Dólgalögin og afleiðingar þeirra

turn off the blue light

Í síðustu viku velti Elías Halldór Ágústsson upp þessari spurningu á snjáldursíðu sinni:

1)   ef vændi verður að fullu lögleg starfsgrein og
2)   ef atvinnuleysisbætur verða ekki borgaðar þeim sem [ekki] tekur störf í boði;
hlýtur hið opinbera þá ekki að neyða fólk í vændi? Síðustu tvö árin hef ég búið í Danmörku þar sem vændi er löglegt (enda þótt vændiskonur þar kvarti mjög undan ágangi sjálfskipaðra bjargvætta sem virðast hafa félagslegt samþykki fyrir því að angra fólk sem vill ekkert með þær hafa.) Ég þekki fólk sem árum saman hefur verið á atvinnuleysibótum eða félagsmálastyrk í Danmörku. Ýmislegt er gert til að reyna að hjálpa þessu fólki út á atvinnumarkaðinn og þrýsta á það að prófa störf sem það þekkir ekki. Ekki hef ég þó heyrt af því að neinum hafi verið boðið starf á vændishúsi, hvað þá að nokkur hafi verið þvingaður til að taka slíku starfi. Ég hef heldur ekki heyrt að neinn sem ekki hefur áhuga á þungarokkstónlist hafi verið þvingaður til að taka að vinnu þar sem slík tónlist glymur í eyrum eða að fólk sem þolir ekki að sjá blóð sé þvingað til að vinna í sláturhúsi. Sjálf leitaði ég til atvinnumiðlunar og var spurð hvaða störf ég gæti EKKI unnið. Sagðist helst vilja komast hjá því að aka leigubíl þar sem ég á mjög erfitt með að rata og er bílhrædd og það var góðfúslega tekið til greina. Siðmenntuð samfélög neyða fólk ekki til að taka vinnu sem því líður illa í, svo ég hef engar áhyggjur af því að Elías þyrfti að kveikja í félagsmálaráðuneytinu enda þótt Íslendingar hættu að líta á vændiskonur sem geðsjúklinga sem helst ætti að svipta sjálfsforræði.

8marts3

Hér má sjá gífurlegt þakklæti danskra vændiskvenna í garð feminstanna sem ætla að hafa vit fyrir þeim. Þess má geta að síðar um daginn var stafsetningarvillan leiðrétt enda fékk hún töluvert meiri athygli en það sem málið snerist um.

Svo sem vænta má þegar kyn og klám er annarsvegar, hafði spurningin í för með sér umræður og eitt af því sem kom til tals voru órökstuddar fullyrðingar um vændismarkaðinn svo sem að langflestum vændiskonum sé nauðgað, þær séu nánast allar fíkniefnaneytendur o.s.frv. Kona nokkur benti mér á „rannsóknir“ sem eiga að sýna fram á þetta, rannsóknir unnar af þeim sem standa að þessari síðu og rannsóknir sem byggja á speki þeirra kvenna sem halda henni úti. Ég hef töluvert við aðferðafræði þessara „vísindamanna“ að athuga og reiknaði í fyrstu með að þurfa að skrifa langa ritgerð til að fletta ofan af bullinu í þeim en var svo heppin að rekast á þessa ágætu grein eftir Ronald Weitzer. (Hún birtist í tímaritinu „Violence Against Women“ 11. árg. 7. tbl. júlí 2005, bls:934-949.)

sexwork7

Helstu niðurstöður Weitzers eru þær að;
-Melissa Farley, samstarfsfólk hennar og sporgöngumenn nálgist viðfangsefni sín beinlínis út frá þeirri hugmynd að það sé óumdeilanlegt að vændi sé í öllum tilvikum kúgun karla á konum.
-Orðræða þeirra beri vott um að rannsóknum þeirra sé fremur ætlað að afla skoðunum þeirra fylgis en að gefa raunhæfa mynd af veruleikanum.
-Aðferðir þeirra standist engan veginn vísindalegar kröfur og þar með séu niðurstöðurnar ekki marktækar.
-Túlkun niðurstaðna sé sömuleiðis vafasöm.
M.ö.o. þessar konur eru fúskarar og „rannsóknir“ þeirra eiga meira skylt við skáldskap en vísindi.

Það skal tekið fram að Ronald Weitzer er ekki neinn sérlegur baráttumaður fyrir lögleiðingu kláms og vændis, hann hefur einnig gagnrýnt óvandaðar rannsóknir þar sem dregin er upp glansmynd af þessum þáttum menningarinnar. Hann er fyrst og fremst fræðimaður sem gerir þá kröfu til fólks sem heldur einhverju fram sem vísindum að það vinni eins og vísindamenn en ekki grunnskólanemar.

Nú eru þessar konur (sem þrátt fyrir að vera ekkert annað en fúskarar, njóta óskiljanlegrar virðingar meðal dólgafeminista,) ekkert að reyna að fela ásetning sinn. Þær taka sjálfar fram að þær vinni út frá feminisku sjónarhorni og það er í sjálfu sér allt í lagi. Ég held að hlutlaus vísindamaður sé ekki til. Ástæðan fyrir því að menn vilja rannsaka tiltekið efni er sú að þeim finnst það áhugavert, hafa kynnt sér það og eru með tilgátu í huga. Það er ekkert leyndarmál og bara gott mál að það komi fram. En það að menn hafi ákveðna tilgátu í huga, gefur þeim hinsvegar ekki leyfi til að sniðganga vísindalegar aðferðir en kynna samt niðurstöður sínar sem vísindi.

Ég hafna að sjálfsögðu „rannsóknum“ á borð við þessar en sú sem mælir með þessu lesefni, benti mér einnig á norska rannsókn sem Cecilie Høigård og Liv Finstad unnu og kom fyrst úr 1986. Ég hef ekki fundið neitt um rannsóknir Cecilie Høigård og Liv Finstad á netinu fyrir utan örfáar tilvitnanir í bókina. Það að sömu konur og Ronald Weitzer gagnrýnir, skuli lofa bókina í hástert, vekur þó grun að hér séu jafnvel á ferðinni álíka vandaðir fræðimenn og enn styrkist sá grunur þegar í ljós kemur að Liv Jessen hefur gagnrýnt hana.

Liv_Jessen_og_henne_516626kLiv Jessen var í bjargvættaliðinu. Afstaða hennar gerbreyttist þegar hún fór að hlusta á konur í kynlífsþjónustu og áttaði sig á því að þeirra reynsla var ekki í neinu samræmi við ímynd róttækra feminsta. Árið 2004 hlaut hún mannréttindaverðlaun Amnesty fyrir baráttu sína fyrir réttindum vændiskvenna. Þetta var í fyrsta sinn sem Amnesty viðurkennir mannréttindi vændiskvenna á þann hátt.

