Miriam ólst upp í Bretlandi. Foreldrar hennar eru umhverfissinnar. Þau eru aktivistar en hafa þó ekki, svo Miriam viti til, tekið þátt í aðgerðum sem teljast ólöglegar. Þau stunduðu lífræna ræktun og ráku fair-trade verslun þegar hún var barn. Í dag býr faðir hennar í Póllandi þar sem hann hefur helgað sig baráttu smábænda gegn erfðabreyttum matvælum. Miriam er alin upp við meðvitund gagnvart náttúrunni og við þá trú að vel stæðu fólki beri heilög skylda til að hjálpa þeim sem minna mega sín. Halda áfram að lesa
Greinasafn eftir:
Sagan af Devram Nashupatinath
Devram Nashupatinath er bóndi. Hann býr við ána Narmada á Norður Indlandi. Hann á 7 börn. Devram tilheyrir Adivasi fólkinu. Hann ólst upp á sama landi og langalangafi hans og þar bjó hann þar til í fyrra. Ekki af því að landið væri svo frábær bújörð heldur af því að hann átti ekki um neitt annað að velja. Devram er ólæs og tilheyrir einni af lægstu stéttum samfélagsins.
Samkvæmisleikur
Í gær heyrði ég athyglisverða sögu af afbrotamanni sem í tilteknu landi er sakaður um að vera ógn við þau gildi sem samfélagið grundvallast á (threat to fundamental society values.)
Það fyrsta sem mér datt í hug var að Usama BinLaden eða einhver vina hans hefði verið handtekinn og ég ætlaði varla að trúa mínum eigin eyrum þegar ég heyrði afganginn af sögunni. Þykja mér þarna stór orð notuð um ómerkilegan glæp. Stjórnvöld í þessu landi (sem er skilgreint sem lýðræðisríki) hafa greinilega allt aðrar hugmyndir um „grundvallargildi“ en ég. Sem vekur aftur spurningar um það hvort lýðræðislega kjörin Talibanastjórn ætti rétt á sér. Trú minni á ágæti svokallaðs lýðræðis hefur hnignað verulega á síðustu árum.
Sagan kom mér til að velta því fyrir mér hvaða glæpir það eru sem ógna grundvallargildum íslensks samfélags. Hver eru þau gildi sem gera Ísland að ríki lýðræðis og frelsis? Hvaða glæpamenn á Íslandi gætu átt á hættu að fá á sig ákæru af þessu tagi? Það fyrsta sem mér datt í hug var landráðamálið, þegar Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson innrituðu okkar í árásarstríð gagnvart fólki sem við áttum ekkert sökótt við. Vinkona mín nefndi fyrst rétt hvers manns til einkalífs og taldi þá sem stóðu fyrir því að hlera símann hjá Svavari Gests og félögum helst seka um að ógna þeim rétti. Einhvernveginn hef ég samt á tilfinningunni að okkar saksóknari myndi fremur nota þessi orð um sjúklingana á Litla Hrauni en um þá valdsmenn sem raunverulega eru í aðstöðu til að hrista stoðir lýðræðisins.
Hvað dettur lesendum í hug? Hver eru grundvallargildi íslensks samfélags og hvaða glæpamenn ógna þeim gildum? Þegar ég er búin að fá nokkur svör ætla ég að segja nánar frá þessu sérstæða sakamáli.
Þjónustuver Satans
Fyrir ca ári flutti ég Nornabúðina að mestu leyti frá Símanum og yfir til OgVodafone. Það voru góð umskipti og gæfurík. Ég ætlaði mér að flytja heimasímann og allt draslið þangað líka en þegar ég losnaði undan samningnum við Satan, komst ég að því að OgVodafone býður ekki upp á þann möguleika að vera með sjónvarpið tengt í gegnum netið. Halda áfram að lesa
Satans
Ég játa á mig kæruleysi og sofandahátt gagnvart reikningum. Ég skoða þá sjaldan og véfengi þá enn sjaldnar. Ef eitthvað kemur mér spánskt fyrir sjónir (sem gerist sjaldan þar sem ég skoða reikningana mína sjaldan af því að ég hef svo sjaldan ástæðu til þess að véfengja þá) er það fyrsta sem mér dettur í hug að ég hafi gert mistök, yfirsést eitthvað eða gleymt einhverju.
