausir í barnaklám“ hjá ákveðnum hópi feminista enda þótt báðir hóparnir séu með vafasöm vísindi á bak við sig. Prinsessuskóli verður að „námskeiði í hlutgervinu og undirgefni“, kona sem hefur meiri áhuga á að ala upp börn en að fara í háskólanám er sögð metnaðarlaus. Konur sem fjarlægja kynhár verða sjálfsvirðingarlaus fórnarlömb klámvæðingarinnar.

bleiktÉg lít á það sem vandamál ef fólk situr fast í viðjum staðalmynda. Það sem mér finnst dýrmætast við feminismann fyrir okkar samfélag í dag er mótspyrnan gegn því að kynferði ákvarði mikilvæga hluti eins og t.d. hvaða nám og störf við veljum, hversu vel við komumst af fjárhagslega, möguleika okkar á að njóta frístunda, verja tíma með börnunum okkar o.s.fv. Við þurfum á feministum að halda vegna þess að það eru þeir sem standa vaktina gagnvart þessum málum.

Feministum finnst stundum miða hægt og það er skiljanlegt að grípi um sig gremja þegar staðalmyndirnar, hlutgervingin, yfirborðsmennskan, sofandahátturinn virðist ekkert vera á undanhaldi. En ef hver sá sem nefnir hætturnar sem -ekki feminisk viðhorf, heldur frekar tilfinningaleg viðbrögð vonsvikinna feminista hafa í för með sér, er stimplaður karlremba eða sjónarmið hans afgreidd með dómum um grunnhyggni og skilningsleysi, þá erum við ekki að halda uppi umræðu heldur stofna til grjótkasts. Ef má ekki tala um neikvæðar birtingarmyndir gremjunnar þá mun hún bara skapa dýpri gjá milli kvenna, þrýsta á konur um að taka afstöðu með eða móti feministum. Og trúið mér, það er áreynsluminna að mynda sér skoðun á varalit en réttlætismálum. Auk þess sem vondar bækur og illa unnar fréttir seljast iðulega vel.

 

One thought on “Að skapa gjá milli kvenna

  1. ————————————-

    Flott grein.

    Benda óvenju fá „like“ til þess að konur (og stundum karlar) séu ekki tilbúnar að draga úr óheflaðri notkuninni á karlrembu-stimplinum?

    Posted by: Kristinn | 20.09.2011 | 9:58:50

    Ég skal alveg samþykkja að auðvitað geta femínistar stundum farið yfir strikið og orðið tilfinningalegir í staðinn fyrir að halda alltaf ískaldri rökfestu. Enda umræðan (sem betur fer!) víðfeðm og margslungin.
    En ég skil samt ekki það sem þú talar um sem „paranoju á borð við „rannsóknir sýna að karlar eru vitlausir í barnaklám“ hjá ákveðnum hópi feminista“. Hvaða hópi þá?
    Það að margir femínistar voga sér að benda á tengls milli kyns og ofbeldis, vændis og ofbeldis og fleira í þeim dúr, sem þú hefur oft mótmælt og afgreitt sem fórnarlambafemínisma, er það það sem liggur að baki þessarar staðhæfingar? Spyr sá sem ekki veit.

    Posted by: Kristín | 20.09.2011 | 15:04:08

    ————————————-

    Til að uppræta þessa staðalímyndahugsun sem þú mótmælir hér, þarf einmitt að huga að fyrirbærum eins og prinsessuskólum og kynhársfjarlægingum (stórkostlegt orð!). Við verðum að sjá hlutina í samhengi og ég get ekki betur séð en að flestir femínistar sem ég þekki séu einmitt að því…að skoða hvernig a hefur áhrif á b o.s.frv.

    Posted by: Þorgerður E. Sigurðardóttir | 20.09.2011 | 16:29:30

    ————————————-

    Takk fyrir innleggin.

    Kristín, ég hefði átt að skýra þetta með barnaklámið betur. Ég setti upp dálítið ýkt dæmi um það sem miðlar á borð við bleikt.is halda fram sem rannsóknum og á sama hátt er hitt dæmið ýkt. Það sem ég hafði í huga voru annarsvegar frekar hysterískar fullyrðingar um að vísanir í barnaklám séu á hverju strái, væntanlega af því að það á að vera svo vinsælt meðal karla(fyrir nokkrum árum sköpuðust t.d. miklar umræður um Smáralindarbæklinginn fræga og sú hugmynd að tilgangurinn með því að fjarlægja kynhár væri sá að líkjast börnum kom hvað eftir annað upp í umræðunni) og hinsvegar stórgallaðar „rannsóknir“ á tengslum kláms og kynferðsofbeldis og öðrum málum sem feministum eru hugleikin.

    Þeir íslensku feministar sem hvað mest hafa haldið gölluðum rannsóknum á lofti eru talsmenn fórnarlamba kynbundins ofbeldis. Ég er viss um að þeim gengur gott eitt til, vita hreinlega ekki hverskonar vinnubrögð eru að baki niðurstöðunum og eru ekki viljandi að blekkja neinn. Það er þó nauðsynlegt að draga vitleysurnar fram í dagsljósið því „rannsóknir“ sem sniðganga vísindalegar aðferðir gefa mjög brenglaða mynd af veruleikanum og það er ekki boðlegt að almenningur sé mataður á rangfærslum og fúski.