 

Leit mín að greinum eftir þessar norsku konur leiddi hinsvegar til þess að ég datt ég niður á rannsóknir á afleiðingum þess að gera vændiskaup refsiverð. Þá stefnu þvinguðu dólgafeministar fram, vændiskonum til verndar, í fullkominni óþökk þeirra þrátt fyrir að 89% vændiskvenna í Noregi óttuðust að lögin hefðu í för með sér meira ofbeldi. Óþarft er að taka fram að þegar sömu lög voru tekin upp á Íslandi voru konur sem unnu á strippstöðum og erótískum nuddstofum ekki spurðar álits. Það þótti engin ástæða til hlusta á svoleiðis druslur þegar í boði voru útbrunnar krakkhórur sem gátu sagt þær hryllingssögur sem hljómuðu betur í eyrum fórnarlamdsfeminista.

Stuðningsmenn mannréttinda vændiskvenna hafa áður rannskað afleiðingar laganna og nóg er til af rannsóknum sem ekkert ólíklegt er að séu unnar af hlutdrægum aðilum.T.d. hér. Þó er þessi rannsókn frá Bergen ekki unnin af stuðningsmönnum lögleiðingar en hún leiðir í ljós nokkurnveginn það sama t.d. að:

-Nánast allar konurnar segjast hafa farið í vændi að eigin vali.
-Þær sem telja sig ekki hafa átt annarra kosta völ eru langoftast fíklar.
-Meðal kvenna af öllum þjóðernum eru konur sem hafa ekki minnsta áhuga á að hætta.

-Eftir að dólgalögin tóku gildi hafa þær færri kúnna.
-Verðið á þjónustunni hefur lækkað.
-Þ.a.l. er samkeppnin meiri.
-Minna öryggi og stöðugleiki í öllu tilliti, þær flytja sig oftar á milli staða og eru af ótta við að koma öðrum í vandræði, tregar til að segja frá því hvernig þær skipuleggja sig.
-Þær hafa neyðst til að laga sig að markaðnum, fleiri eru farnar að hleypa kúnnum inn á heimili sín.
-Þær verða fyrir meiri þrýstingi um að fara yfir sín mörk, t.d. að nota ekki smokk.
-Konurnar gefa kúnnunum meiri persónulegar upplýsingar um sjálfar sig en áður.
-Lægri tekjur hafa í för með sér meiri streitu og afrískar konur eru orðnar svo tekjulágar að þær neyðast til að betla til að hafa ofan í sig.

-Konur sem áður gátu leitað til lögreglunnar ef þær urðu fyrir ofbeldi eru ólíklegri til þess en áður. Það traust sem þó var til staðar er horfið bæði að mati vændiskvenna og lögreglu.
-Þriðjungur kvennanna segist ólíklegri en áður til þess að leita hjálpar hvort heldur er hjá félagsþjónustunni eða feminiskum samtökum og heimsóknum þeirra hefur fækkað til muna.

-Erfitt er að meta hvort ofbeldi hefur aukist eða dregið úr því.
-Stór hluti kvenna telur sig vera í meiri hættu en áður.
-Samheldnin milli kvenna á götunni hefur minnkað.
-Þær hafa neyðst til að gera sig ósýnilegar.
-Konur sem vinna einar og eiga ekki vini í sama bransa eru í mun meiri hættu á að verða fyrir ofbeldi. Öruggasta starfsumhverfið er þar sem margar konur vinna saman innandyra (vændishús, nuddstofur og strippstaðir) en mesta hættan á ofbeldi er ef kona fer ein með kúnnanum heim til hans. Erfitt er að mæla hversu algegnt er að konur fari með kúnnanum heim en ljóst er að það er orðið erfiðara fyrir vændiskonur að fá húsnæði á leigu og þær fara síður með kúnnana inn á hótel.

-Langflestar kvennanna telja lögin hafa haft neikvæðar afleiðingar fyrir sig.
downloadJúlí 2011: Vændiskonur í Kóreu berjast gegn því að vinnustaðir þeirra verði upprættir til að rýma fyrir öðrum byggingum. Þær voru semsagt ekki að biðja lögguna, félagsmálayfirvöld og feminista um hjálp til að komast út úr meintu ofbeldi heldur hótuðu þær að kveikja í sér til að verja rétt sinn til að sjá sér farborða.

Ljóst er að rannsóknir sem unnar eru af alvöru vísindamönnum gefa allt aðra mynd af vændi á Vesturlöndum en fúskið sem dólgafeministar halda á lofti. Engu að síður hafa þessar konur ótrúleg áhrif bæði í pólitík og einnig á hugmyndir almennings um stöðu vændiskvenna og tengsl ofbeldis og kynlífs. Þessi sænska heimildamynd sýnir sláandi dæmi um afleiðingar þess þegar áhrifafólk heldur fram einhverri þvælu í nafni vísindanna og samfélagið lætur það óátalið. Ég legg til að við höfum það sem sannara reynist og spornum gegn því að umræðan fari inn á sömu villigötur á Íslandi.

Deildu færslunni

Share to Facebook

One thought on “Dólgalögin og afleiðingar þeirra

 1. ——————

  Fúskrannsóknir má finna á öllum sviðum, á því er enginn vafi. En ég verð að segja að mér finnst myndin sem þú birtir hér af vændi heldur einfeldnisleg, hvað með mansal t.d.?

  Posted by: Þorgerður E. Sigurðardóttir | 25.09.2011 | 10:34:21

  ——————

  Ég birti enga sérstaka mynd af vændi hér, heldur taldi ég upp nokkrar afleiðingar þess að gera kynlífskaup saknæm og benti á að upplifun vændiskvenna á starfi sínu gefur ekki tilefni til slíkrar lagasetningar.

  Mansal og vændi frjálsra kvenna er ekki sambærilegt, ekki frekar en starf þessarar konu http://www.handidir.is/?PageID=23 á eitthvað skyld við þrælabúðir á Indlandi þar sem börn vefa mottur.

  Posted by: Eva | 25.09.2011 | 12:13:41

  ——————

  Það væri óskandi að þetta væri svona einfalt.

  Posted by: Þorgerður E. Sigurðardóttir | 25.09.2011 | 12:16:45

  ——————

  Svo er þetta ekkert spurning um að fúskrannsóknir finnist í öllum fræðigreinum. Hvað varðar feminisk fræði þá er meirihluti þeirra rannsókna sem haldið er á lofti þessu marki brenndur. Það er miklu auðveldara að finna fúskrannsóknir en alvöru rannsóknir sem lúta að vændi og kynbundnu ofbeldi og feministar á Íslandi vísa mjög gjarnan í Melissu Farley og álíka fagmenn. Margar ykkar hafa verið duglegar við að breiða út ýkjur og lygar. Það hefur t.d. verið fullyrt í fjölmiðlum að mörg dæmi séu um mansal á Íslandi og að það sé algengt að karlar loki konur sínar inni. Smá um það hér: http://www.norn.is/sapuopera/2011/02/eru_islenskir_karlmenn_kt_oges.html

  Posted by: Eva | 25.09.2011 | 12:37:46

  ——————

  Takk fyrir virkilega áhugavert ferðalag um þetta funheita málefni.

  Þetta svið er sjálfsagt einna frjóasti jarðvegurinn fyrir hugmyndafræði forréttindafemínista. Það er auðvelt að draga fram skuggahliðar og fáir eru líklegir til að varpa öðru ljósi á þetta þar sem þeir verða samstundis fyrir harkalegri þöggunartaktík úr herbúðum forréttindafemínista. Svo er líka svo auðvelt að kynda undir karlfyrirlitningu í gegnum þetta málefni sem ræður nú mestu um áhuga forréttindafemínista á því að mínu mati.