Í gær skoðaði ég símareikninginn minn, aldrei þessu vant og komst þá að raun um að á hann er skráð gsm númer sem ég kannast ekkert við. Af því hef ég greitt 650 kr á mánuði mjög lengi. Ég hugsaði, pældi og þvældi en kom því ekki fyrir mig hvaða númer þetta gæti verið. Í morgun hringdi ég í þjónustuver Satans og bað um skýringu. Fékk það svar að þetta væru posanúmer, sem er rökrétt því ég sagði upp allri annarri þjónustu hjá þessu skítafyrirtæki fyrir margt löngu. Einnig fékk ég að vita að annað posanúmerið (þetta sem ég kannast ekki við) væri greinilega ekki í notkun -sem er líka rökrétt því ég er bara með einn posa, hef aldrei haft fleiri en einn posa og hef ekkert með annan að gera. Bað því um að óvirka posanúmerinu yrði lokað og mér endurgreitt það sem ég hef borgað af því. Þá var mér sagt að til þess að hægt væri að loka númerinu yrði ég að tala við VISA því síminn rukkaði eingöngu fyrir posanúmer sem kortafyrirtækin hefðu skráð hjá hans sataníska þjónustuveri. Mér finnst undarlegt að ég geti ekki lokað posanúmerinu í gegnum Símann þar sem ég þurfti ekkert að tala við VISA til að láta loka því þegar ég sagði Satni upp í október í fyrra. Kannski hafa reglurnar breytst.
Nú jæja, ég hringi í VISA. Nema hvað -númerið er ekki einu sinni á skrá hjá þeim, hvað þá að þau hafi beðið Símann að rukka mig. Strákurinn sem ég talaði við sagðist samt ætla að skoða öll gögn til að ganga úr skugga um hvort hefðu einhversstaðar orðið mistök hjá þeim.
Eina skýringin sem mér dettur í hug er sú að þegar ég flúði frá Satni þá vissi ég ekki að OgVodafone væri ekki með posaþjónustu. Neyddist því til að biðja þjónustuver þess andskota Símans að virkja posanúmerið aftur. Ég spurði hvort væri hugsanlegt að við þá breytingu hefðu orðið einhver mistök og ég væri rukkuð fyrir númer sem ég hafði sagt upp stuttu áður (vegna klúðurs hjá Símanum) en bæði Síminn og VISA aftaka það. Ég hef einu sinni lent í vandræðum með posann. Þá voru svörin hjá Símanum einmitt þau að ég skyldi bara kvarta við VISA. Svörin hjá VISA voru hinsvegar þau að líklega væri vandamálið hjá Símanum en þau skyldu gera allt sem í þeirra valdi stæði til að aðstoða mig. Sem þau og gerðu. Vandamálið var hjá Símanum. Ég hef líka iðulega fengið rangar upplýsingar þar á bæ. Eitthvað hefur þjónustan samt skánað því ég er búin að hringja í þjónustuverið tvisvar í morgun og fékk í bæði skiptin samband mjög fljótlega. Meiri samkeppni takk.
Syndaregistur
Því betur sem ég kynnist heiminum, finnst mér trú og trúmenn vera stærra samfélagsvandamál. Á okkar frelsistímum er samt sem áður varla hægt að hreyfa sig án þess að Gvuð reki fokkjúputtann upp í rassgatið á manni. Heimsvaldastefnan byggir á trúhneigð almúgans og hinn langi fingur Gvuðs er ennþá, á Íslandi árið 2007 að pota í kynhegðun okkar.
Fólk sem sjálft hefur sennilega aldrei upplifað vel heppnað hórirí telur sig þess umkomið að dæma allt kynlíf sem það sjálft hefur ekki smekk fyrir sem ógeðfellt og/eða sjúklegt. Og smekkurinn mótast af hverju -TRÚARBRÖGÐUM! Eldgömlum goðsögnum. Syndin er tengd því sem víkur frá uppskrift valdastéttar fortíðar af því hvað teljist gott, rétt og Gvuði þóknanlegt. Hið „eðlilega“ hefur ekkert með eðli okkar að gera, heldur gamlar trúarkreddur um að ekki megi sýna það sem vekur losta eða stunda kynlíf sem gæti raskað samfélagsskipan sem er ekki lengur við lýði.
