Þetta er voða vondur húmor.
Ekki rassgat betri en karlrembuhúmor og ekki einu sinni fyndinn.
Ég er hreint ekki saklaus af tilhneigingu til karlfyrirlitningar. Hef oft gengið í gegnum tímabil þar sem ég hef yfirfært slæma reynslu mína á stóran hluta karlkynsins og fundið einhverja undarlega fróun í húmor sem ber meiri vott um fordóma en kímnigáfu.
Og það er oft skiljanlegt. Karlmenn geta verið óþolandi. Konur áreiðanlega líka. Ég finn iðulega fyrir því að vera, á þessum kvenfrelsistímum og þrátt fyrir að hafa sæmilegt bein í nefinu, af „hinu“ kyninu, tilheyra einhverskonar minnihlutahópi sem þó er í rúmum meirihluta. Ég þekki konur sem þurfa að berjast fyrir því að störf þeirra njóti sannmælis á sama tíma og körlum í sömu greinum er klappað á bakið. Mér finnst óþolandi að hefðbundin kvennastörf skuli ekki vera vel launuð.
En hversu skiljanlegt sem það er, þá er lítið unnið við að finna neikvæðum tilfinningum sínum réttlætingar. Karlfyrirlitning er ekkert skárri en kvenfyrirlitning en af einhverjum ástæðum er hún samt umborin. Við ættum frekar að líta það sem vandamál þegar staðalmyndir af körlum móta viðhorf okkar og láta það verða okkur hvatning til að endurskoða viðhorf okkar.
——————
Þarf maður ekki samt að vera í einhverju kynjapirrings-gír til að taka svona nokkuð til sín?
Mér finnst þetta bara vera góðlátlegt grín og kannast alveg við að sumt af þessu eigi við um marga karla – ég er allavega þessi sem finnur aldrei neitt og þarf að spyrja konuna hvar það er og þessi sem gengur aldrei frá tómum mjólkurfernum.
En auðvitað er þetta slakur húmor á sama hátt og listar yfir hluti sem konur eiga að vera lélegar í eru slakur húmor. Stundum glottir fólk nú samt að þess háttar moði – og stundum er þetta grín dálítið satt.
Er ekki bara málið að passa að gefa sér ekki að á bakvið svona grín sé einhver reiði og andúð?
Posted by: Kristinn | 28.09.2011 | 15:29:53
——————
Þetta er e.t.v. svolítið misheppnaður húmor, en fremur vil ég búa við 100 slaka brandara – einhverja mögulega særandi – en þrúgandi rétthugsun og sjálfsritskoðun. Smekksatriði eru smekksatriði og tjáningarfrelsið á alltaf að njóta vafans.
Posted by: Eyjólfur | 28.09.2011 | 16:11:11
——————
Ég er reyndar afskaplega húmorslaus kona svona almennt. Hef t.d. frekar lítið þol gagnvart ofbeldishúmor, sjúkdómahúmor og rasistahúmor í seinni tíð. Veruleikinn á bak við grínið er bara of napur til að ég sjái hvað er svona skemmtilegt.
En já, það er rétt til getið, ég er í alveg sérstökum kynjapirringsgír þessa dagana. Eða ergelsið snýst kannsi aðallega um merkimiða. Vildi helst láta setja lögbann á kynjaskipt klósett á veitingastöðum og láta afnema lög um karla og kvennanöfn. Af hverju í fjandanum má fólk ekki bara vera til á sínum eigin forsendum óháð litarhætti, kyni og hjúskaparstöðu?
Posted by: Eva | 28.09.2011 | 16:15:58
——————
„Af hverju í fjandanum má fólk ekki bara vera til á sínum eigin forsendum óháð litarhætti, kyni og hjúskaparstöðu?“
Nákvæmlega! Einnig að vera laus við að vera skilgreind af öðrum eða að láta varpa þeirra væntingum á þrám á okkur. Prósentumannréttindi, identity politics og fleira slíkt brölt eru glórulaus vitleysa. Ég skil ekki hvernig nokkrum manni (eða konu, ha ha!) dettur í hug að fólk dafni best í handstýrðu, hákollektifísku samfélagi.