  Það er auðvitað óskiljanlegt að þessi „kvenfrelsishreyfing“ skuli virða skoðanir þeirra kvenna sem verið er að fást við að vettugi.

  Posted by: Sigurður Jónsson | 25.09.2011 | 13:10:40

  ——————

  En „þetta er ekki svona einfalt“ er eitt þeirra svara sem feministar koma alltaf með þegar þeir eru gagnrýndir fyrir ýkjur, útúrsnúninga og ófagleg vinnubrögð.

  Röktækni ykkar er t.d.
  -Útúrsnúningar. (Umræðan leidd að mansali, barnavændi og félagslegum vandamálum í þriðja heiminum þegar það sem umræðan snerist upphaflega um var lög sem gera kynlífskaup ólögleg á Norðurlöndum.)
  -Gefið í skyn að andmælandinn viti ekki hvað hann er að tala um (t.d. með klisjunni „þetta er ekki svona einfalt“ og að sjálfsögðu án þess að það sé stutt neinum rökum.)
  -Alhæft út frá persónulegri reynslu eða einstaka dæmum.
  -Tilfinningar feminista (Mér finnst vændi bara það ógeðslegt að ég trúi því ekki að öllum öðrum þyki það líka.)

  Ég velti upp tilgátu um ástæðurnar fyrir ýkjum ykkar hér:http://www.norn.is/sapuopera/2011/04/kapitaliskt_vihorf_kja_frettir.html

  Posted by: Eva | 25.09.2011 | 13:11:21

  ——————

  Hér er líka grein sem ég rakst á um daginn sem segir frá konu sem starfaði sem hálaunaður lögfræðingur á daginn en dómína á kvöldin þar sem hún misþyrmdi karlmönnum gegn greiðslu.

  http://www.dailymail.co.uk/news/article-2038543/Alisha-Smith-Lawyer-suspended-moonlighting-dominatrix-S-M-events.html

  Ég átti í einhverjum smávægilegum vandræðum með að munstra hana inn í kenningar forréttindafemínista um að hún hafi neyðst út í vændi og þar væru karlmenn undantekningalaust að nauðga henni þegar hún tæki að sér að misþyrma þeim gegn greiðslu.

  Ég átti miklu auðveldara með að finna til með henni fyrir þau ofsóknarkenndu viðbrögð sem hún varð fyrir en hún missti semsagt starfið sitt og varð heimsfræg fyrir þetta aukastarf sitt.

  Posted by: Sigurður Jónsson | 25.09.2011 | 13:22:43

  ——————

  „Siðmenntuð samfélög neyða fólk ekki til að taka vinnu sem því líður illa í…“

  Ekki veit ég hvernig samfélag á að fúnkera ef allir ætla bara að vinna við sitt draumadjobb.

  Stundum einfaldlega verður maður að taka þá vinnu sem býðst til að geta séð fyrir sér og vona… koma tímar og koma ráð…

  Posted by: Steina | 25.09.2011 | 14:47:10

  ——————

  Æ, vertu nú ekki að gera mér upp skoðanir og væna mig um ýkjur og lygar út frá einni málsgrein, þú veist ekkert um mig og mínar skoðanir.

  Posted by: Þorgerður E. Sigurðardóttir | 25.09.2011 | 19:05:00

  ——————

  Ég er lítið menntuð í feministafræðum en sumt finnst mér einfaldlega rangt. Vændi er í þeirri kategoríu. Allur viðbjóðurinn sem þrífst í kringum vændi, mansal og eymd ungra stúlkna/drengja – hvernig er hægt að segja við sjálfan sig að það sé í lagi þótt hægt sé að leita uppi dæmi um vel stæðar, vestrænar konur sem velja sér þetta sem atvinnu. Er það reglan, eða er það undantekningin í þessum bransa? Einfalt test í svona málum er að svara þessari spurningu heiðarlega: Væri ég stolt og glöð ef dóttir mín/systir mín væri í vændi?

  Posted by: baun | 25.09.2011 | 19:22:05

  ——————

  Baun, ef ég má. Hvar endar þessi hugsun? Ég gat í fljótu bragði látið mér detta í hug tugi starfa sem ég væri ekki soltur og glaður ef dóttir mín eða systir ynni við. Eigum við að banna það allt?

  Posted by: Sigurður Jónsson | 25.09.2011 | 19:30:39

  ——————

  Sigurður, jafnlítið stoltur og glaður og vændi? Hvaða störf myndu vekja þér jafn slæmar tilfinningar? Just sayin’…

  Posted by: hildigunnur | 25.09.2011 | 19:41:36

  ——————

  Ég hélt einfaldlega að það væri morgunljóst eins og mál standa í dag af hverju málin eru ekki svona einföld. Mansalsvændi er því miður ekki alltaf augljóst og þær konur sem eru seldar með þeim hætti segjast því miður oft selja sig af fúsum og frjálsum vilja. Þannig er einfaldlega erfitt að setja einfaldar línur milli mansals og vændis, svona þegar út í veruleikann er komið. Öðru var ég nú ekki að halda fram og hef aldrei heyrt um Melissu Farley.

  Posted by: Þorgerður E: Sigurðardóttir | 25.09.2011 | 19:49:57

  ——————

  Hildigunnur, Ég sagði ekkert um að ég gæti hugsað mér störf sem ég væri jafnlítið stoltur eða glaður yfir. Það eina sem ég sagði er að ég gæti látið mér detta í hug hellingur af störfum sem ég yrði ekki ánægður eða stoltur af að dóttir mín eða systir ynnu við.

  Við hljótum að geta verið sammála um að við erum á villigötum ef við leggjum þennan mælikvarða á hluti.

  Posted by: Sigurður Jónsson | 25.09.2011 | 19:57:34

  ——————

  Ég held að fólk sem stundar vændi og styður vændi eða kaupir vændi hljóti að vera samdauna þeirri ranghugmynd karlveldisins að karlar eigi rétt á að ríða konum. Önnur birtingarmynd hennar er sú að kona þarf að sanna að hún hafi ekki verið samþykk kynferðismökum, sé henni nauðgað, eins og samþykki kvenna fyrir kynmökum sé á einhvern hátt innifalið í kynhlutverki þeirra. Og ekki er langt síðan nauðgun í hjónabandi var ekki talin glæpur. Allt er þetta angi af sama meiði. Karlar eiga ekki frekar rétt á því að ríða konum en konur eiga rétt á því að geta stundað ríðingar.

  Posted by: hke | 25.09.2011 | 20:30:16

  ——————

  Ég man eftir að hafa lesið viðtal við konu í Þýskalandi sem var búin að vera atvinnulaus lengi og komin á neðsta stig atvinnuleysisbóta. Henni bauðst vinna við að svara í símann á hóruhúsi en veigraði sér við því. Hún var í viðali því ríkið hótaði að svipta hana atvinnuleysisbótum ef hún tæki ekki starfinu. Því miður komst ég aldrei að því hvernig þetta mál endaði.