Á þessari gömlu vitleysu hvílir grunnurinn að allri umfjöllun um klám- og kynlífsvæðingu. Orðið hlutgerving kemur sterkt inn í þessa umræðu. Allir sem hafa gaman af klámi, borga fyrir kynlífsþjónustu eða eiga mök við fólk sem þeir hafa engan áhuga á að eyða lífinu með, hljóta að líta á bólfélaga sína sem viljalaus verkfæri og vitanlega eru þeir gersneyddir sjálfsvirðingu líka. Í þessum pistli líkir einn trúmaðurinn „kynlífi á yfirsnúningi“ (ég veit ekki nákvæmlega hvað hann á við en greinin fjallar um markaðsvæðingu kynlífs) við „…hrærivél sem þeytir öllu deiginu upp úr skálinni. Kakan fer aldrei í ofninn en þú ert heillengi að þrífa eldhúsið.“ M.o.ö. kynlíf á öðrum forsendum en þeim sem hann trúir á er alltaf rosalegt „mess“. Það hlýtur því að vera rökrétt ályktun að þeir sem syngda (eða drýgja hór) séu óttalegar subbur (maðurinn er það sem hann gerir) enda vitnar klerkurinn í Títusarbréf „Allir hlutir eru hreinum hreinir, en flekkuðum og vantrúuðum er ekkert hreint, heldur er bæði hugur þeirra flekkaður og samviska.“
Ég hef upplifað yndislegt kynlíf, bæði innan hjónabands og utan þess. Ég hef líka upplifað ömurlegt kynlíf, bæði í hjónabandi og utan þess. Ég hef átt langt, innilegt og reyndar mjög erótískt ástarsamband án þess að eiginleg kynmök hafi verið inni í myndinni og ég hef líka átt vel heppnuð skyndikynni þótt sérþarfa minna vegna, henti slíkt mér almennt illa. Ég held að kynlíf sé manninum nauðsynlegt því jafnvel þótt það byggist ekki alltaf á ólgandi ást, upplifir maður með því andartök ástúðar og það dregur, þótt ekki sé nema tímabundið, ofurlítið úr einsemd mannsins í veröldinni. Og nei, það er ekki hægt að komast hjá einsemd mannsins í heiminum með því að trúa á Gvuð, ef sú væri raunin væri mannkynið, með allt sitt trúarrugl, löngu hætt að ríða.
Ég hef elskað og ég hef misst og það er sárara en tárum taki. Ég hef líka drýgt allrahanda hór með mönnum sem ég hafði engan áhuga á frekari sambandi við og það er öllu æskilegra en ástarsorg. Það hefur verið misskemmtilegt en ég hef ekki fundið fyrir þessu meinta virðingarleysi og hlutgervingu. Þeir sem ég hef verið með hafa almennt sýnt mér tillitssemi og blíðu og þótt þeir hafi ekki elskað mig er ég hreint ekki viss um að þeir sem ég hef búið með hafi gert það heldur. Ég hef stundum meðvitað forðast að mynda tilfinningatengsl við samsyndara mína. Kannski er það það sem er átt við með hlutgervingu. Sé það rétt að djúp tilfinningatengsl séu forsenda þess að fólk komi fram við hvert annað af virðingu, má þá ekki alveg eins segja að ég hlutgeri bankagjaldkerann, heimilislækninn og kaffibarþjóninn, með því að þiggja þjónustu af þessu fólki án þess að hafa minnsta áhuga á persónulegu lífi þess?
Það er gott að syndga. Einu sinni lifði ég skírlífi í 9 mánuði. Það geri ég aldrei aftur. Það var vondur tími og ég gleymi aldrei fyrstu syndinni sem ég drýgði eftir þetta ömurlega tímabil ófullnægju og einsemdar. Það hefur verið við svipaðar aðstæður sem orðið „ljúft“ kom inn í tungumálið.
Það er gefandi að syndga. Ég hef syndgað með kynsveltum klæðskiptingi. Aldrei hef ég kynnst þakklátari manni.
Það er fróðlegt að syndga. Eitt sinn saurgaði ég háskólakennara með hýðingablæti. Það var skrýtin reynsla og skemmtileg. Þegar ég var búin með hann tók ég konuna hans líka. Ég mun alltaf hugsa til þeirra með hlýju en ég sakna þeirra ekki neitt. Það er nefnilega hægt að deita án þess að leggjast í dramsýki yfir því.
Það er æsandi að syndga. Á topp tíu listanum yfir vel heppnaðar syndir, trónir bláókunnugur maður sem ég forfærði í kapellu guðfræðideildar Háskólans haustið 2002 ef ég man rétt. Ást og innileiki komu þar lítt við sögu en adrenalínkikkið entist mér fram á kvöld. (Vel að merkja gæskur -ég man ekki hvað þú heitir en ef þú ert að lesa þetta máttu vita að ég væri alveg til í að hitta þig aftur, jafnvel á sama stað. (Þetta hlýtur að vera gott dæmi um hlutgervingu konunnar á karlinum.))