Posted by: Eyjólfur | 28.09.2011 | 16:20:31
——————
„Af hverju í fjandanum má fólk ekki bara vera til á sínum eigin forsendum óháð litarhætti, kyni og hjúskaparstöðu?“
-kannski væri slíkt óformað þjóðfélag erfiðara að hafast við í. Það er oft talað um að fólk þrífist betur aga, ramma og reglur…?
Posted by: Kristinn | 28.09.2011 | 16:26:45
——————
Eyjófur ég er sammála því að tjáningarfrelsið eigi að njóta vafans enda er ég ekki að leggja til að svona húmor verði bannaður. Bara að benda á að það eru ekkert raunhæfari staðalmyndir sem búa á bak við svona brandara en þá sem snúast um konur sem geta ekki tekið eina einustu ákvörðun, kunna ekki að aka bíl og gera endalaust úlfalda úr mýflugu.
Posted by: Eva | 28.09.2011 | 16:32:06
——————
Nú sannfærist ég endanlega um að feminismi drepur húmor. Hvernig er það annars Eva, ertu alveg hætt að blogga um ævi þína og ástir?
Posted by: GK | 28.09.2011 | 16:49:21
——————
Jamm, ætli ég myndi ekki segja að þetta væri í senn jafnvitlaust og jafnmeinlaust, í hvora áttina sem það snýr. Getur stundum verið stórskemmtilegt, en mikilvægast af öllu er að við verðum ekki af því út af rétthugsunar/sjálfsritskoðunarþættinum.
Samfélagið má alveg vera summa þess sem við erum, en ekki bara þess sem hinir og þessir vilja að við séum. Það myndi ört kvarnast úr, ef þeim yrði öllum ágengt og öll yrðum við fátækari fyrir vikið. Ég get vart gert mér í hugarlund þurrari og leiðinlegri stað en þúsaldarríki þeirra verstu…
Posted by: Eyjólfur | 28.09.2011 | 16:53:44
——————
GK, ég hef alltaf verið húmorslaus en kannski fer það eftir því hvað ég er mest að hugsa um hverju sinni hverskonar bjánahúmor fer mest í taugarnar á mér.
Ég er ekki hætt að blogga um einkalíf mitt en ég færði persónulega bloggið mitt yfir á annað svæði fyrir nokkrum mánuðum. Vefstjórinn minn önnum kafinn en ætlar í fyllingu tímans að breyta nöfnunum þannig að persónubloggið sé undir sápuóperu en samfélagsbloggið með öðru nafni.
Posted by: Eva | 28.09.2011 | 17:04:53
——————
Eyjólfur, takk fyrir ágæt innlegg. Sérstaklega þetta: „Ég skil ekki hvernig nokkrum manni (eða konu, ha ha!) dettur í hug að fólk dafni best í handstýrðu, hákollektifísku samfélagi.“
Þú orðar nákvæmlega það sem ég var einmitt að reyna að koma í orð til að svara Kristni um agalausa og óformaða samfélagið.
Posted by: Eva | 28.09.2011 | 17:17:23
——————
Sjitt hvað þessi færsla rímar við pistil sem ég var að senda frá mér til ritstjórnar minnar. Ég SVER að ég var ekki búin að sjá þetta, Eva! Og verðum við nú skyndilega sammála? Svona er lífið nú skrítið;)
Posted by: Kristín | 28.09.2011 | 21:06:35
——————
Reyndar tek ég fram í mínum pistli að karlfyrirlitningin sé ekki heldur líðandi.
Posted by: Kristín | 28.09.2011 | 21:07:33
——————
Kristín mín það hvarflar ekki að mér að þú þurfir eða viljir fá skoðanir annarra að láni 🙂 en þar fyrir trúi ég enn síður á einkarétt á skoðunum en höfundarrétt.
Posted by: Eva | 28.09.2011 | 21:28:08
——————
Við erum eiginlega sammála um flest:)
Posted by: Kristín | 29.09.2011 | 5:29:33
——————
Þegar kemur að nöfnum, þá liggur við að mér finnist stundum að ætti að banna frægu fólki að nefna börnin sín þegar ég les svona dæmi :Phttp://www.cracked.com/article_15765_the-20-most-bizarre-celebrity-baby-names.html
Posted by: Einar Steinn | 29.09.2011 | 23:28:00