Ég er bjánalega stolt

Þótt ég sé almennt fær um að passa mig sjálf og finnist mikilvægt að konur jafnt sem karlar haldi sjálfstæði sínu á sem flestum sviðum, hef ég samt hingað til álitið að það sé ekkert skammarlegt við að biðja um hjálp ef maður lendir í aðstæðum sem maður ræður ekki við sjálfur.

Ég geri vinum mínum greiða án þess að finnast ég eiga með hönk upp í bakið á þeim og ég hef sjálf þegið margan vinargreiðann án þess að finnast ég skulda neitt. Góðir vinir sýna greiðvikni. Góðir vinir gefa og þiggja en standa ekki í viðskiptum. Góðir vinir meta mann út frá því sem maður getur og gerir en ekki út frá því sem maður ræður ekki við einn. Það er ekki merki um veikleika að viðurkenna takmarkanir sínar og biðja um hjálp.

Mér finnst þetta í alvöru, svona röklega. En samt… nú eru komnar upp þannig aðstæður að mér líður eins og ég sé ósjálfstæður aumingi, þótt hausinn á mér segi að það sé ekkert vit í öðru en að leita hjálpar.

Málið er að þegar ég hef beðið fólk um greiða, þá er það yfirleitt greiði sem hægt er að endurgjalda á einhvern hátt. Ég hef ekki, síðan ég var unglingur, þurft á að halda greiða sem mér fannst ógna sjálfstæði mínu. Ég hef aldrei þurft á því að halda að einhver annar berjist fyrir mig eða verndi mig, vitandi að ég geti aldrei gert neitt í staðinn. Hugmynd mín um að njóta verndar hefur hingað til verið sú að einhver haldi utan um mig og segi; þetta verður allt í lagi.

En nú, þegar ég sé fram á að þurfa að grípa til örþrifaráða, og hreinlega biðja um hjálp til að losna við ógeðsspengil sem skilur ekki jafn skýr skilaboð og ´láttu mig í friði ógeðið þitt og reyndu aldrei að hafa samband við mig framar’, þá er eitthvert fáránlegt stolt að þvælast fyrir mér. Bæði skömm yfir því að viðurkenna vanmátt minn og líka einhver vottur af þeirri hugmynd að ég sé minni manneskja ef ég biðji um greiða sem ég get ekki endurgoldið.

Þetta er bjánaskapur í mér. Ég hef margoft sagt konum í minni aðstöðu að kalla á hjálp hið snarasta og ef væri rotta í húsinu myndi ég ekki bíða í 5 mínútur með að hringja út meindýraeyði. Af hverju finnst mér þá eins og ég eigi að ráða við rottu í mannslíki sjálf?

 

Best er að deila með því að afrita slóðina

One thought on “Ég er bjánalega stolt

 1. ——————————————–

  Kallaðu strax í meindýraeyði,menskar rottur eru hættulegar.kv

  Posted by: Bogga | 9.07.2008 | 21:54:20

  ——————————————–

  YEOUW!

  Um að gera að kalla á hjálp og skammast sín ekkert fyrir það!

  Posted by: hildigunnur | 9.07.2008 | 23:10:26

Lokað er á athugasemdir.