Það getur líka verið vont að syndga. Rétt eins og langtíma ástarsamband er ekki endilega ávísun á gott kynlíf. Það er hvekkjandi að syndga með klaufa sem heldur að koss sé það sama og að reka tunguna ofan í vélindað á manni og trúir hreinlega ekki á sérvisku eins og þá að vilja ekki láta snúa upp á geirvörturnar á sér. Vandamál sem fylgja því að þekkjast ekki vel er oft hægt að leysa með því einfaldlega að opna á sér þverrifuna (í þeim tilgangi að tala, meina ég) en skíthælsháttur verður hvorki læknaður með útskýringum né langtímakynnum.
Ég held að goðsögnin um hlutgervinguna komi til af því að það eru vitanlega meiri líkur á því að kynlíf mislukkist ef fólk þekkist ekki, er undir áhrifum vímuefna, illa á sig komið tilfinningalega og ber enga sérstaka umhyggju fyrir félaga sínum. Ég held að sumir þeirra sem sækja mikið í gróft klám og notfæra sér kynlífsþjónustu séu mjög einmana og illa haldnir af vanlíðan og kannski er það ekkert minna vandamál en sú staðreynd að þrælahald viðgengst í þessum iðnaði eins og öðrum. Hið ljóta og ömurlega er til, vissulega en flestar konur í okkar samfélagi stunda kynlíf af því að þær vilja það sjálfar og flestir karlar í okkar samfélagi a.m.k. líta á flestar konur sem manneskjur, með tilfinningar og sýna þeim þá tillitssemi sem þeir á annað borð eru færir um, allavega rétt á meðan þau eru að athafna sig.
Já. Það er gott að syndga. Oftast. Samt langar mig í maka. Það er þó ekki vegna þess að kynlíf mitt eigi eitthvað skylt við deigslettur á eldhússveggnum og reyndar dreg ég mjög í efa að kynlíf hrærivélarklerksins (sem á áreiðanlega ekkert skylt við synd eða hórdóm) sé nokkuð réttara, fallegra eða göfugra en stóðlífi mitt. Mig langar í maka vegna þess að maki er (vonandi) meira en bólfélagi og aðgengilegur flesta daga ársins. Líka reyndar vegna þess að hugmyndir prestlingsins um það hversu einfalt það sé að syngda í dag, byggja greinilega á einhverju allt öðru en reynslu. Það er nefnilega frekar flókið mál og krefst töluverðrar vinnu að verða sér úti um verulega ánægjulegt hórirí.
Eva | 8:13 | Varanleg slóð |
Tjásur
„When things happen too fast, nobody can be certain about anything, about anything at all, not even about himself.“
Milan Kundera
Posted by: Svavar Alfreð Jónsson | 14.09.2007 | 13:19:06
Ekkert í biblíunni bendir til þess að með hórdómi sé átt við að hlutirnir gerist of hratt. Með hórdómi er átt við kynhegðun sem víkur frá því normi sem valdamenn í samfélaginu setja hverju sinni.
Posted by: Eva | 14.09.2007 | 14:05:42
Minnir mig á það. Vantar að kaupa meiri slökunarbaðolíu hjá þér 🙂
Posted by: Guðjón Viðar | 14.09.2007 | 14:44:22
„Þér hafið heyrt, að sagt var: Þú skalt ekki drýgja hór. En ég segi yður: Hver sem horfir á konu í girndarhug, hefur þegar drýgt hór með henni í hjarta sínu.“ (Mt. 5, 27 – 28) Samkvæmt þessu er hóriríið á hraða hugsunarinnar.
Posted by: Svavar Alfreð Jónsson | 14.09.2007 | 14:57:02
Fyrsta bréf Sigurjóns til Kólossusmanna: „Hverjum er ekki sama?“
Posted by: Sigurjón | 14.09.2007 | 15:02:04
Ég horfi títt á karla með girndarhug, og líkar það vel, hvort sem ég er hórdrýgandi eða ekki.
Mér er nok sama hvað löngu dauðir karlar hafa sagt fyrir, guð má vita, hvað mörgum árum. Ég geri það sem mér finnst rétt hverju sinni og er ekkert hrædd um að lenda í helvíti. Kem líka sennilega til með að þekkja fleiri þar heldur en á hinum staðnum.
