Ekki úr launsátri – bara í eigin nafni, beint í smettið

leyniskyttan

 

 

 

Þessi feministi gerir athugasemdir við pistil sem ég skrifaði um daginn en þar sem hún leyfir ekki svör við færslur á sinni síðu, svara ég bara hér.

Leyniskyttan byrjar reyndar á því að snúa út úr pistli Ragnars Þórs þar sem hann skrifar m.a. um þversagnir feminsmans, skilgreiningarvandann og tilhneigingu mannréttindahreyfinga til pólitískrar rétthugsunar. Þetta tekst leyniskyttunni með einhverjum óskiljanlegum hætti að túlka sem sérstaka fylgni við klámvæðingu og vændi. Auk þess er öll gagnrýni karla á femnista, allavega þeirra sem hafa eitthvert álit á mér, túlkuð sem óþol gegn konum sem vilji ekki að þeir „kaupi sér konur til að ríða eða rúnka sér yfir“ en sem kunnugt er, mun gengdarlaus gredda og kvenhatur eina ástæðan sem nokkur gæti séð til þess að lögleiða vændi (og nei á meðan vændiskaup eru ólögleg er ekki hægt að tala um að vændi sé löglegt.)

Í færslunni minni sem hún vísar til, eiga víst að vera „einhverjar rannsóknir tilteknar sem eiga að sanna að vændi sé bara alltílæ, langflestar konur vilji ekkert frekar en hleypa uppá sig hverjum kallinum á fætur öðrum gegn greiðslu, bara gaman að því.“

Þær greinar sem ég vísa til í umræddum pistli, fyrir utan bullrannsóknir feminista, eru viðtal við Liv Jessen, ágæt grein eftir Ronald Weitzer og rannsókn á reynslunni af glæpvæðingu kynlífskaupa í Bergen. Engin þessara heimilda segir orð um það að flestar eða einu sinni sumar konur vilji ekkert frekar en stunda vændi.

Liv Jessen talar um sjálfsákvörðunarréttinn sem mannréttindi og að hún vilji að fólk fái að stjórna lífi sínu sjálft, einnig þegar það taki ákvarðanir sem hún sjálf myndi ekki taka.

Skýrslan frá Bergen segir hvergi neitt fallegt um vændi eða fjölda þeirra sem vilja ekkert fremur. Hún lýsir aðeins á fremur hlutlægan hátt reynslu vændiskvenna af glæpvæðingunni, sem er síður en svo jákvæð og tekur fram að nánast allar konurnar sem rætt var við, segist stunda vændi af eigin vilja og að til séu konur af öllum þjóðernum sem hafi engan áhuga á að hætta.

Weitzer tekur enga afstöðu til þess hversu hátt hlutfall vændiskvenna séu ánægðar enda er ekki um slíka rannsókna að ræða. Hann segir hinsvegar að tilteknar rannsóknir sem staðhæft er að sýni fram á að flestar konur fari nauðugar í vændi og vilji hætta, að flestar vændiskonur hafi verið misnotaðar í æsku, verði fyrir miklu ofbeldi í starfi og séu allar á kafi í dópi, standist engar vísindalegar kröfur. Hann rökstyður þetta mjög vel.

Launsáturskonan virðist vera ósátt við að ég hafni tölfræði sem fengin er fram með svindli og svínaríi. Gaman væri að vita hvað henni finnst um þá sem hafna tölfræði sænsku ROKS kvennanna sem dreifa áróðri um að vikulega falli sænsk kona fyrir hendi maka síns, enda þótt opinberar upplýsingar segi að þessi tala sér að jafnaði 16 konur árlega. Finnst launsáturskonunni móðgandi að fólk taki ekki undir þessa staðreyndafölsun eða eru það aðeins falsupplýsingar um vændisiðnaðinn sem má ekki gagnrýna? Er í lagi að gagnrýna mannránið sem Bellas venner stóðu fyrir og þvæluna um barnafórnir sem ROKS konur halda ennþá fram? Hvenær má gagnrýna lygar feminista og hvenær ekki? (Heimildamyndin kynjastríðið gefur ágæta mynd af lygum dólgafeminista, endilega lítið á þessa mynd ef þið hafið ekki þegar séð hana.)

