Ég er veik

Og ég sem hélt að ég væri bara svona löt. Ég er semsagt sjúklingur, það hlaut að vera rökrétt skýring á þessu verkstoli mínu.

Ég er að hugsa um að taka mér veikindafrí á meðan ég er að jafna mig.

Ætli séu til LA samtök, Letihaugar Anonymous?

 

Held ég sé ástfangin…

… af Ragnari Aðalsteinssyni. Ég var að lesa yfir kröfu hans um leyfi til áfrýjunar dómnum í stóra vegatálmunarmálinu. Maðurinn er hvílíkur snillingur í því að koma fyrir sig orði að þessi lesning er á mörkum þess að vera ljóðræn. Ef hann væri bloggari myndi mig áreiðanlega langa að sofa hjá honum. Mig langar iðulega að sofa hjá góðum pennum, alveg þar til ég hitti þá í eigin persónu. Mín innri kynvera lifir í allt öðrum raunveruleika en ég sjálf. Sýndarveruleika netheima.

Skrýtið annars hvað það snertir djúpan streng í hjarta mínu að vita til þess að einhver verji mig. Þótt málið sé ómerkilegt og hafi ekki valdið mér umtalsverðum kvíða og jafnvel þótt hann fái borgað fyrir það, finnst mér samt eitthvað svo notalegt við það að einhver annar tali máli mínu. Kannski bara af því að það gerirst ekki oft. Venjulega er það ég sem stend í því að verja aðra.

Rapport

Ef allt gengur eftir fer ég til Tel Aviv þann 28. ágúst.

Kappa Fling Fling hringdi í mig og bauð mér betri kjör. Aftur! Ég skulda þessum banka helling af peningum og það hefði verið miklu rökréttara að skerða kjörin mín en bæta þau. Ég efast samt um að bankanum mínum þyki vænt um mig. Tek þessu frekar sem merki um að fýlan sé rokin úr Mammoni.

Ég er ekki frá því að hjartveikin í mér sé að skána. Ég á yfirleitt auðvelt með að taka ákvarðanir en er búin að vera í krísu út af búðinni alveg voðalega lengi. Mér þykir vænt um hana og vil ekki sleppa henni en hef svo sterka þörf fyrir að takast á við eitthvað nýtt að ég er lengi búin að vera að hugsa um að loka. Ég sé fram á að með því að fara í skólann geti ég bæði haldið í búðina og líka gert eitthvað fyrir heilann í mér.

Saving Iceland stendur fyrir dagskrá í Reyjavíkurakademíunni (JL húsinu) kl 19:30 í kvöld. Samarandra Des, indverskur sérfræðingur um áliðnaðinn heldur fyrirlestur um goðsögnina um hreina orku og Andri Snær Magnason mun einnig taka til máls. Allir eru velkomnir meðan húsrúm leyfir og það er enginn aðgangseyrir. Ég hvet alla sem hafa áhuga á umhverfismálum eða vilja kynna sér rök stóriðjuandstæðinga til að mæta.

 

Einn mánuður

Eftirlitssamfélagið hefur sína kosti. Fyrir bara 15 árum fór miklu meiri tími í allar reddingar. Nú er hægt að klára flest mál í gegnum netið eða síma og yfirleitt þarf maður ekki einu sinni að vera með skilríki því það er hægt að skoða mynd af manni í ‘kerfinu’ ef mikið liggur við. Margir geta skilað skattaskýrslu bara með því að ýta á enter.

Ég er með flugmiða fyrir framan mig og búin að ganga frá vegabréfi líka. Tók enga stund og ekkert vesen. Einn mánuður er fáránlega fljótur að líða og ég ætti að vera rosalega stessuð. Samt er hugmyndin um að ég sé að fara út einhvernveginn svo fjarstæðukennd að ég er nenni ekki einu sinni að ganga frá pappírum fyrir bókarann minn.

Annars kemur það mér á óvart hve margir virðast ekki hafa neinn skilning á því hversvegna ég vil gera þetta. Ég er alltaf að fá spurningar á borð við ‘hverju heldurðu að þú getir breytt?’ Málið er að ef tilgangurinn væri sá að geta sagt: jess, við unnum, við björguðum heiminum, þá færi enginn í hjálparstarf og sennilega enginn í lækningar eða hjúkrunarstörf heldur.

Varnarlaust fólk þarfnast stuðnings og sá stuðningur skiptir máli. Ég gleymi aldrei manninum sem hjálpaði mér heim þegar ég datt af hjólinu mínu 9 eða 10 ára. Hann breytti kannski ekki heiminum en hann breytti einum degi í lífi eins barns.

Stundum hvarflar það að mér að krafan um markmið og árangur sé hættulegri en við höldum.

Vitrun

Þegar ég lauk MA náminu fór ég að kenna. Tengdapabbi fór á límingunum yfir því að ég væri að ‘droppa út úr skóla’ og taldi víst að þar með væri lífi mínu sem vitsmunaveru lokið. Reyndar naut ég hvers einasta dags í Háskólanum. Mér leið vel í Árnagarði, fannst óskaplega gaman að sækja fyrirlestra, var í essinu mínu í umræðutímum og skilaði ritgerðum yfirleitt löngu fyrir eindaga. Ég hefði verið alveg til í að vera þar áfram sem BA eða MA nemi en mér fannst það hljóma bæði einmanalega og einhæft að sitja yfir sömu ritgerðinni í mörg ár.