  Í Þýskalandi er vændi löglegt. Það voru Græningjar sem vildu fyrir allnokkrum árum, með því að gera vændi að „eins og hverri annarri atvinnugrein“, vernda vændiskonur, veita þeim réttindi á borð við lífeyrissjóði, uppsagnarfrest osfrv. og færa vændið úr hinum hættulegu undirheimum upp á yfirborðið þar sem fólk gæti stundað vændi á siðmenntaðan hátt. Þetta var mjög vel meint en ég las heljarmikla greinargerð um afleiðingar þessara laga í Emmu (sem er reyndar feminískt blað) fyrir nokkrum árum. Þegar ég las bloggið þitt stakk mig að skv. því sem ég man voru afleiðingarnar ekki ósvipaðar þeim sem þú nefnir hér að ofan.

  Í fyrsta lagi voru afar fáar vændiskonur sem sóttu réttindi sín. Fæstar vildu opinbera sig sem vændiskonur fyrir ættingjum og samfélaginu, þær kusu sem sagt ekki að vera skráðar vændiskonur í kerfinu.
  Í öðru lagi sögðu þær sem talað var við að með normalíseringu vændis væri það orðið miklu grófara, venjuleg kynmök þættu ekki spennandi, markaðurinn kallaði á hreinar meyjar, undir lögaldri, engar verjur osfrv. (kannski er þetta bara þróunin, burtséð frá því hvaða lög gilda? Konurnar sem þú nefnir eru líka hræddari.)
  Í þriðja lagi þrífst mansal mjög vel innan löglegu vændishúsanna. Eigendur þeirra bera enga ábyrgð, vændiskonunum fylgja fölsuð skilríki upp á að þær hafi náð lögaldri og séu giftar Þjóðverjum. Eigendur vændishúsanna segjast bara hafa trúað þessum pappírum ef einhver spyr hvað þetta 13 ára brasilíska barn sé að gera í vinnu hjá þeim.

  Kona sem rak stórt og gamalgróið hóruhús sagði allar konurnar sem ynnu hjá henni hefðu verið misnotaðar í æsku, allar. Langflestar þeirra myndu hætta samstundis ef þær hefðu einhver úrræði. Þýska ríkið gerir allt til að hjálpa fólki að byrja í vændi (veitir jafnvel atvinnulausum hvatningarrstyrki) en ekkert til að aðstoða þá sem vilja yfirgefa þennan heim.

  Talar Weitzer um Þýskaland og reynslu þeirra einhverstaðar?

  Posted by: Guðrún D. | 25.09.2011 | 20:47:11

  ——————

  Ég held að vændi sé mannskemmandi fyrir kaupendurna ekkert síður en seljendurna.

  Posted by: HT | 25.09.2011 | 20:54:41

  ——————

  Sigurður, aftur, nefndu þau. Ég satt að segja er ekki viss um að ég finni mikið af slíkum störfum fyrir mína parta.

  Posted by: hildigunnur | 25.09.2011 | 21:04:43

  ——————

  Hvað er það með þig, „Sigurður“ – af hverju þorirðu ekki að koma fram undir nafni? Voðalegur aumingjaháttur er þetta.

  Posted by: Helga Þórey Jónsdóttir | 25.09.2011 | 21:06:52

  ——————

  Steina, það væri óskandi að allir gætu unnið við það sem þeim bara sýnist en það er ekki svo. Hinsvegar falla manni störf misilla og ég veit þess ekki dæmi að þau samfélög sem á annað borð greiða atvinnulausum framfærslustyrki, neyði fólk til að taka störfum sem það getur ekki hugsað sér. Veist þú til þess?

  Posted by: Eva | 25.09.2011 | 21:07:43

  ——————

  Baun, veltu því nú aðeins fyrir þér hvað langamma þín hefði sagt ef hún hefði verið spurð hvort hún yrði glöð og stolt ef dóttir hennar væri lesbía, eða bara amma þín. Hefði hún átt að afgreiða samkynhneigð sem viðbjóð eða sjúkleika, bara af því að henni fannst erfitt að tengja þessháttar kynhegðun við nána ættingja? Eða hefði hún kannski frekar átt að taka þá afstöðu að hún þyrfti ekkert endilega að skilja þá hegðun til að leyfa dóttur sinni að taka ábyrgð á sínu eigin lífi?

  Það er fullt af ógeði í kringum tísku- og tónlistarbransann en ég reyni samt ekki láta banna tísku og tónlist. Ég vil ekki að Darri stofni lífi sínu í voða með því að aka stórhættulegu mótorhjóli og ég vil ekki að Haukur fari milli landa á puttanum. En ég ræð því ekki.

  Posted by: Eva | 25.09.2011 | 21:22:26

  ——————

  Í Þýskalandi er lagalegur grundvöllur fyrir því að skikka fólk í vændi ef það er komið á Hartz IV atvinnuleysisbætur. Atvinnumiðlanir segjast reyndar taka tillit til þess ef konur vilji það ekki, en það er stórt grátt svæði; afgreiðsla á hóruhúsum, nektardans, berbrjósta þjónustustörf osfrv..

  http://blog99.de/185/hartz-iv-frauen-mussen-als-prostituierte-arbeiten/

  Posted by: Guðrún D. | 25.09.2011 | 21:24:26

  ——————

  hke. Fylgismenn lögleiðingar vændis eru fyrst og fremst samdauna þeirri feminisku hugmynd að konur eigi sinn líkama sjálfar og séu aukinheldur hugsandi verur sem eru færar um að taka eigin ákvarðanir. Verur sem hafa rétt til þess að hafa kynmök á þeim forsendum sem þær sjálfar kjósa, hvort sem þær forsendur eru ást, viðskipti eða bara stundargirnd.

  Vændi er ekki nauðgun. Þetta tvennt getur farið saman rétt eins og hjónaband og nauðgun getur farið saman.

  Posted by: Eva | 25.09.2011 | 21:28:51

  ——————

  Hildigunnur: Hernaður (dráp) og störf sem eru mjög heilsuspillandi. Nóg?

  Helga Þóra: Ekki skil ég hvaðan þetta kom en ef þér er eitthvað uppsiga við mig þá er þér velkomið að taka það upp á bloggi mínu eða senda mér tölvupóst (sem þú finnur á blogginu mínu). Mér finnst ekki við hæfi að leggja undir mig athugasemdakerfi annara í kítingar sem snúa ekki að því sem verið að er skrifa um og læt þetta því vera mitt síðasta svar til þín hér.

  Posted by: Sigurður Jónsson | 25.09.2011 | 21:31:54

  ——————

  Það er rangt að Þjóðverjar skikki konur í vændi. Fréttir af þessu tagi hafa komið upp af og til og virðist helst sem þetta sé afbökun á frétt sem birtist í The Telegraph snemma árs 2005. Hún var síðar leiðrétt. Það rétta er að atvinnumiðlanir bentu konum sem VILDU vinna á strippbúllum á vinnuveitendur en hinsvegar neituðu þær þessháttar vinnustöðum um að fá að auglýsa á vegum opinberrar vinnumiðlunar.

  En það er auðvitað sú saga er meira krassandi sem lifir.