Skyttunni finnst líka óþolandi að ég hafni því að hægt sé að dæma allan klám og kynlífsiðnaðinn út frá persónulegri reynslu þeirra sem vinna við að líkna konum sem hafa flúið ofbeldi og nauðung. Þær konur fá væntanlega góða innsýn í mörg svaðalegustu dæmin en frjálsar hórur vilja sem minnst við þær tala. Stórmerkilegt finnst mér hvað feministar geta lagt mikið upp úr einstaka sögum af kynlífsþrælum og krakkhórum en afskrifað með öllu frásagnir þeirra kvenna sem eru í þessum störfum á eigin forsendum og hafa ekki hug á að hætta. Sjálf tel ég hvorki að sorgarsögur né einstaka frásögn frjálsrar hóru hafi neitt vísindalegt gildi. Til að meta þennan markað þarf að skoða hann sem heild, gera greinarmun á kynlífsánauð og frjálsu vændi og skoða mismunandi hópa kvenna. Það er t.d. mjög mikill munur á aðstæðum kvenna sem vinna sjálfstætt á vændishúsum þar sem þær leigja pláss og þeirra sem mæla göturnar og fara jafnvel með kúnnunum heim til þeirra. Einstaka sögur mega alveg fljóta með til að skýra hlutina nánar en það er ekki hægt að alhæfa út frá þeim. Þetta vita allir sem eitthvað hafa kynnt sér félagsvísindi en rannsóknir dólgafeminista eiga náttúrulega ekkert skylt við vísindi.

Vitanlega ræðir leyniskyttan rannsóknaraðferðir og staðreyndafalsanir ekki neitt. Ekki er heldur komið inn á þöggun vændiskvenna né afleiðingar þess að setja lög sem eiga að vernda fólk í óþökk þess. Það er nefnilega ekkert hægt að ræða þessa hluti án þess að rekast óþægilega á þá staðreynd að rannsóknir í nefni feminista og björgunaraðgerðir þeirra eru oft vægast sagt ófaglegar. Þess í stað er athyglinni sem fyrr beint að þrælahaldi og barnanauðgunum. Spurt er hversu mörgum börnum og konum megi fórna í þágu kláms og vændis. Með sömu rökum ættum við auðvitað að banna flugeldagerð, kaffiframleiðslu, mottuvefnað, súkkulaði, demanta, snyrtivörur, bómullarfatnað og mat en það er náttúrulega bara allt annað. Enda snýst þetta þegar upp er staðið ekkert um mannréttindi, heldur eitthvað allt annað. Að einhverju leyti um það hvað kynlíf annarra sé ógeðslegt, að einhverju leyti um duldar aðferðir til að takmarka streymi innflytjenda til Vestur Evrópu, að einhverju leyti um að dímonisera karlmenn og að einhverju leyti sennilega bara um að þurfa ekki að viðurkenna að maður geti haft rangt fyrir sér.

Ég kannast ekki við að hafa, hvorki í umræddri grein né annarsstaðar, vísað í rannsóknir sem „eiga að sanna að vændi sé bara alltílæ, langflestar konur vilji ekkert frekar en hleypa uppá sig hverjum kallinum á fætur öðrum gegn greiðslu, bara gaman að því.“ Ég hef hinsvegar gagnrýnt, annarsvegar þær ýkjur og gölluðu rannsóknir sem haldið er á lofti sem vísindum og hinsvegar þá þöggun sem feministar beita vændiskonur og annað fólk í kynlífsþjónustu, fólk sem er hundóánægt með að vera skilgreint sem ósjálfstæð fórnarlömb sem ekkert mark sé á takandi. Þetta er hinsvegar dæmigert fyrir málflutning dólgafeminista. Ýkjur og útúrsnúningar, jafnvel hreinar og klárar lygar eru sú tækni sem þær beita málstað sínum til framdráttar.

 

Deildu færslunni

Share to Facebook

One thought on “Ekki úr launsátri – bara í eigin nafni, beint í smettið

  1. ————————–

    Það er aumingja Evu ábyggilega ekki til mikils gagns að vondir karlmenn eins og ég séu að fagna skrifum hennar. Það fer bara svo lítið fyrir heiðarlegri rýni í kynjaumræðunni, að maður veðrast allur upp þegar maður rekst á blogg sem þetta og óvenju mikinn viljann til að umræðan sé beitt og áhugaverð.

    Hér er fjallað um hlutina eins og þeir eru, ekki eins og sumir ætlast til þess að þeir séu.

    Eva: Hlekkurinn á Könskriget er rangur.

    bestu kveðjur,

    Posted by: Kristinn | 28.09.2011 | 9:54:27

    ————————–

    Takk fyrir að benda mér á villuna Kristinn, búin að leiðrétta.