    Hérna er grein sem skýrir betur hvað það er sem er athugavert við vinnubrögð þeirra feminista sem vinna beinlínis út frá pólitískri rétthugsun:http://web.archive.org/web/20060111065947/http://www.woodhullfoundation.org/content/otherpublications/WeitzerVAW-1.pdf

    Hér er svo kvikmynd sem sýnir hvaða afleiðingar það getur haft þegar hollustan við tiltekinn málstað verður almennri skynsemi yfirsterkari:http://forrettindafeminismi.wordpress.com/2011/09/09/saenska-heimildamyndin-konskriget-kynjastrid/

    Baráttu feminista setur heldur niður við svona „vísindi“ og mér finnst jafnréttishugsjónin of mikilvæg til þess að sé verjandi að fólk fái gagnrýnislaust að halda fram svona vitleysu í nafni vísindanna.

    Posted by: Eva | 20.09.2011 | 16:51:52

    ————————————-

    Þorgerður, ég er alveg sammála því að það er rétt og gott að huga að þessu öllu saman. En þegar menn vaða af stað af meiri elju en fyrirhyggju (og ég er langt frá því að vera saklaus af því sjálf þótt minn eldmóður liggi á öðrum sviðum) þá er stutt í skotgrafahernað.

    Það má sannarlega staldra við og spyrja hvort prinsessuskóli sé vond uppeldisaðferð. Það er hinsvegar alger óþarfi að æpa „klámvæðing“ og „hlutgerving“ þótt litla stelpu langi að vera prinsessa.

    Ég hef kallað það „klofhárafeminisma“ þegar andúðin á hefðbundnum kynhlutverkum og áherslu á útlit kvenna, verður til þess að konur fara að efast um sjálfstæði sitt og jafnvel greindarfar ef þær kjósa það sem er talið kvenlegt. Ég þekki dæmi um konur sem segjast hafa algert ógeð á femínistum af því að þeim finnst vera talað niður til sín fyrir það eitt að hafa áhuga á tísku eða finnast bara ágætt að hafa skýra verkaskiptingu á heimilinu. Það er þessi klofhárafeminismi sem Davíð Þór deildi á núna um daginn og ég tel a sú gagnrýni eigi rétt á sér.

    Posted by: Eva | 20.09.2011 | 17:08:18

    ————————————-

    Kristinn ég held ekki að óvenju fá like bendi til þess að fólk vilji ríghalda í karlrembustimpilinn.

    Ég held frekar að fólk sem er mér sammála um þetta en skilgreinir sig sem feminista, sé tregt til að „læka“ af því að það er ósammála mér um eitthvað annað sem tengist feminisma og vill ekki gefa öðrum þá hugmynd að það sé sammála mér um allt. Sumir hafa líka kannski áhyggjur af orðspori sínu ef þeir mæla með grein þar sem ýjað er að því að feministar þurfi að endurskoða eitthvað hjá sjálfum sér.

    Hjá öllum jaðarhópum myndast oft sterk samkennd og fólk getur upplifað ákveðinn þrýsting um að taka afstöðu með eða á móti þótt sú krafa sé ekki orðuð beint. Þeir sem efast eru álitnir viðsjárverðir félagar og það að mótmæla pólitískri rétthugsun er jafnvel túlkað sem svik við málstaðinn.

    Ég legg því voðalega litla merkingu í fjölda flettinga „læka“ eða „kommenta“. Það sem skiptir máli eru áhrif til lengri tíma og þau verður tíminn að skera úr um.

    Posted by: Eva | 20.09.2011 | 17:24:49

    ————————————-

    Málið er bara að þessi öfgalýsing er það sem við erum að eiga við alla daga. Og það tekur tíma og krafta frá því sem væri svo miklu skemmtilegra og gáfulegra að eiga við.

    Posted by: Kristín | 20.09.2011 | 21:52:50

    ————————————-

    Flott ádeila og áhugaverðar pælingar í tjásunum hjá þér.

    Auðvitað hefði femínistahreyfingin gott af meiri sjálfsgagnrýni í stað þess að afneita þeim skilaboðum sem felast í gagnrýni á öfgaarm hennar.

    Ég hef einmitt tekið vel eftir þessum niðrandi skilaboðum til kvenna sem eru ekki „alvöru konur“ að mati forréttindafemínista. Merkilegt að það þyki ekki kvenfyrirlitning svona í daglegu tali.

    Posted by: Sigurður Jónsson | 20.09.2011 | 22:58:53

    ————————————-
    Ég er sammála þér að mörgu leyti, Eva,ég er til dæmis sammála því að það sé ekkert fengið með því að tala niður til þeirra sem hafa áhuga á þessum meintu kvenlegu gildum, hvort sem um konur eða karla er að ræða. Slík nálgun er engum til framdráttar, og það allra síst málstað femínista.