  Posted by: Eva | 25.09.2011 | 21:53:49

  ——————

  Þorgerður ég veit náttúrulega ekkert um þínar skoðanir annað en það sem þú sjálf segir en ég hef ekki lesið nærri því allt sem þú hefur birt svo það er vel hugsanlegt að ég sé að gera þér upp hugmyndir. Ef þú hefur einhverntíma sagt eða skrifað eitthvað opinberlega sem hrekur þá hugmynd mína að þú sért hlynnt glæpavæðingu vændiskaupa og rökstyðjir það með þeim rökvillum sem ég nefndi hér að ofan, þá endilega gefðu mér upp heimilir.

  Posted by: Eva | 25.09.2011 | 22:06:08

  ——————

  Varðandi Þýskaland, ég finn ekki greinina frá 2005 en ég fann þetta strax:

  http://en.wikipedia.org/wiki/Prostitution_in_Germany#Aftermath

  „In 2009, the Bundessozialgericht ruled that the German job agencies are not required to find prostitutes for open positions in brothels. The court rejected the complaint of a brothel owner who had argued that the law of 2002 had turned prostitution into a job like any other; the judges ruled that the law had been passed to protect the employees, not to further the business.“

  Posted by: Eva | 25.09.2011 | 22:27:59

  ——————

  Ég sagði ekki að Þjóðverjar skikkuðu konur í vændi. Ég sagði að það væri lagalegur grundvöllur fyrir því. En það er reyndar ekki rétt hjá mér. Fór að lesa meira og sýnist ekki hægt að pína konur til að selja sig. Einnig vilja atvinnumiðlanir „taka tillit til þess“ ef þær vilja ekki vinna í þessum bransa, þ.e. einhver hliðarstörf en lögin taka ekki fyrir það. Það eru umræður um hvað þetta er loðið víða á netinu, m.a. á linknum sem ég setti hér að ofan (reyndar á þýsku).

  Posted by: Guðrún D. | 25.09.2011 | 22:30:00

  ——————

  Hvaða frelsi eða femínismi er falinn í því að einhver frói sér á líkama þínum gegn borgun? Vændi er þjónusta við karlmenn, á þeim forsendum sem ég nefndi áðan þar sem hugmyndin um að karlmaður eigi rétt á aðgangi að líkama konu er undirliggjandi. Þannig verður krafan um vændiskonur til. Mér finnst heldur ekki hægt að jafna saman áratugagömlum viðhorfum gegn samkynhneigð og viðhorfinu til vændis. Þetta snýst ekki um frjálslyndi eða umburðarlyndi eða kynslóðabil eða nýja tíma eða fjölbreytni í ævistarfi heldur inngróið valdaójafnvægi. Þessi rök sem hafa verið talin upp hér, segja mér ekkert nýtt. Mér finnst þau meira í ætt við meðvirkni, að kona eigi að vera frjáls til að láta kúga sig á forsendum sem karlar skilgreina.

  Posted by: hke | 25.09.2011 | 22:42:32

  ——————

  Nei annars Þorgerður, þetta var nú ekki sanngjarnt hjá mér. Auðvitað er það ekki þitt að afsanna eitthverjar hugmyndir sem ég ber upp á þig heldur öfugt og það er rétt ég get ekki dregið ályktarnir út frá svo litlu efni. Biðst hér mér afsökunar á þessari ósanngirni.

  Posted by: Eva | 25.09.2011 | 22:51:26

  ——————

  hke, það er ekkert frelsi fólgið í því að aðrir segi mér á hvaða forsendum ég megi afklæðast, láta mynda mig eða hafa kynmök. Þótt þú skiljir ekki hversvegna sumar konur kjósa að vinna við kynlífsþjónustu þá er það nú samt staðreynd að tugir þúsunda kvenna vilja gera það og líta ekki á það sem kúgun heldur tekjulind. Og nei þetta snýst ekkert um inngróið valdaójafvægi heldur um rétt kvenna (og karla) til að gera nákvæmlega bara það sem þeim sýnist við sinn eigin líkama.

  Af hverju treystir þú konum til að hugsa fyrir sig sjálfar þegar þær velja sér ógeðsleg störf eins og ristilskolanir, tannlækningar eða þingmennsku en ekki þegar þær velja sér ógeðsleg störf eins og klámmyndaleik eða vændi? Heldur þú að konur geti ekki hugsað rökrétt nema vera í nærbuxum?

  Posted by: Eva | 25.09.2011 | 23:00:46

  ——————

  HT, takk fyrir innleggið. Mig langar að vita þína afstöðu til skyndikynna. Telur þú þau vera mannskemmandi?

  Posted by: Eva | 25.09.2011 | 23:54:47

  ——————

  Flott mynd hjá þér af dönsku konunum. íslenskar konur mættu einnig sýna sama baráttuanda í verki.

  Hver er þá skýringin á þessu „dulda“ hjónabandi feminista og íslamista?

  Posted by: Rétthugsun | 26.09.2011 | 1:46:09

  ——————

  Nú bara veit ég ekki hvað þú ert að tala um Rétthugsun.

  Posted by: Eva | 26.09.2011 | 2:03:03

  ——————

  Ég fyllist sömu lamandi tilfinningunni og þegar ég reyndi að ræða við andstæðinga í virkjunarmálum. Það virðist sumum þykja nóg að taka afstöðu annað hvort með eða á móti, og nota svo allar röklistaraðferðirnar til að „sanna“ að þeir hafi rétt fyrir sér. Ég er ekki sátt við þær aðferðir.
  Í virkjunarmálum hef ég svo til engin hagfræðileg rök eða nokkuð annað „vísindalegt“ með mér. Ég hef bara þessa eigin tilfinningu og sannfæringu um að það sé rangt að byggja risavaxnar stíflur og gerbreyta landinu.
  Á sama hátt hef ég engin rök í þessu máli, önnur en að ég óttast klámiðnaðinn. Ég sé konurnar sem eru sannarlega þrælar, þessar austur-evrópsku, sem eru narraðar til annarra landa og halda að þær séu að fara að vinna heiðarlega vinnu. Ég sé þær standa hérna úti við hringveginn utan um París. Þær eru grindhoraðar, með lélegt hár, bauga og óhamingjan skín af þeim. Ég vil að þetta kerfi sé brotið niður, ég vil alla þessa karla sem gera út konur með valdi, bak við lás og slá (þó ég sé í raun líka ósamþykk fangelsun, ég bara hef enga aðra lausn þar heldur).
  Ég fylgdist af áhuga með hamingjusömu hórunni sem reis upp í Frakklandi í kringum árið 2000 og mætti í hvern sjónvarpsþáttinn á fætur öðrum. Það er sama hverju ég gúggla, ég finn ekkert um hana. Hún sagðist hafa val um að vera kassadama eða vændiskona og valdi vændið. Gott og vel. Í raun hef ég ekkert gegn hennar afstöðu, en ég stend fastar á því en fótunum að það er eitthvað mjög óhugnalegt og bjagað við vændi og klám. Og ég stend fastar á því en fótunum að klám er orðið ALLT OF sýnilegt hér í Frakklandi. Ég skal taka mynd af útstillingunum hjá blaðasalanum mínum og sýna ykkur hvað ég og börnin mín höfum fyrri augum alla daga. Ég vil þetta burt. Blaðasalinn segist engu ráða, hann setur ekki blöðin í útirammana sjálfur. Það ræður enginn neinu, en allt þjóðfélagið er gegnsýrt af klámauglýsingum og leikfangabúðir eru gegnsýrðar af kynbundnum leikföngum og ég held að þetta sé allt saman hægt að setja í samhengi og berjast gegn.
  Eva er búin að ákveða að trúa Weitzer, sem hefur eflaust margt til síns máls. Ég er búin að ákveða að vera sönn minni sannfæringu, og tek þá áhættu að vera kölluð tepra, eða femínastisti með sand í píkunni eða hvað annað sem þið viljið nota gegn mér.