    Ég álít nánast öll viðbrögð sem ég hef fengið við skrifum mínum gagnleg. Fínt að fá sem flest sjónarhorn, gott mál ef einhver sem er mér sammála getur fært frekari rök fyrir þeirri afstöðu, ennþá betra ef einhver kemur með nýtt sjónarhorn og færir rök fyrir því. Hvað varðar þá sem engin hafa rökin þá er það vissulega ergilegt þegar goðsögnum og gervirannsóknum er haldið fram sem sannleika en ég hef hinsvegar ánægju af því að skoða þau gögn sem þarf til að benda á vitleysurnar svo bullustertir eru bara velkomnir líka.

    Posted by: Eva | 28.09.2011 | 11:22:36

    ————————–

    Ég hef aldrei séð neitt annað en útúrsnúninga og lygar; í besta falli ýkta hæðni á þessum launsátursvef. Man þegar eitthvað dagblaðið var með eitthvað jafnréttisátakið og listaði þessa síðu sem „flott femínistablogg“… ég gubbaði smá uppí mig þá.

    Posted by: Einar Þór | 28.09.2011 | 12:09:30

    ————————–

    Mikið er það hallærislegur málflutningur og í raun angi af mansplaining að niðurlægja blogg Evu með því að eyða lunga úr færslunni í að tala um að hér séu nú mestmegnis karlmenn sem hópist og lesi bloggið og kætist yfir færslunum.
    Skemmtilega barnalegt að hrósa svo sérstaklega þremur vinkonum fyrir að vera duglegar. Er þetta fimm ára bekkur? Ég veit ekki betur en Eva standi nokkuð sóló sem rödd sem femínisti í þeim viðhorfum sem hún stendur fram – í það minnsta nennir hún að eiga við hóp kvenna sem flestir nenna ekki að elta ólar við, því aðrar skoðanir eru þá í þeirra augum annað hvort a – misskilningur eða b – rangar. Reyndar þekki ég fleiri kvenkynslesendur að norn.is en karlkyns.

    Posted by: Sigríður Bára | 28.09.2011 | 17:33:20

    ————————–

    Vei, ég er komin í fimm ára bekk! Og orðin vinkona leyniskyttunnar, hah! Málið er að í þessu tiltekna máli eru frekar karlar en konur sammála Evu, þú sérð það alveg í athugasemdunum. Þ.e.a.s. sammála henni um að vilja trúa því að hugmyndin um hamingjusömu hóruna sé sönn. Ég get ekki trúað því, ég held að þetta sé hugmynd í ætt við kapítalsimann, bara gengur ekki upp, sama hvað við viljum reyna að trúa því.
    Ég er hins vegar alveg tilbúin til að trúa því að einhverjir hafi asnast til að ýkja upp tölur, því miður er það svo að hagsmunahópar lenda í baráttu um pening og umfjöllun og beita því stundum bellibrögðum, eða það alla vega meikar alveg sens í huga mér. Og það er líka alveg í stíl við allan málflutning í dag, allt svo svart og ógeðslegt.
    Hins vegar get ég ekki heldur séð að hitt gangi upp, að þetta sé allt í gúddí og tengist frelsi, en eins og ég sagði áður, virðist þetta mál of flókið til að fá botn í það. Ég skil viðhorf Evu um að við eigum að láta hamingjusamar hórur í friði og jafnvel veita þeim virðingu, en ég bara finn engar hamingjusamar hórur. Ég finn ekki konuna sem talaði sem mest og hæst um þessi mál í Frakklandi fyrir áratug, hún virðist hafa horfið. Vefir sem fjalla um þessi mál eru hrikalega nafnlausir og ég á erfitt með að trúa þeim. Mig grunar að Weitzer sé mjög ánægður með að hafa fundið mál til að ræða og ögra, og að hann græði jafnvel pening á því. Gott og vel.

    Posted by: Kristín | 29.09.2011 | 8:32:30

    ————————–

    Æ, ýtti óvart á publish aðeins of snemma. Vildi bara bæta við: Gott og vel, ég held að það sé fullkomlega rökrétt og jafnvel hollt að ræða þessi mál og ég stefni að því að skoða þetta nánar, þegar ég er búin með M.A. verkefnið sem á hug minn næstum allan þessa dagana. (Úps, og ég sem er bara í fimm ára bekk!)

