Af ósveigjanleika mínum

Í gær var mér sagt að fólk sem er á öndverðum meiði við mig, legði ekki í að rökræða við mig af því að ég væri svo ósveigjanleg í skoðunum að það þjónaði engum tilgangi.

Þetta finnst mér stórmerkilegt. Sem dæmi um ósveigjanleika minn má taka afstöðu mína til trúmála. Ég var áköf efasemdamanneskja um 15 ára aldurinn en á 17. aldursári gekk ég í smásöfnuð og var með virkari meðlimum hans í 5 ár (var reyndar alltaf til hálfgerðra vandræða vegna tilhneigingar minnar til að spyrja óþægilegra spurninga og neita að taka þeim rökum að Gvuð hlyti að hafa góðar ástæður fyrir margbreytilegu rugli sínu.) Ástæðan fyrir þessum umsnúningi var ekki sú að ég hefði fengið vitrun eða orðið fyrir annarri andlegri upplifun, heldur sú að ég hlustaði á rök. Ekki án þess að svara þeim, það gerði ég svo sannarlega, fullum hálsi, og ég gæti best trúað að mörg safnaðarsystkina minna hafi litið á inngöngu mína sem rakið dæmi um kraftaverk. Ég gekk í söfnuðinn vegna þess að að vel athuguðu máli þóttu mér rökin skynsamleg og breytti skoðun minni í samræmi við það. Að ennþá betur athuguðu máli áttaði ég mig á því að rökin sem sannfærðu mig voru að stórum hluta rökleysur og þá skipti ég bara aftur um skoðun.

Annað dæmi er afstaða mín til mótmæla. Um 25 ára aldurinn var ég sannfærð um að mótmæli og andóf sem ögraði ramma laganna væri aðeins réttlætanlegt til að svara beinu ofbeldi eða forða því. Hugmynd mín um andóf var undirskriftalistar og blaðaskrif. Á þeim árum hefði ég litið á vinnustöðvun og skemmdarverk sem öfgamennsku. Þegar ég var í Leeds stóð t.d. hópur aktivista fyrir mótmælum við háu verðlagi í mötuneyti skólans. Aðferðin sem þau hvöttu til var sú að setja mat af hlaðborðinu á disk en neita að borga fyrir hann nema 70% af uppsettu verði. Auðvitað gekk starfólk mötuneytisins ekkert að því og þetta þýddi að miklum mat var hent. Ég fór sérstaklega til þeirra sem dreifðu auglýsingunni og lýsti yfir andúð minni á þessari ósiviliseruðu aðferð, sem mér fannst ganga þjófnaði næst. Í dag þætti mér þetta bara gott mál og tæki áreiðanlega þátt af fullri einurð. Það er vegna þess að ég hef hlustað á aðgerðasinna og lesið rök sem mér þykja sannfærandi, en vitanlega ekki með því að gleypa neitt hrátt. (Já og þess má geta að verðlagið í mötuneytinu var lækkað eftir þessar aðgerðir en áskoranir og blaðaskrif höfðu ekki skilað árangri).

Árið 1998 var ég ákafur talsmaður sameiningar sveitarfélaga. Tók m.a.s. sæti á lista til sveitarstjórnarkosninga í þeim tilgangi að knýja á um það mál. Í næstu sveitarstjórnarkosningum á eftir var ég búin að taka þá afstöðu að ég hefði haft rangt fyrir mér og þá tók ég sæti á lista í öðru sveitarfélagi, þar sem eitt helsta baráttumálið var að bæta fyrir skaðann af sameiningunni.

Mér finnst það benda til heimsku og þröngsýni að skipta aldrei um skoðun og kynna sér ekki mótrök gegn sannfæringu sinni. Það hef ég oft sagt. Ég hef reyndar aldrei staðið í rökræðum sérstaklega í þeim tilgangi að skipta um skoðun, eins og einn lesanda segist gera, hér á tjásukerfinu en svo sannarlega hafa rökræður oft leitt mig að nýjum, og stundum óvæntum niðurstöðum. Þótt sé alltaf dálítið súrt að kyngja því að maður hafi haft rangt fyrir sér, er fögnuður minn yfir því að hafa fengið hlutina á hreint, einatt meiri. Mér finnst gaman að hafa rétt fyrir mér. Svo gaman að ef ég sé að ég hef haft rangt fyrir mér þá skipti ég um skoðun.

Færni í því að koma fyrir sig orði og þekking á umræðuefninu merkir ekki að maður sé ósveigjanlegur í skoðunum og ég þykist reyndar vera frekar víðsýn ef eitthvað er. Hitt er svo annað mál að ég kaupi ekki eitthvað kjaftæði. Það þýðir ekkert að ætla að halda uppi rökræðum við mig nema geta borið fram almennileg rök. Það er t.d. þessvegna sem ég er á móti stóriðjustefnunni. Ekki af því að ég hafi bitið í mig það sem jakkafatafasistar kalla vinstri græna rétthugsun (eins og umhverfissjónarmið séu upprunnin í ákveðnum stjórnmálaflokki) heldur af því að þrátt fyrir langar og áhugaverðar rökræður við stóriðjusinna, hef ég enn ekki heyrt góð rök sem styðja hana.

Best er að deila með því að afrita slóðina

One thought on “Af ósveigjanleika mínum

  1. ———————————————————-

    Það er einmitt málið með þig að þú kemur með svo góð rök að fólk er kjaftstopp og tekur í örvæntingu upp glötuðu vörnina um að þú sért ósveigjanleg og ofstopafull.

    Ég segi það sama og þú, ég hef ekki séð nógu góð rök með stóriðjuframkvæmdum á Íslandi. Ég er ekki „á móti áli“, en sóun á áli eins og á öðru hráefni sem gott er að endurnýta, finnst mér heimskuleg. Ég er ekki „á móti rafmagni“ en ég hef skömm á sóun á rafmagni og hvað þá að selja stórfyrirtækjum (burtséð frá því hvort þau eru erlend eða íslensk) orku á verði sem er undir markaðsverði. Etceterí etcetera…

    Posted by: Kristín | 9.07.2008 | 17:31:16

Lokað er á athugasemdir.