Posted by: Hulla | 14.09.2007 | 16:32:08
Ég trúi ekki á helvíti en ég er löngu búinn að reikna út að ef það sem stendur í Biblíunni er rétt þýði himnaríki slæman félagsskap.
Hver hefur ekki frekar viljað þola erfitt umhverfi í góðum félagsskap en paradís með forpokuðum leiðindapúkum?
Posted by: Kalli | 15.09.2007 | 15:24:40
Gott fólk, er það minn skilningur að þið sem hér eruð lítið á himnaríki sem einhverskonar „aulafílter“ og aðal djammið sí hjá lósgjafanum sjálfum. Ef svo er ekki kominn tími á almenilega að spá í því að það er víst mjög flókið að trúa á ljósberann án þess að trúa á „Gvuð?“ eða hvað? Hvað er samt málið með þetta syndatal, ég þekki eingann sem er ekki perri samkvæmt þreingsta skilnini kirkjunar þannig að ég held að það sé ekki rétt að himnarínki sé nothæf til að hreinsa úr allt leiðinlega fólkið. Nei góða fólk ég held að það sé bara hreinlega einginn í himnaríki við erum öll hér saman í helvíti og það er bara nokuð fínt að lifa.
Posted by: Dreingurinn | 17.09.2007 | 15:04:08
Venjulegt?
Mér finnst dálítið óhugnanlegt til þess að hugsa að það séu „venjuleg viðbrögð“ hjá sérsveitinni að miða byssum á höfuð óvopnaðra unglinga sem af tilviljun eru staddir nálægt hugsanlegum vettvagi glæps. Hversu góðum rökum þarf grunur að vera studdur? Er nóg að vera á ferð í götu þar sem eitthvað hefur gengið á? Í hverfinu? Er nóg að líta grunsamlega út?
Ég velti því fyrir mér hvort sérsveitin hefði brugðist jafn „venjulega“ við ef ungar stúlkur hefðu komið gangandi eða akandi frá húsinu. Móðir með börn? Hjón á áttræðisaldri? Þrír þekktir embættismenn? Þrír þekktir fjölmiðlamenn?
Getur verið að það sé út af fyrir sig grunsamlegt að vera „gaur“?
Mér finnst rigningin góð
Saving Iceland liðar fóru að Þjórsá í dag.
Mér finnst rigningin góð. Þ.e.a.s. rigning eins og í dag. Ég man ekki hvenær ég var úti í svona úrhelli síðast, það hljóta að vera mörg ár. Við þurftum að borða nestið inni í bílunum, annars hefði það orðið að brauðsúpu. Halda áfram að lesa
Heimsókn til Þórunnar
Í dag er alþjóðadagur grasrótarheyfinga gegn stóriðju. Þeir sem standa að þessu degi eru m.a. Saving Iceland, Rise Against í Trinidad, Earthlife Africa í S-Afríku, Alcan´t í Indlandi, Movement of Dam Affected People í Brasilíu og Community Alliance for Positive Solutions í Ástralíu. Allar þessar heyfingar eiga í höggi við sömu fyrirtækin en þar ber hátt nöfn eins og Rio-Tinto, Alcan og Alcoa.
Trúin læknar nottula allt
Reyndar vildi ég miklu frekar að trúboðar beindu áróðri sínum að slagsmálahundum og fyllibyttum en að börnum í leik- og grunnskólum en mér finnst samt eitthvað óhuggulegt við að fá staðfestingu á því að yfirmaður hjá lögreglunnii álíti trúboð gott stjórntæki.
Vinkona mín varð fyrir alvarlegu bílslysi í fyrra og hefur átt við þráláta verki að stríða síðan. Um daginn fór hún til læknis og bað um sterkari verkjalyf. Nú vill svo til að fyrir 15 árum var hún í óreglu og væntanlega í tilefni af því spurði læknirinn hana hvort hún héldi ekki að hún hefði meira gagn af AA fundum en verkjlyfjum. Óháð því hvort er einhver ástæða fyrir hugmyndum hans um að hún ætli að misnota lyfin (mér finnst sjálfri eðlilegt að treysta fólki sem hefur tekið ábyrgð á lífi sínu í 15 ár) er með öllu óþolandi að fólki sem leitar til læknis sé vísað á sértrúarsöfnuð. Að sama skapi vil ég að löggæslan sinni sínu starfi án aðstoðar trúboða.