    Posted by: Kristín | 29.09.2011 | 8:34:24

    ————————–

    Skemmtilegt svar hjá þér Eva. Mér finnst laumufemínistinn eiginlega staðfesta það sem þú varst að segja. Viðkomandi ætlar þér hluti sem þú tjáðir þig ekkert um s.s. að allt vændi sé bara í lagi o.s.fv. Ég er eiginlega hissa á að þú sért ekki kölluð gervikona eða eitthvað álíka heldur er sú leið farin að gera lítið úr málflutningi þínum vegna þess að karlmenn séu þér sammála, en eins og allir vita þá eru skoðanir karlmanna almennt varhugaverðar 😉

    Ég get hinsvegar vel tekið undir hrós laumufemínistans á Kristínu. Ef fleiri femínistar tjáðu sig eins og hún gerir í tjásunum hér þá gæti samræður andstæðra fylkinga mögulega orðið áhugaverðar og gagnlegar.

    Hjó einhver eftir því að laumufemínistinn segist ekki á móti því að karlar og konur hafi rétt á að selja sig en aðeins þurfi að banna karlmönnum að kaupa konur? Ekki konum að kaupa konur eða karla ef út í það er farið.

    Posted by: Sigurður Jónsson | 29.09.2011 | 12:50:50

    ————————–

    Reyndar finnst mér vændi allt í lagi, þótt greinin sem launsátrið var að gagnrýna hafi alls ekki snúist um það. Þ.e.a.s. mér finnst allt í lagi að þeir sem það vilja bjóði fram hverskonar kynlífsþjónustu á sínum eigin forsendum. Ég hef hinsvegar aldrei sagt að vændiskonum finnst starfið æðislegt, ekki frekar en ég hef sagt að konur skúri eða vinni í sláturhúsum af því það geri þær svo hamingjusamar. Líklega er mikill minnihluti kvenna í kynlífsþjónustu af einskærum áhuga en það sama á bara við um mjög mörg störf og ég sé ekki hversvegna ætti að hindra þær sem vilja fara þessa leið (og þá karla sem eru sama sinnis.)

    Það er í sjálfu sér ekkert undarlegt við það þótt sjaldan sé minnst á konur sem kaupa vændi. Þeir feministar sem ég hef rætt við líta síður en svo á það sem réttlætanlegt að kona kaupi kynlífsþjónustu en það er bara mjög lítið um það og engum sögum fer af kynlífsánauð karla. Mér þætti mjög áhugavert að sjá rannsóknir á því hvort eftirspurn kvenna eftir kynlífsþjónustu myndi aukast ef framboðið væri meira eða hvort framboðið er svona lítið af því að það er engin eftirspurn.

    Posted by: Eva | 29.09.2011 | 22:37:59

    ————————–

    Já og eitt enn, það er rétt athugað hjá Sigríði Báru að sennilega er ég eina konan á Íslandi sem hefur ítrekað lýst yfir þeirri eindregnu afstöðu að vændi eigi að vera löglegt og viðurkennt. Það merkir ekki að engar konur séu mér sammála.

    Ég hef ekki hugmynd um kynjahlutföll lesenda minna en ég veit að karlar eru í meirihluta þeirra sem senda inn tjásur hvert svosem umræðuefnið er og það á bara almennt við um netskrif sem lúta að samfélagsmálum. Konur virðast líklegri til að kommenta á persónulegar færslur.

    Kannski eru konur ólíklegri til að halda fram óvinsælum skoðunum en karlar. Við skulum líka athuga viðbrögðin sem þeir karlar fá sem eru fylgjandi lögleiðingu vændis og trúa því ekki að allar konur í klámi og kynlífsþjónustu séu viljalaus verkfæri. Þeir sem tjá þá skoðun fá iðulega þau svör að þeir vilji greinilega sjálfir geta keypt sér „aðgang að konum“, „konur til að ríða og rúnka sér á“ o.s.frv. Hvaða skilaboðum geta konur sem styðja lögleiðingu vændis þá átt von á? Ég hef ekki oft fengið skítapillur sjálf en það vita líka allir sem hafa fylgst með mér að ég læt ekkert þagga niður í mér með rökvillum eða persónulegum árásum. Það virkar hinsvegar prýðilega á margar aðrar konur.

    Posted by: Eva | 30.09.2011 | 0:36:12

    ————————–

    Ég held að konur sem halda svona skoðunum fram fái bara oft svo harkaleg viðbrögð frá femínistum að þær þori ekki að tjá sig á annan hátt.

    Sú framkoma sem bæði konum og körlum eru sýnd, sem eru ósammála femínistum í þessum málum, væri án efa kölluð þöggun ef dæmið væri á hinn veginn.

    Posted by: Sigurður Jónsson | 1.10.2011 | 20:05:44

Lokað er á athugasemdir.