Samkvæmisleikur

Í gær heyrði ég athyglisverða sögu af afbrotamanni sem í tilteknu landi er sakaður um að vera ógn við þau gildi sem samfélagið grundvallast á (threat to fundamental society values.)

Það fyrsta sem mér datt í hug var að Usama BinLaden eða einhver vina hans hefði verið handtekinn og ég ætlaði varla að trúa mínum eigin eyrum þegar ég heyrði afganginn af sögunni. Þykja mér þarna stór orð notuð um ómerkilegan glæp. Stjórnvöld í þessu landi (sem er skilgreint sem lýðræðisríki) hafa greinilega allt aðrar hugmyndir um „grundvallargildi“ en ég. Sem vekur aftur spurningar um það hvort lýðræðislega kjörin Talibanastjórn ætti rétt á sér. Trú minni á ágæti svokallaðs lýðræðis hefur hnignað verulega á síðustu árum.

Sagan kom mér til að velta því fyrir mér hvaða glæpir það eru sem ógna grundvallargildum íslensks samfélags. Hver eru þau gildi sem gera Ísland að ríki lýðræðis og frelsis? Hvaða glæpamenn á Íslandi gætu átt á hættu að fá á sig ákæru af þessu tagi? Það fyrsta sem mér datt í hug var landráðamálið, þegar Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson innrituðu okkar í árásarstríð gagnvart fólki sem við áttum ekkert sökótt við. Vinkona mín nefndi fyrst rétt hvers manns til einkalífs og taldi þá sem stóðu fyrir því að hlera símann hjá Svavari Gests og félögum helst seka um að ógna þeim rétti. Einhvernveginn hef ég samt á tilfinningunni að okkar saksóknari myndi fremur nota þessi orð um sjúklingana á Litla Hrauni en um þá valdsmenn sem raunverulega eru í aðstöðu til að hrista stoðir lýðræðisins.

Hvað dettur lesendum í hug? Hver eru grundvallargildi íslensks samfélags og hvaða glæpamenn ógna þeim gildum? Þegar ég er búin að fá nokkur svör ætla ég að segja nánar frá þessu sérstæða sakamáli.

Share to Facebook

One thought on “Samkvæmisleikur

  1. Eru grundvallargildi samfélagsins ekki bara stjórnarskráin?

    Posted by: Begga | 22.09.2007 | 11:25:52

    ———————————————————

    Lýðræðið? Frelsið? (grunar hvert þú ert að fara… fylgist spennt með…)

    Posted by: Siggadís | 22.09.2007 | 13:59:10

    ———————————————————

    Grundvallargildi íslensks samfélags eru tvímælalaust okkar menningarlegu verðmæti. Án þeirra værum við ekki neitt. Tek undir með þér með Davíð og Halldór en einnig þá sem til dæmis vilja ekki að við höldum hér uppi hámenningarstarfsemi, listasöfnum, leikhúsum, sinfóníuhljómsveit og rás 1.

    Posted by: hildigunnur | 22.09.2007 | 15:44:07

    ———————————————————

    Hildigunnur nú er ég ekki viss um að ég skilji þig rétt. Áttu við að þér finnist að eigi að vera hægt að kæra fólk sem styður ekki menningarstarfsemi fyrir að ógna grundvallargildum samfélagsins?

    Posted by: Eva | 22.09.2007 | 16:34:48

    ———————————————————

    kannski fullgróft að kæra það, en já. Hefðum við ekki haft okkar menningarlega bakgrunn værum við bókað enn í torfkofunum og treystandi á Dani um aðstoð.

    Ekki bara ég sem held þessu fram…

    Posted by: hildigunnur | 22.09.2007 | 17:03:20

    ———————————————————

    Ég myndi vilja kæra foreldra sem nenna ekki að ala upp börnin sín, þau hljóta að vera að grafa undan gildum samfélagsins.

    Posted by: Kristín | 22.09.2007 | 18:25:50

    ———————————————————

    Já – en Hildigunnur – þetta sem þú kallar menningarbakgrunnur er að uppistöðu innflutt afþreying. Leikhús, óperur, klassísk tónlist og þusslags. Ljóðagerð og sagnaritun eru íslenskar listgreinar, kannski þær einu og gætu því talist til menningarBAKGRUNNS – hitt er bara innflutt menning, álíka nauðsynleg íslensku samfélagi og Die Hard myndirnar – ári miklu betra að hafa þetta, en kæmumst vel af án.
    Eva – pass. Ferðu norður um næstu helgi?

    Posted by: Jón KJartan Ingólfsson | 23.09.2007 | 1:54:20

    ———————————————————

    Nei alls ekki. Ekki á meðan það er verið að semja hér nýja tónlist, mála myndir og þanniglagað, þá er hún það ekki.

    Það er nefnilega mjög vel hægt að heyra að ný tónlist sé íslensk, til dæmis, í langflestum tilvikum. Þegar útlendingar útsetja íslensk þjóðlög, t.d. fyrir kóra, kemur það undantekningalaust illa út. Jafnvel þótt viðkomandi útlendingur hafi búið hér á landi í fjölmörg ár.

    Svo sem alveg sammála með Mozartsinfóníur og leikrit eftir Shakespeare.