  Posted by: Kristín | 26.09.2011 | 6:45:05

  ——————

  Gott og einlægt innlegg hjá henni Kristínu.

  Ég er algerlega sammála því að klám er víða of sýnilegt, að það stríðir gegn hugmyndum mínum um siðað samfélag að það þyki í lagi að viðskipti með klám og kynlíf blasi við fólki (líka börnum) í allar áttir (ekki síst á internetinu). Hvað skal gera til að skapa heilbrigt samfélag þar sem kynlíf er ekki taboo, án þess að rauð ljós logi í heilu götunum í miðbænum er þó erfitt að segja.

  Mér þykir hinsvegar líka afar mikilvægt að það skapist ekki einhver rúllandi bolti oftúlkana og lyga í skjóli rétthugsunar. Þegar hamingjusama hóran er mýta, þegar öll viðskipti með kynlíf eru nauðganir/ofbeldi og svo framvegis er tungutakið orðið mettað bulli sem getur ekki verið gott til lengdar – við hljótum að eiga að reyna að hanga í sannleikanum – hvort sem hann fellur okkur í geð eða ekki.

  Ofsafengin einhliða og svarthvít umfjöllun um þess mál einkennir feminíska orðræðu og fólk sem andmælir er umsvifalust sakað um að hafa einhverjar annarlegar langanir til að viðhalda kerfi kúgunar á konum, þegar raunverulega er bara um stríðandi hugmyndir um persónufrelsi og vægi heimilda að ræða.

  Það hefur margsinnis sýnt sig að femínismi elur á vija til að treysta aðeins upplýsingum sem falla að fyrirfram gefnum hugmyndum um eðli hlutanna í skugga feðraveldisins (sjá t.d. Könskriget). Sú kenning (feðraveldið) er bara ekki tæmandi og má ekki lita allt val á heimildum og túlkanir á þeim – án þess að ég sé að segja að femínistar hafi ekki oft mikið til síns máls.

  En á meðan femínistar fagna því að notast sé við reiðilega vandlætingu til að þagga niður gagnrýna umræðu, á hreyfingin meira skylt við trúarbrögð en mannréttindabaráttu. Hversu oft hefur maður t.d. séð því haldið fram fullum fetum að hamingjusama hóran sé ekki til, að allt klám sé ofbeldi og að þeir sem mótmæla því séu samdauna feðraveldinu, en ekki bara að beita eigin rökhugsun og skynsemi?

  Kynin hafa ýmsa eðlislæga eiginleika, bæði sýnilega og dulda. Það mun alltaf hafa áhrif á gang mála, rétt eins og félagslega mótaðar hugmyndir um kynin hafa áhrif á gang mála. Það þarf að fjalla um þetta allt saman af dálítilli hógværð, því við skiljum þetta ekki einu sinni það vel allt saman og því fer fjarri að femínistar geri þessum pælingum alltaf vel skil.

  En mig grunar að margur femínistinn sé kominn í „tilgangurinn helgar meðalið“ gírinn. Sannleikurinn fær umsvifalaust að fjúka ef það þykir líklegt til að allir taki upp það viðmót að vændi sé ofbeldi, að heimilisofbeldi virki bara á einn veg og fleira í þeim dúr. Það eru hinsvegar augljóslega ekki mjög sannar fullyrðingar og það þarf að mega ræða á heiðarlegum nótum.

  Tónfallið í innleggi Kristínar þykir mér ágætlega til þess fallið að málin séu rædd. Algengara er að hrokafullir femínistar (er ekki að segja að Kristín sé það) fullyrði að þeirra gögn og túlkanir séu þær einu réttu og að aðrir misskilji alla hluti og skilji ekki femínisma – að hlutirnir séu bara ekki svona einfaldir, að um einfeldnislega nálgun sé að ræða og síðan er oftúlkað og bullað um sjónarmið gagnrýnenda.

  Með von um góðar vangaveltur á bloggi nornarinnar.

  mbk,

  Posted by: Kristinn | 26.09.2011 | 10:09:52

  ——————

  Kristín ég kann lítið í hagfræði en mín rök gegn virkjanastefnu og stóriðju eru þau annarsvegar óafturkræfar breytingar á náttúrunni og hinsvegar mannréttindabrot, þ.e.a.s. auðlindrán og landrán gagnvart fólki sem getur ekki borið hönd yfir höfuð sér og hefur auk þess verið rekið á vergang með lögregluvaldi. Ég hef hinsvegar ekkert á móti því að rafmagn sé framleitt til að mæta þörfum heimila og smáfyrirtækja og mér finnst álframleiðsla sem slík alveg eiga rétt á sér, hún er bara svo miklu, miklu meiri en nauðsyn krefur, neysluhyggjan er að eyðileggja jörðina og stór hluti af áliðnaði fer í hergagnaframleiðslu, bíla og fleira sem vel má draga verulega úr.

  Á sama hátt er ég mótfallin glæpastarfsemi í kringum klám- og kynlífsiðnað. Ég vil hinsvegar að fólk fái að velja sér sitt líferni sjálft þótt það feli í sér kynhegðun sem flestir kjósa ekki, rétt eins og ég vil að fólk sem það kýs fái að búa við frumstæðan landbúnað sem flestum finnst bara ömurlegt, frekar en það sé neytt til að flytja inn í þorp og vinna hjá verksmiðjum.

  Ég skil vel ótta þinn og óhugnað þegar þú hugsar um allar þessar austur-evrópsku konur sem eru narraðar til Vesturlanda og gerðar út gegn vilja sínum. Málið er hinsvegar að það er bara hrein og klár lygi að það sé algegnt.http://www.guardian.co.uk/uk/2009/oct/20/government-trafficking-enquiry-failshttp://www.bayswan.org/traffick/Weitzer_Criminologist.pdf
  http://www.spiked-online.com/index.php/site/article/8324/ Og það eru ekki bara tölur um mansal sem eru beinlínis falsaðar heldur á það sama við um nánast allt sem snertir þennan geira. Þessar konur eru ekki vísindamenn, þær eru í trúboðsferð.

  Ástæðan fyrir því að ég trúi Weitzer er sú að ég sé gallana á þessum gervirannsóknum sem hann gagnrýnir. Ég get ekki tekið „vísindamenn“ alvarlega þegar þeir sniðganga vísindalegar aðferðir og ég mun seint samþykkja pólitík sem gengur út á að vernda fólk sem berst með kjafti og klóm á móti þeirri vernd.

