Blogg Gvuðs

Gvuð er skrýtin skrúfa. Hann ku hafa gert sér það til dundurs í árdaga að skapa heiminn og er að eigin sögn algóður, alvitur og almáttugur.

Gvuð hefur skoðanir á öllu. Kjarnorkuáætlun Bandaríkjamanna, kynhegðun minni og öllu þar á milli. Af og til hefur hann miðlað visku sinni og vilja til mannkynsins í gegnum sendiboða en þrátt fyrir meinta visku hans hefur aldrei tekist betur til en svo að menn taka þegar í stað að deila um það hvernig beri að túlka skilaboðin og því næst taka þeir til við að brytja niður mann og annan í þeim tilgangi að staðfesta sannfæringu sína um vilja Gvuðs. Halda áfram að lesa

Pöddur

Ég hélt að ég væri með ágæta vírusvörn.

Í gær tekur tölvan svo upp á því að loka á netsíður sem ég reyni að komast inn á, segist vera með vírus og heimtar að ég klikki á tengil til að laga það. Og allt í einu sit ég uppi með eitthvað antivirus 2008 sem heldur því fram að vélin sé full af pöddum en neitar að gera neitt í því nema ég borgi. Tölvustrákar segja mér að það geti allt farið í steik ef maður er með 2 vírusvarnarforrit inni, svo ég reyni að henda þessu nýja en það gegnur ekki. Klukkutíma síðar er antivirus 2009 kominn líka. Finnur 262 ógeð í vélinni en er víst ekki ókeypis og vill samt ekki hypja sig.

Spybot finnur ekki neitt og ég losna ekki við þessi forrit sem ég veit ekki til að ég hafi beðið um. Ég kemst ekki inn á netsíður sem ég vil nota nema eftir krókaleiðum. Kræst ég er að fríka út. Hvernig get ég vitað hvort forritið er að ljúga og hvernig losna ég við þá bræður antivirus 2008 og 2009?

 

Kræst

Geðveikt fólk getur gert mig geðveika. Annar hver lúni í Reykjavík virðist hafa tekið ástfóstri við mig. Mætti halda að það geysaði einhverskonar tunglsýkifarsótt og það er ekki einu sinni fullt tungl.

Ég held það sé kominn tími á Angurgapa.

Vííí!

Ég er rík! Var einmitt að vinna í Vodafone happdrættinu. Sem ég hef reyndar aldrei spilað í.

Hver ætli útvegi annars allar þessar milljónir sem ég hef unnið í happdrættum undanfarin ár? Djöfull væri ég orðin rík ef ég hefði einhverntíma sent inn þessar persónuupplýsingar sem þarf til að fá þær greiddar. Kannski þeir sem fjármagni dæmið (fyrst það eru ekki þáttakendur) séu þeir sömu og borga Saving Iceland laun fyrir mótmælaaðgerðir? Þar er nú önnur auðlind sem ég hef greiðan aðgang að en hef samt aldrei nýtt.

Ég hugsa að ég loki bara sjoppunni og gerist atvinnuvinningshafi. Örugglega meira upp úr því að hafa en að vera atvinnumótmælandi.

It’s a jungle out there

Og hvað merkir það þá að vera góð manneskja? spyr ég en hann getur auðvitað ekki svarað því. Líklega leggur hann gæði og þægindi að jöfnu. Sjálfsagt finnst honum góð manneskja vera sambærileg við góðan bíl, þægileg til reiðar, lætur vel að stjórn og tekur á sig skellinn ef kemur til áreksturs. Heldur útliti sínu nokkuð vel með góðri umönnun og gerir ekki kröfur umfram eldsneyti og reglulega smurningu. Halda áfram að lesa