En í morgun semsagt fékk ég vitrun. Ég hef að því leyti breyst á þessum árum að ég hef mun minni þörf fyrir félagsskap og síðustu 5 árin hef ég að mestu leyti unnið ein. Auk þess gæti ég þá haldið búðinni opinni eftir hádegi 3 daga í viku og haldið áfram að taka á móti hópum. Ég ætlaði hvort sem er að verða manneskja sem gerir það sem henni bara sýnist þegar ég yrði stór, svo því skyldi ég ekki bara hafa opið eftir hentugleikum?

Ég hringdi í nemendaskrá og jújú, þeir taka ennþá inn doktorsnema allt árið. Þá er það er semsagt ákveðið að svo fremi sem annaðhvort Bergljót eða Ásdís Egils vilja leiðbeina mér, þá er ég að fara í skóla um áramótin. Mér finnst dálítið skrýtið að hugsa til þess að vera í sama skóla og barnið mitt en hann er víst orðin stór. 22ja ára í dag. Ég held að Darri sé líka búinn að komast að niðurstöðu um það hvað hann ætlar að læra en voga mér ekki að uppljóstra því.

Ég er að fara til Palestínu í september. Vííí!

 

Mylla

Ilmur af jörð.
Ligg í grasinu hjá Gullinmuru og Gleymmérei og hlusta á Urriðafoss.
Handan Þjórsár eru nokkrir ísbirnir á beit.

Ég er ekki einu sinni neitt sérstakt náttúrubarn. Trúi bara á ákveðið réttlæti. Rétt fólks til að ákveða hvort það ætlar að selja jarðirnar sínar án þess að hafa áróðursmeistara inni á gafli hjá sér nánast vikulega (svo er fólk að hneykslast á ágengni votta Jehóva). Rétt almennings til að fá réttar upplýsingar. Rétt náttúrunnar sjálfrar.

Fullkomið veður til gönguferðar. Mömmurnar mættar líka. 10 félagar úr Sól á Suðurlandi komu og þeir sem ég talaði við taka bara mjög vel í að vinna með okkur.

Hvernig étur maður fíl? Einn bita í einu segja þeir. Við eigum mikinn fíl óétinn.
Við gætum kannski kryddað hann með blóðbergi

Aðstaðan er ekki ironisk. Hún er aluminumísk.

Legó

Hún leggst á hjartað í manni helvítis sorgin. Bókstaflega. Það er ekki tilviljun að öll menningarsamfélög lýsa sorginni eins og þetta tiltekna líffæri hafi orðið fyrir skaða. Brostið hjarta, kramið hjarta, grátandi hjarta, hjarta sem springur af harmi, hjartasár, blæðandi hjarta. Bjartur í Sumarhúsum var nett pirraður yfir helvítis hjartveikinni í kvenfólkinu.

Mig hefur oft verkjað í hjartað af sorg en það varir aldrei lengi. Þetta er aðeins öðruvísi tilfinning núna og svo er þetta orðinn langur tími. Þetta er ekki beint verkur. Ekki eins og vera með sáran sting í hjartanu eða sviðatifinningu og ekkert svona brostið hjarta eða neitt almennilega dramatískt, Samt er þetta raunveruleg, líkamleg tilfinning, þung og óþægileg eins og inngróinn legókubbur eða eitthvað svoleiðis.

Vinkona mín vill að ég fari til læknis en ég sé ekki tilgang í því. Ég veit nákvæmlega hvað er að mér. Einkennin eru líkamleg en orsökin andleg og ég þarf ekkert hjartalínurit til að staðfesta það. Og hvaða þjónustu á ég svosem að biðja um? Þetta er ekki beinlínis verkur. „Læknir ég með með svona þunga og sára tilfinningu eins og ég sé með legókubb fastan í hjartanu, hvítan legókubb og kámugan, og hann sé alltaf að þrýstast aðeins lengra inn. Get ég fengið eitthvað við því?“

Ég hélt að ég hefði sloppið svo vel í þetta sinn en kannski að fullkomið niðurbrot þjóni tilgangi eftir allt saman.

 

Eiga allar tilfinningar rétt á sér?

Mér ætti ekki að líða svona. Það er ekki einu sinni rökrétt, sagði ég. Vinkona mín horfði á mig þolinmóð og sagði mér svo í hundraðasta skipti að vera ekki svona vond við sjálfa mig. Það væri ekki hægt að afgreiða allar tilfinningar með rökum. Allar tilfinningar ættu rétt á sér… athyglisspan mitt náði ekki lengra. Ég dreg það satt að segja stórlega í efa að allar tilfinningar eigi rétt á sér. Þetta er svona álíka vitlaus klisja og að maður eigi að virða allar skoðanir. Halda áfram að lesa

Að elska land

Skrýtið að geta þótt svona vænt um skika af jörðinni. Ég er ekki einu sinni neitt sérstakt náttúrubarn og ég efast ekki um að mér gæti liðið vel nánast hvar sem er í heiminum en tilhugsunin um að fá ekki að vera hér, snertir mig furðulega illa.