  Posted by: Eva | 26.09.2011 | 10:33:54

  ——————

  Kristinn ég þekki Kristínu og hún er ekki „hrokafullur feministi“ og reyndar held ég að langflestir þeirra sem vilja afnema allt klám og kynlífsþjónustu séu einfaldlega sannfærðir um að sú ímynd sem Melissa Farley og hennar fólk dregur upp sé raunveruleg. Ég væri sjálf í heilagri herferð gegn vændi ef ég hefði trúað því að þessar konur væru nánast allar þrælar og þær sem vilja lögleiðingu allar á kókaíni. Það er ekki við því að búast að fólk sjái hlutina í réttu ljósi þegar hreinum og klárum lygum er haldið á lofti í fjölmiðlum og pólitískar ákvarðanir teknar á grundvelli þeirra.

  Varðandi klámið þá er ég bara alveg sammála því að það á ekkert að blasa við hvar sem er. Ekki frekar en að börnum sé réttur smávegis áfengisdreitill fyrir utan hverja matvörubúð. Sumir þættir menningarinnar eru bara þannig að fólk á að geta sniðgengið þá án þess að skipuleggja ferðir sínar sérstaklega með tilliti til þess. Ég væri líka til í að „fréttamiðlar“ hættu að troða upp á mig slúðri af fræga fólkinu.

  Posted by: Eva | 26.09.2011 | 10:45:40

  ——————

  Ég tók það nú sérstaklega fram að ég væri ekki að segja að Kristín sé hrokafullur femínisti, en það er bara gaman að heyra að þú vitir að hún sé það ekki.

  En hverju breytir það að þeir trúi þessu af einlægni (séu sannfærðir)? Er ekki samt eðlilegt að sýna smá hógværð í umræðum og minnast þess að heimildir geta verið hlutdrægar og falskar – sérstaklega þegar þeir sem kokka þær eru undir áhrifum hugmyndafræðinnar?

  Posted by: Kristinn | 26.09.2011 | 12:14:18

  ——————

  Miðað við það hvað þetta þrælahald er sýnilegt hér í Frakklandi, held ég að meginástæður fyrir því hversu erfiðlega gengur að uppræta það sé sú að of miklir peningar eru í húfi, of valdamiklir einstaklingar halda verndarhendi yfir því. Kannski hef ég rangt fyrir mér, og ég vona það sannarlega, en ég tel mig ekki hafa sannanir fyrir því, þó að lögreglu hafi ekki tekist að afhjúpa það. Ég leyfi mér í því samhengi að minna á það hverjir hafa verið dregnir fyrir dóm á Íslandi í kjölfar hrunsins.

  Posted by: Kristín | 26.09.2011 | 13:07:16

  ——————

  Ég sé ekki að vændi sé eitt af kynhlutverkum kvenna. Ég sé heldur ekki að vændi eigi eitthvað skylt við skyndikynni. Ekki sé ég hvaða frelsi er falið í athöfnum vændiskonu með kúnnanum, sem væntanlega telur sig mega gera hvað sem er við hana í krafti yfirburða sinna. Sá sem kaupir vændið vill fá það sem hann borgar fyrir og skilgreinir það sjálfur. Ekki vændiskonan. Ekki get ég ráðið af viðtölum við vændiskonur sem hafa birst í íslenskum fjölmiðlum að mikil virðing eða reisn sé falin í samskiptum við þá sem þær selja sig, miklu frekar kúgun, ofbeldi og niðurlæging. Ef vændi er jafn skaðlaust og fyrirhafnarlítið og þú virðist vilja trúa, hvers vegna þarf þá að nauðga stúlkum sem eru narraðar í vændi til þess að brjóta þær niður? Ég nefni sem dæmi mál litháísku stúlkunnar sem dæmt var í fyrra. Er veröldin sem sá dómur veitti innsýn í bara hugarburður?

  Posted by: hke | 26.09.2011 | 14:55:11

  ——————

  Svo er annað, fyrirsætur sem ná langt eru undantekningalaust mjög vel launaðar og annar vettvangur þar sem konur fá rausnarlega umbun, að eigin sögn, er súludans. Þegar fjallað er um fyrirsætustörf eða fegurðarsamkeppni er áherslan ævinlega á hversu mikil tækifæri blasa við konum sem vilja sjá sér farborða með útlitinu. Hvers vegna skyldi það vera? Af hverju eru störf þar sem konur sýna líkama sinn jafn þóknanleg og vel borguð og raun ber vitni? Er mikill kynbundinn launamunur í þessum greinum, konum í óhag? Eru það aðallega konur sem skilgreina og meta virði kvenna á fyrrgreindum vettvangi? Ég leyfi mér að fullyrða að svo sé ekki og tel að frelsið sem þú virðist trúa á að sé fyrir hendi konum til handa, sé vandfundið. Veröldin sem blasir við okkur er fyrst og fremst skilgreind út frá þörfum og hugarheimi karla og ekki hægt að taka vændi út úr þeirri jöfnu sérstaklega.

  Posted by: hke | 26.09.2011 | 16:44:40

  ——————

  hke ég er sammála, vændi er ekki eitt af kynhlutverkum kvenna. Ekki heldur skúringar eða umönnunarstörf. Þetta eru allt saman störf sem fáir kæra sig um að binda sig í nema fá borgað fyrir það.

  Þú þarft ekkert að skilja hvaða frelsi vændiskonur sjá í því að fá að vera í friði. Þú þarft bara að virða það.

  Það er rangt hjá þér að það sé kúnninn sem skilgreini hver þjónustan eigi að vera. Það á við um kynlífsþrælkun en frjálsar vændiskonur setja sína skilmála sjálfar. Þær verða stundum fyrir þrýstingi um að bjóða upp á eitthvað annað en þær vilja og mestu líkurnar eru á að þær eru á að þær láti undan því ef þær eru í slæmri fjárhagsaðstöðu hafa ekki stuðningsnet annarra í sama geira og ef þær fara heim með kúnnanum.

  Viðtölin sem þú sérð í íslenskum fjölmiðlum eru langoftast viðtöl við þær konur sem hvað verst eru staddar. Illa farnar af fíkniefnaneyslu, fórnarlömb ofbeldis og á allan hátt hryllilega á sig komnar. Ég gæti með sömu aðferð „sannað“ að tónlistarbransinn sé viðbjóður sem ætti að banna, að full ástæða sé til að banna bíla og að verðbréfaviðskipti leiði menn út í fíkniefnaneyslu.

  Enda þótt skúringar séu tiltölulega skaðlausar, væri ég ekki sátt við að mér yrði rænt og ég hneppt í skúringaánauð. Það þyrfti að beita mig ofbeldi til að fá mig til að vinna. Það sama gildir vintanlega um kynlífsánauð, það er engin manneskja til í að láta hneppa sig í þrældóm. Kynlífsánauð er þekki það sama og vændi.

  Mál litháísku stúlkunnar er einstakt. Hún hegðaði sér eins hrætt fólk gerir. Það þurfti ekki að elta hana á röndum og eyðileggja viðskiptin fyrir henni til að sannfæra hana um að hún væri þolandi. Það hefur enginn haldið því fram að mansal fyrirfinnist ekki. Hinsvegar eru þær tölur sem sjálfskipaðar bjargvættir gefa upp algerlega úr lausu lofti gripnar. Eins og reyndar flestar fullyrðingar dólgafeminista, þ.m.t. bullið um að vikulega falli sænsk kona fyrir hendi maka síns, sem sjá má í Könskriget.