Það versta

-Hvað finnst þér best við að vera einhleypur?
-Best? Það veit ég nú ekki. Jú kannski það að geta borðað í rúminu án þess að einhver sé að hafa skoðun á því.
-Oj, ég þoli ekki að sofa á brauðmylsnu. En ég fer stundum með kaffibolla og súkkulaði upp í rúm sjálf.
-Ég fer með steiktan fisk og spaghetty.
-Oj!
-Einmitt. Það er gott að vera einhleypur. Auk þess reynir enginn að draga mig fram úr fyrir hádegi um helgar.
-Hmphh! Til hvers að vera á föstu ef maður notar allan frítímann til að sofa?
-Ekkert allan. Maður vakir á næturnar.
-Þú ert í alvörunni köttur er það ekki?
-Kannski smá. Ég leggst allavega ekki ofan á blaðið á meðan þú ert að lesa það.
-Gott og vel. Það besta við að vera einhleypur er semsagt að geta stundað einhverja ósiði í rúminu óáreittur, en hvað er þá verst við að vera einhleypur?
-Það versta er að vera stakur þar sem allir eru pör. Hafa engan maka þegar maður mætir á árshátíð. Við vorum í matarklúbbi. 3 pör. Mér væri velkomið að vera með áfram en ég gæti ekki hugsað mér að mæta einn.
-Finnst þér ÞAÐ í alvöru verst? Hvað með að sofa einn, borða einn … verðurðu aldrei einmana?
-Jújú,ég verð oft einmana
, sagði hann, – en ég varð líka oft einmana á meðan ég var í sambúð.
Það,. sagði ég, er líklega það eina sem við eigum sameiginlegt.

To be or no to be

Í gær var ég spurð að því hversvegna ég hefði aldrei farið út í pólitík. Málið er að ég ER í pólitík. Bara ekki flokkspólitík.

Mér hefur alltaf líkað stórilla að vera undir stjórn annarra, hvortheldur er í vinnu eða annarsstaðar. Ég hef heldur ekki haft neinn áhuga á því að stjórna öðrum. Þ.e.a.s. mér finnst gaman að hafa áhrif (og eins að finna hvernig aðrir hafa áhrif á mig), en ég hef aldrei verið mikið fyrir að gefa skipanir. Í minni útópíu tekur bara hver og einn ábyrgð á sínu lífi og sínu starfi og skiptir sér sem minnst af öðrum nema viðkomandi biðji um það eða þarfnist hjálpar og það gengur auðvitað ekki alveg upp í veruleikanum.

Ég hef sömu afstöðu til stjórnmála. Valdabrölt og flokkadrættir eru mér ekki að skapi. Ég vil gjarnan hafa áhrif en mig langar ekkert í völd. Ég hef heldur enga ástæðu til að trúa því að ef ég kæmist til valda, þá væri ég eitthvað ólíklegri en hver annar til að sökkva í spillingu og ógeð. Þetta tvennt virðist bara yfirhöfuð fara saman.

Mig langar ekki að stjórna heiminum. Ég vil bara að sem flestir geti búið við frelsi og öryggi og það er engin stjórnmálastefna sem getur tryggt það. Ég held að mannskepnan sé of mikið hjarðdýr til að nokkur möguleiki sé á því að mynda samfélag án valdastéttar. Það fyrirkomulag sem hefur þokað okkur í átt til lýðræðis er það að sem flestar raddir heyrist, að almenningur veiti valdhöfum virkt aðhald og að ákvörðunum stjórnvalda og almennum viðhorfum sé ögrað í sífellu. Þeir sem taka það hlutverk af sér, jafnvel þótt þeir sækist ekki eftir völdum, eru að reyna að hafa áhrif á mótun samfélgasins. Og það er að taka þátt í pólitík.

Ég er líka stundum spurð að því hversvegna ég sé ekki rithöfundur. Sannleikurinn er sá að ég ER rithöfundur. Ég skrifa bara ekki bækur.

 

Sex orða meme handa allskonar fólki

Meme-æðið greip mig. Dásamlegt ljóðform. Þótt það sé líklega ekki hugsað sem ljóðform. Húsmæður á heljarþröm náðu mér ekki niður af reiðinni sem hefur heltekið mig síðustu daga en það gerði meme. Örljóð um lífshlaup maura, það þarf í alvöru ekki meira en 6 orð. Sá sem telur sig þekkja yrkisefnið dregur slíkar ályktanir á eigin ábyrgð. Halda áfram að lesa