Ég væri alveg til í að verða rík án fyrirhafnar en þetta ágæta tilboð stæði samt í mér.

Ást mín á landinu er ein af ástæðunum fyrir því að ég gæti ekki hugsað mér að giftast útlendingi. Ég á bara svo erfitt með að trúa því að nokkur vilji rjúfa tengslin við föðurland sitt. Mér finnst sú hugmynd að tengjast landi tilfinningaböndum fáránleg en mér líður svona samt.

 

Vesenið á þessum Gvuði

Fokk í helvíti. Þegar Gvuð birtist mér upp úr hádegi í dag og heimtaði að fá að opinbera mér sannleik sinn, benti ég honum á að blogga. Ætlaði sko ekki að fara að vera einhver senditík fyrir hann. Sagðist tilbúin til að veita honum aðgang að tölvu og geta hans á mínu bloggi, but that’s it.

Nú er hann búinn að hanga í tölvunni minni meira og minna í allan dag. Ef þetta verður svona áfram þá nenni ég ekki að hafa hann inni á gafli mikið lengur.

 

Blogg Gvuðs

Gvuð er skrýtin skrúfa. Hann ku hafa gert sér það til dundurs í árdaga að skapa heiminn og er að eigin sögn algóður, alvitur og almáttugur.

Gvuð hefur skoðanir á öllu. Kjarnorkuáætlun Bandaríkjamanna, kynhegðun minni og öllu þar á milli. Af og til hefur hann miðlað visku sinni og vilja til mannkynsins í gegnum sendiboða en þrátt fyrir meinta visku hans hefur aldrei tekist betur til en svo að menn taka þegar í stað að deila um það hvernig beri að túlka skilaboðin og því næst taka þeir til við að brytja niður mann og annan í þeim tilgangi að staðfesta sannfæringu sína um vilja Gvuðs. Halda áfram að lesa

Pöddur

Ég hélt að ég væri með ágæta vírusvörn.

Í gær tekur tölvan svo upp á því að loka á netsíður sem ég reyni að komast inn á, segist vera með vírus og heimtar að ég klikki á tengil til að laga það. Og allt í einu sit ég uppi með eitthvað antivirus 2008 sem heldur því fram að vélin sé full af pöddum en neitar að gera neitt í því nema ég borgi. Tölvustrákar segja mér að það geti allt farið í steik ef maður er með 2 vírusvarnarforrit inni, svo ég reyni að henda þessu nýja en það gegnur ekki. Klukkutíma síðar er antivirus 2009 kominn líka. Finnur 262 ógeð í vélinni en er víst ekki ókeypis og vill samt ekki hypja sig.

Spybot finnur ekki neitt og ég losna ekki við þessi forrit sem ég veit ekki til að ég hafi beðið um. Ég kemst ekki inn á netsíður sem ég vil nota nema eftir krókaleiðum. Kræst ég er að fríka út. Hvernig get ég vitað hvort forritið er að ljúga og hvernig losna ég við þá bræður antivirus 2008 og 2009?

 

Kræst

Geðveikt fólk getur gert mig geðveika. Annar hver lúni í Reykjavík virðist hafa tekið ástfóstri við mig. Mætti halda að það geysaði einhverskonar tunglsýkifarsótt og það er ekki einu sinni fullt tungl.

Ég held það sé kominn tími á Angurgapa.

Vííí!

Ég er rík! Var einmitt að vinna í Vodafone happdrættinu. Sem ég hef reyndar aldrei spilað í.

Hver ætli útvegi annars allar þessar milljónir sem ég hef unnið í happdrættum undanfarin ár? Djöfull væri ég orðin rík ef ég hefði einhverntíma sent inn þessar persónuupplýsingar sem þarf til að fá þær greiddar. Kannski þeir sem fjármagni dæmið (fyrst það eru ekki þáttakendur) séu þeir sömu og borga Saving Iceland laun fyrir mótmælaaðgerðir? Þar er nú önnur auðlind sem ég hef greiðan aðgang að en hef samt aldrei nýtt.

Ég hugsa að ég loki bara sjoppunni og gerist atvinnuvinningshafi. Örugglega meira upp úr því að hafa en að vera atvinnumótmælandi.

It’s a jungle out there

Og hvað merkir það þá að vera góð manneskja? spyr ég en hann getur auðvitað ekki svarað því. Líklega leggur hann gæði og þægindi að jöfnu. Sjálfsagt finnst honum góð manneskja vera sambærileg við góðan bíl, þægileg til reiðar, lætur vel að stjórn og tekur á sig skellinn ef kemur til áreksturs. Heldur útliti sínu nokkuð vel með góðri umönnun og gerir ekki kröfur umfram eldsneyti og reglulega smurningu. Halda áfram að lesa