  Posted by: Eva | 26.09.2011 | 16:45:08

  ——————

  hge, er ekki áherslan á tækifæri kvenna sem gera út á útlit sitt bara svipuð og hjá íþróttamönnum? Þetta eru störf sem eru þess eðlis að ferillinn er búinn um 35 ára aldur eða fyrr þannig að það er eins gott að mjólka beljuna hratt.

  „Af hverju eru störf þar sem konur sýna líkama sinn jafn þóknanleg og vel borguð og raun ber vitni?“

  -Vegna þess að karlar eru nógu hrifnir af flottum kroppum til að vera reiðubúnir til að borga. Er annars eitthvað að því að konur eigi líka möguleika á góðum tekjum?

  „Er mikill kynbundinn launamunur í þessum greinum, konum í óhag?“

  -Þetta finnst mér undarleg spurning. Það eru mjög fáir karlar í þessum bransa og ég bara veit ekki hvort þeir hafa hærri tekjur. Hefurðu ástæðu til að halda að vændiskarlar og karlstripparar séu á hærri launum að jafnaði en konur í sömu störfum?

  „Eru það aðallega konur sem skilgreina og meta virði kvenna á fyrrgreindum vettvangi?“

  -Nei, það eru framboð og eftirspurn auk félagslegra þátta (svosem áhættu á að kúnninn fái á sig ákæru) sem ræður verðinu. Í Noregi lækkuðu t.d. tekjur vændiskvenna í kjölfar þessar verndarstefnu sem feministar nauðguðu upp á þær. Konan getur hinsvegar hafnað kúnna ef hún vill hann ekki og hún getur hætt þegar hún vill.

  Frelsið sem ég trúi á er einfaldlega reynsla mörg hundruð þúsunda kvenna sem harðneita því að þær séu þrælar. Kvenna sem femnistar fá óáreittir að valta yfir, með þeim rökum að konur sem hafa önnur siðferðisviðhorf og sjá kynlíf í öðru ljósi en þær, séu bara geðveikar.

  Posted by: Eva | 26.09.2011 | 17:02:46

  ——————

  Það sem vændi á skylt við skyndikynni eru þau rök sem oft heyrast að þar sem ástartilfinningar séu ekki hvati vændis þá sé það þar með ógeðslegt. Fólk stofnar ekki til skyndikynna af ást svo það hlýtur þá að vera jafn ógeðslegt og niðurlægjandi. Eða hvað? Verður það bara niðurlægjandi ef konan á fyrir leigubíl heim?

  Posted by: Eva | 26.09.2011 | 17:13:51

  ——————

  „Er annars eitthvað að því að konur eigi líka möguleika á góðum tekjum?“ spyrð þú. Nei, það er hið besta mál. Það sem truflar mig hins vegar er að háar tekjur þyki einkum sjálfsagðar þegar konur nota líkama sinn sér til viðurværis – það kalla ég ekki frelsi, að konu sé frjálst að gera hvað sem hún vill við líkama sinn, eins og svo oft er haft á orði, heldur kúgun, því hvers vegna ætti virði konunnar eða valmöguleikar að einskorðast við líkama hennar? Launamunur kynjanna er ekki hugarburður, við hljótum að geta verið sammála um það, og athyglisvert að ein ábatasamasta iðja sem kona getur tekið sér fyrir hendur verði til af því að karlar eru nógu hrifnir af flottum kroppum til að vilja borga, eins og þú orðar það. Störf þar sem konur eru í meirihluta eru yfirleitt nefnd kvennastörf og launin endurspegla það, nema í fyrrgreindum tilvikum, þar sem konur selja á sér líkamann á einhvern hátt. Það er skýrt dæmi um það að við lifum í karlaveröld og að það eru einkum karlar sem skilgreina hvers virði konur eru í peningum. Vændisstarfsemi er rekin á forsendum karla, fyrir karla, og ég sé bara ekki frelsið í því að möguleikar og hlutverk kvenna séu skilgreind af körlum. Maður þarf ekki að lesa reynslusögur margra verðbréfamiðlara til þess að átta sig á því hvaða hlutverki konur gegna í þeirri veröld, svo annað dæmi sé tekið – þær eru nánast ósýnilegar nema þegar karlarnir kaupa sér kynlífsþjónustu.

  Posted by: hke | 27.09.2011 | 14:18:54

  ——————

  Við erum sammála um að ýmislegt ætti að vera öðruvísi. Mér finnst t.d. að umönnunarstörf ættu að vera gífurlega vel launuð. Þau eru það hinsvegar ekki og því miður þá lifum við í veruleikanum en ekki útópíu.

  Gott og vel setjum sem svo að vændi sé rekið á forsendum karla og fyrir karla (ég er ekki viss um að það sé svona einfalt en gerum ráð fyrir því.) Á hverra forsendum eru hreingerningar og elliheimili rekin? Forsendum kvenna? Ef svo er þá skila forsendur karla helvíti miklu meiru í launaumslagið.

  Posted by: Eva | 28.09.2011 | 2:47:16

  ——————

  Hreingerningar og elliheimili eru ekki rekin á forsendum kvenna en endurspegla hins vegar hvers virði slík störf eru í augum karla. Við erum líka sammála um að forsendur karla skili miklu meiru í launaumslagið enda búum við í veröld þar sem karlar skilgreina virði kvenna. Sjónarhorn karla er yfirgnæfandi. Eitt mjög einfalt, bókstaflegt dæmi. Fyrir nokkrum árum var birt mynd af handboltakonu á forsíðu íþróttakálfs DV. Myndin þakti alla forsíðuna og var nafn íþróttakonunnar í myndatexta, enda var hún framúrskarandi íþróttamaður. Konan sem myndin var af var hávaxin, með stutt dökkt hár og ekkert sérlega smáfríð. Hún var út úr fókus. Í forgrunni var önnur kona með sítt ljóst hár, sem ekki var nefnd í myndatexta og mun fallegri samkvæmt ríkjandi útlitsnormi. Hún var í fókus. Myndin var sem sagt birt og þótti fullboðleg, þótt myndefnið væri úr fókus því fegurri kona sem hvergi var nefnd á nafn var í fókus. Annað einfalt dæmi er útsendingar stórviðburða á heimsvísu í boltaíþróttum þar sem myndavélarnar leita iðulega uppi sætar, helst léttklæddar stelpur. Ljósmyndarar sem fara á rölt á góðviðrisdegi enda oftar en ekki í sundlaugunum þar sem stelpur á bikini sóla sig. Við sjáum/horfum oftar en ekki á veröldina (og okkur sjálfar) með augum karla. Takk fyrir spjallið 🙂

  Posted by: hke | 28.09.2011 | 15:15:31

  ——————

  Við erum ekkert ósammála um það að áherslan á útlit og yfirborð er ergileg. Ég er hinsvegar ekkert viss um að það sé hægt að afgreiða það sem eitthvert sérkarllægt fyrirbæri.

  Posted by: Eva | 28.09.2011 | 16:02:33

Lokað er á athugasemdir.