Sagan af Miriam Rose

Miriam ólst upp í Bretlandi. Foreldrar hennar eru umhverfissinnar. Þau eru aktivistar en hafa þó ekki, svo Miriam viti til, tekið þátt í aðgerðum sem teljast ólöglegar. Þau stunduðu lífræna ræktun og ráku fair-trade verslun þegar hún var barn. Í dag býr faðir hennar í Póllandi þar sem hann hefur helgað sig baráttu smábænda gegn erfðabreyttum matvælum. Miriam er alin upp við meðvitund gagnvart náttúrunni og við þá trú að vel stæðu fólki beri heilög skylda til að hjálpa þeim sem minna mega sín.

Miriam lærði jarðfræði við háskólann í Sussex. Þar fékk hún sérstakan áhuga á Íslandi, lagðist í mikinn lestur og komst að þeirri niðurstöðu að líklega væri Ísland áhugaverðasta land veraldar fyrir jarðfræðinga og náttúruáhugafólk. Þegar hún frétti af því að til stæði að drekkja stórum hluta hálendisins, ákvað hún að fara til Íslands og sjá þessi örævi áður en þau færu undir vatn. Þegar hún kom til landsins kynntist hún nokkrum umhverfisaktivistum. Hún slóst í för með þeim og tók þátt í nokkrum aðgerðum, þar af einni þar sem beitt var því sem flokkast sem borgaraleg óhlýðni. Hún hafði aldrei tekið þátt í slíkum aðgerðum áður en hún þekkti fjölda aktivista frá sínu heimalandi sem ótal sinnum hafa hlekkjað sig við vinnuvélar og beitt álíka aðgerðum án þess að fá fyrir það fangelsisdóma. Það kom henni mjög á óvart hversu harða afstöðu Íslendingar hafa gegn mótmælum og hún er ekkert ein um þá undrun.

Í ferðinni kynntist Miriam ungum manni. Felldu þau hugi saman. Hún ákvað að setjast að á Íslandi, taka framhaldsnám í jarðfræði og fjölga mannkyninu í framhaldi af því. Fyrst vildi hún þó fara með vinkonu sinni til Indlands eins og þær höfðu löngu ákveðið.

Áður en Miriam kom til Indlands var hún fyrst og fremst umhverfissinni. Hún hafði megna óbeit á stóriðjustefnu Íslendinga en var þá fyrst og fremst með náttúruspjöll og mengun í huga. Á Indlandi kynntist hún annarri og ennþá ógeðfelldari hlið stóriðjunnar. Við Narmada sá hún þær þjáningar sem virkjanir í ánni hafa kostað. Í Orissa er ástandið svipað en þar hafa 50.000 manns, flestir adivasi (adivasi merkir bókstaflega frumbyggjar en orðið lýsir fremur stéttarstöðu en uppruna) hrakist frá heimilum sínum vegna báxítnáms og byggingar álvera. Alcan er þar stærsti skaðvaldurinn en um 100.000 manns til viðbótar munu hrekjast á vergang á næstu árum. Við skulum vona að Alcan sendi þeim Bjöggadiskinn í sárabætur.

Enda þótt Miriam hefði lesið heilmikið um ástandið í Indlandi, varð hún slegin. Þegar hún kom aftur til Íslands hafði gremja hennar í garð Alcan breyst í einlægt hatur. Hún tók þátt í aðgerð gegn Alcan, aðgerð sem hún vissi að gæti kostað hana fangelsisdóm. Hún meiddi engan, ógnaði engum, sagði ekki einu sinni ljótt þegar löggan kom að sækja hana. Hún klifraði upp í mastur, vel útbúin.

Miriam var handtekin og það var fyrst við þá handtöku sem henni var birtur dómur fyrir aðgerð frá sumrinu 2006. Hún sem hélt að hún hefði sloppið. Æ,æ, frekar fúlt. Hvað um það, hún tók því með stóiskri ró og sat af sér 8 daga dóm við aðstæður sem ekki eru taldar boðlegar, án þess að kvarta.

Miriam reiknaði alveg eins með því að fá á sig annan dóm fyrir aðgerðina gegn Alcan. Jafnvel harðari. Hún átti þó ekki von á því að vera vísað úr landi. Það virðist þó vera nokkuð sterkur möguleiki. Allavega hefur henni borist bréf frá Útlendingastofnun, þess efnis að hún megi eiga von á brottvísun, þar sem hún sé „ógn við grundvallargildi samfélagsins.“

Miriam Rose vissi það ekki fyrr en síðasta föstudag að réttur stórfyrirtækja til að eyðileggja náttúru landins og spúa tonnum af eiturgufum út í andrúmsloftið án truflunar frá þeim sem mótmæla umhverfisstefnu þeirra og hegðun þeirra gagnvart varnarlausum öreigum, teldist með grundvallargildum íslensks samfélags. Ég vissi það ekki heldur.

 

Share to Facebook

One thought on “Sagan af Miriam Rose

  1. WHAAAAAAAT???? :@

    Posted by: hildigunnur | 24.09.2007 | 21:20:28

    ——————————————————-

    láttu mig vita (auglýstu á síðunni, frekar) ef til kemur að halda meiri mótmæli, ég mæti og dreg með mér þá sem ég get!

    Posted by: hildigunnur | 24.09.2007 | 21:21:47

    ——————————————————-

    eða hvað annað sem við getum gert.

    Ég er nú þegar búin að senda tölvupóst á Útlendingastofnun.

    Posted by: hildigunnur | 24.09.2007 | 21:27:56

    ——————————————————-

    Farðu með þetta í fjölmiðla.

    Góður pistill og þarfur! Mikilvægt að taka þetta mál upp. Hafið þið annars spurt útlendingastofnun hver þessi gildi séu?

    Posted by: Þorkell | 25.09.2007 | 7:00:09

    ——————————————————-

    Ekki vissi ég þetta!!
    Ég held reyndar að þetta sé lýgi!!!
    Þetta eru ekki grundvllargildi íslensks samfélags…
    Sammála Kela, farðu með þetta beinustu leið í fjölmiðla.

    Posted by: Hulla | 25.09.2007 | 10:12:17

    ——————————————————-

    Já þetta er ljótt og rangt. það hvað „grundvallargildi“ er hált og lausmótað hugtak á ekki að vera skálkaskjól handhafa valdsins til að þagga niður í fólki. Það er fasískt.

    Posted by: Varríus | 25.09.2007 | 10:17:41

    ——————————————————-

    Og ég sem hélt að tjáningarfrelsi(og þar með frelsi til mótmæla) væri eitt af grundvallargildum samfélagsins.

    Posted by: Harpa J | 25.09.2007 | 10:46:13

    ——————————————————-

    Ef Miriam er ógn við grundvallargildi samfélagsins þá gef ég skít í þau grundvallaratriði samfélagsins (nú ætti ég sko að passa mig, ég kynni að vera handtekinn fyrir andstöðu við valdið, gæti allav. trúað þeim til að setja mig á svartan lista).

    Ég hef náttúrulega sjaldan heyrt aðra eins vitleysu og þennan frasa þeirra. Þetta er fáránlegt. Gangi ykkur allt í haginn. Ég styð Miriam heilshugar í baráttu sinni (hef skrifað útlendingastofnun bréf þess efnis) og hvet lesendur til að gera hið sama. Fyrir alla muni, farðu með þetta í blöðin.

    Posted by: Einar Steinn | 26.09.2007 | 23:31:27

Lokað er á athugasemdir.