    En sumt þarf að skoða í stærra samhengi en þú gerir hér að mínu mati. T.d. er tengingin milli hlutgervingar, klámvæðingar og prinsessumenningarinnar langt frá því að vera út úr kortinu að mínu mati.

    Ágæta (og öfgalausa) útlistun á því má t.d. finna í þessari bók:
    http://www.amazon.co.uk/Living-Dolls-Return-Natasha-Walter/dp/1844087093/ref=sr_1_1?ie=UTF8&qid=1316622106&sr=8-1

    Posted by: Þorgerður E. Sigurðardóttir | 21.09.2011 | 16:22:34

    ————————————-
    Bara vegna þess að einhver ýkir einhvern tímann upp tölur eða framkvæmir einhverjar gervirannsóknir, þýðir ekki að allt sem skrifað er um þessar tengingar (t.d. milli klámvæðingar og ójafnréttis) sé rangt. Ég ætla mér að lesa þessa grein sem Eva bendir á, en því miður get ég það ekki alveg strax, því hún er full af vísunum og öðru, og þarfnast því góðrar yfirlegu.

    Posted by: Kristín | 22.09.2011 | 6:50:35

    ————————————-

    Það er heldur enginn að segja að það séu engin tengsl þarna eða að það megi ekki tala um þau. Ég held að umræða þar sem sem allra flest ólík sjónarmið koma fram sé líklegri til að bæta samfélagið en einsleit umræða.

    Mér finnst bara gott mál að öfgasjónarmið komi fram. Hinsvegar verða þeir sem víkja frá norminu að reikna með að þeim sé svarað og vera tilbúnir til að kannast við sjónarmið sín og ýmist verja þau eða endurskoða, í stað þess að halda því fram að gagnrýnandinn sé bara að misskilja eitthvað.

    Ég er heldur ekki sátt við að einhverju sé haldið fram í nafni vísinda sem standast enga skoðun. Skoðun er eitt, vísindi allt annað. Ég hef t.d. megna óbeit á lögreglunni og vil helst uppræta þá stofnun í núverandi mynd. Vitneskja mín um afglöp lögreglunnar gefur mér hinsvegar ekki leyfi til þess að halda því fram að þar sem lögreglan fari offari x-sinnum á ári, sanni það þá tilgátu að ofbeldismenn séu öðrum líklegri til að verða lögregluþjónar. Ef ég ætlaði að sanna að löggur séu eitthvað öðruvísi en annað fólk, yrði ég að velja breitt nógu úrtak lögreglumanna til að endurspegla alla stéttina en ekki bara alræmda hrotta.

    Posted by: Eva | 22.09.2011 | 10:17:55

    ————————————-

    Varðandi gallaðar femínískar rannsóknir þá bendi ég áhugasömum á bókina Professing Feminism eftir þær Daphne Patai og Noretta Koertge ásamt bókum Christina Hoff Sommers, Who Stole Feminism og The War Against Boys.

    Eftir lestur þessara bóka dylst engum að gervirannsóknir og ýktar tölur eru allt annað en bara untantekning í heimi kvennafræða. Ég vil reyndar ganga svo langt að segja að um kerfisbundnar falsanir sé að ræða.

    Christina sýnir ágætlega fram á það hvernig rannsóknir sem jafnvel enn í dag teljast til tímamótarannsókna eru aðferðafræðilega ónýtar.

    Posted by: Sigurður Jónsson | 22.09.2011 | 11:02:47

    ————————————-

    Það voru einmitt bækur Christinu Hoff Sommers sem opnuðu augu mín fyrir nauðsyn þess að taka feminiskum rannsóknum með fyrirvara. Þótt ég geti engan veginn tekið undir pólitískar skoðanir hennar (harðsvíruð hægristefna og hernaðarhyggja) get ég alveg mælt með henni fyrir þá sem vilja kynna sér rangfærslur og staðreyndafalsanir í kynjarannsóknum.

    Posted by: Eva | 22.09.2011 | 16:24:09

    ————————————-

    Mig grunar að Daphne Patai og Noretta Koertge séu nær þér í pólitíkinni. Án þess að ég viti það nákvæmlega þá held ég að þær séu vinstra megin við miðju. Annars held ég að það sé einmitt mikilvægt að horfa fram hjá pólitískum línum í þessum efnum. Bæði hægri- og vinstrisinnaðar konur geta farið út í öfgar í kynjuðu tilliti þó vissulega virðist þessi meinsemd leggjast meira á vinstrisinnaðar konur.

    Það sem er kannski athyglisverðast við bók þeirra Patai og Koertge, Professing feminism, er að þar er sett fram mjög hörð gagnrýni á kvennafræði af fólki sem lifir og hrærist innan greinarinnar. Höfundar segjast einmitt í inngangi bókarinnar, ef ég man rétt, hafa áhyggjur af því að skortur á sjálfsgagnrýni muni leiða til þess að kvennafræðin verði fyrir miklu bakslagi áður en langt um líður.

    Hér er fín rýni á bókina: http://www.feministcritics.org/blog/2009/07/27/professing-feminism-noh/

    Posted by: Sigurður Jónsson | 22.09.2011 | 19:32:29

Lokað er á athugasemdir.