    Posted by: hildigunnur | 23.09.2007 | 7:58:38

    ———————————————————

    Þótt hér haldi fólk ekki mikið upp á álver, verð ég að koma með dæmið um að forsvarsmenn Alusuisse völdu Ísland fyrir álverið í Straumsvík upphaflega vegna þess að hér væri nægilega hátt menningarstig til að rekin sé sinfóníuhljómsveit…

    Posted by: hildigunnur | 23.09.2007 | 8:03:23

    ———————————————————

    Já Jón Kjartan, ég ætla norður. Viltu deila bíl eða vera í samfloti?

    Posted by: Eva | 23.09.2007 | 10:06:23

    ———————————————————

    Ég vil meina, eins og Kristín að grundvallargildi samfélagsins séu t.d. réttur barna til að fá gott uppeldi og umhyggju. Ég er líka sammála Hildigunni með að samfélög grundvallast að nokkru leyti á menningunni. Ég myndi samt segja að réttur allra til að lifa án ofbeldis og njóta venjulegra mannréttinda sé mikilvægastur og að bæði einstaklingar sem fremja hryðjuverk og aðra glæpi og valdníðsla í kerfinu, geti ógnað þeim gildum.

    Posted by: Sigurgeir | 23.09.2007 | 10:46:29

    ———————————————————

    Hildigunnur – OK ég kaupi þessi rök. Eva – því miður, ég fer fljúgandi, en glaður skal ég deila með þér rellunni

    Posted by: Jón Kjartan Ingólfsson | 23.09.2007 | 12:04:40

    ———————————————————

    Ég get eiginlega ekki svarað þessari spurningu því ég er svo andstyggileg í hugsun að ég tek ekkert sérstakt mark á glansmyndinni af því hvaða gildi við viljum telja okkur hafa. Einu gildin sem ég er virkilega sannfærð um að Íslendingar hafi séu að það sé dyggð að vinna mikið en þó ennþá meiri dyggð að vinna ekki að neinu nema á síðustu stundu.

    Posted by: Unnur María | 24.09.2007 | 10:18:46

    ———————————————————

    Og… Eva…? Hvað er málið…?

    Posted by: Siggadís | 24.09.2007 | 11:25:13

    ———————————————————

    Vér landar erum svo heppin að eiga engin grundvallargildi verð þess að henda fólki í fangelsi fyrir. Sú sameiginlega lífsýn sem við höfum innst inni öll sem eitt, það frumefni sem innsiglar hverja frumu okkar er : “We don’t give a shit”

    Posted by: Guðjón Viðar | 24.09.2007 | 12:38:52

    ———————————————————

    Grundvallargildi er stórt orð. Annarsvegar hefðum við örugglega öll gott af að ræða ofan í kjölin hver þau eru, og hinsvegar er mjög gott að hugsa ekki um þau, negla þau ekki niður í orð, hvað þá rituð orð.

    Þetta er svolítið eins og að anda. Prófið að hugsa um hvað gerist þegar þið andið. Hvaða vöðvar vinna, hversu oft er andað, hversu miklu átaki er beitt á hverjum stað.

    Manni liggur við köfnun, eða hyperventilasjón.

    Posted by: Varríus | 24.09.2007 | 13:58:33

    ———————————————————

    Ég vil foreldralögguvíkingasveit og menningarvaktagæslumenn. Með leyfi til að skjóta fyrst og spyrja svo!
    Varríus og Unnur María eru lýðskrumarar! Það verður að huga að grundvallargildum og vera með þau á hreinu.
    Komdu nú með söguna Eva, við erum að farast úr forvitni!

    Posted by: Kristín | 24.09.2007 | 15:22:16

    ———————————————————

    Athyglisvert að vera kallaður lýðskrumari af einhverjum sem finnst málin vera einfaldari og svörin augljósari en manni finnst sjálfum

    Og söguna verður gott að fá.

    Posted by: Varríus | 24.09.2007 | 16:13:01

    ———————————————————

    Athyglisvert að vera kallaður lýðskrumari af einhverjum sem finnst málin einfaldari og svörin nærtækari en manni sjálfum. Og sem finnst vera lausn að “skjóta”

    Sögunnar bíðum við öll í ofvæni.

    Posted by: Varríus | 24.09.2007 | 16:15:41

    ———————————————————

    Og hvenær kemur svo sagan?????

    Posted by: Harpa J | 24.09.2007 | 16:33:24

    ———————————————————

    Kæri Varríus, ég ætla að biðja ykkur Unni Maríu opinberlega afsökunar. Því nú er sagan komin og öllu gamni verður að sleppa. Fyrirgefið mér.

    Posted by: Kristín | 24.09.2007 | 18:36:39

    ———————————————————

    Veiti fyrirgefninguna ljúflega.

    Posted by: Unnur María | 24.09.2007 | 19:22:14

    ———————————————————

    fúslega veitt

    Posted by: Varríus | 24.09.2007 | 19:40:15

    Grundvallargildi íslensks samfélags? Eru þau einhver önnur en gildi vestrænna samfélaga? Hefur Ísland einhverja sérstöðu? Og svo er alltaf spurning hvað átt er við með hugtakinu samfélag. Mér dettur einna helst í hug tjáfrelsi, menntun og eignarréttur.

    Posted by: Þorkell | 25.09.2007 | 6:50:10

Lokað er á athugasemdir.