Rún dagsins er Hagl

Hagl er rún tímabundinna erfiðleika. Í galdri er hún notuð sem refsirún, til þess að kalla erfiðleikahríð yfir þann sem hefur gert á hlut manns. Þótt markmiðið sé ekki að valda varanlegum skaða er alltaf vafasamt að nota bölrúnir og í versta falli getur það hitt nornina sjálfa eða einhvern annan en hún ætlaði.

Í rúnalestri er Hagl merki um að erfiðleikar séu óhjákvæmilegir en að í þessu tilviki sé best að berjast ekki af krafti heldur að bryjna sig sem best og standa af sér hríðina. Rétt eins og haglél bítur erfiðleikahríðin svo undan svíður en hún gengur blessunarlega fljótt yfir.

Rún dagsins er Vend

Vend er happarúnin, sú sem vendir böli í gæfu og kallar fram gleði, skemmtun og nýjar hugmyndir. Vend er skemmtilegasta rúnin og í galdri er hún notuð til að bæta úr slæmu ástandi og kalla fram heppni sem hvetur mann til dáða. Ekkert illt hlýst af notkun hennar.

Í rúnalestri táknar Vend að erfiðleikaskeiði er að ljúka eða nýtt og skemmtilegt tímabil að hefjast. Einnig getur hún boðað óvænt happ fremur en varanlega gæfu. Spyrjandinn ætti að vera opinn fyrir þeim möguleika að happ sem í fyrstu virðist ómerkileg tilviljun sé fyrirboði um hrinu heppilegra tilviljana sem hann getur nýtt til góðs.

Rún dagsins er Gjöf

Gjöf er mesta gæfurúnin í norræna rúnarófinu. Í galdri er húr notuð til að kalla fram gæfu í hverskyns aðstæðum og sér í lagi í samskiptum. Gjöf er rún ástar, vináttu og þakklætis og alltaf er óhætt að nota hana í galdri því útilokað er að gera neitt illt með því hugarfari sem hún táknar.

Í rúnalestri táknar Gjöf að spyrjandinn á von á góðu. Hún getur falið í sér vísbendingu um að það sé spyrjandanum til mikillar gæfu að sýna örlæti og vinarhug. Þakklæti er einnig tengt rúninni. Í víkingasamfélaginu táknaði það gagnkvæma hollustu að færa einhverjum gjöf og er Gjöf einnig tákn giftingar og góðra viðskipta.

Rún dagsins er Kaun

Kaun er rún erfiðleika og sársauka. Í galdri er hún notuð til hefndar en eins og títt er um forneskju er hætt við að það bitni verst á norninni sjálfri og því mælt með að leita frekar annarra ráða til að jafna metin, sé þess þörf.

Í rúnalestri tákar Kaun að spyrjandinn geti búist við erfiðleikaskeiði þar sem reynir á þolgæði hans og vilja til að takast á við sjálfan sig. Kaun er tákn fæðingarhríða svo mundu að þótt sársaukinn geti virst óbærilegur verður engin fæðing án hríða. Heilmikill sköpunarkraftur er falinn í rúninni fyrir þann sem lærir af reynslunni.

Rún dagsins er Reið

Reið er rún ferðalaga og ævintýra. Í galdri er hún notuð til að finna ný og spennandi tækifæri og efla hugarflug og sköpunargleði. Eins er hún notuð til verndar í óvæntum og ískyggilegum aðstæðum. Reið er engin stöðugleikarún og varfærni er þörf við notkun hennar.

Í rúnalestri táknar Reið að spennandi tímar séu framundan. Allt getur gerst, svo það hvernig til tekst og hvaða þætti þarf að varast er komið undir því hvaða rúnir koma upp með henni. Reið gefur engin fyrirheit um að ferðalagið verði auðvelt en víst er að spyrjandanum mun ekki leiðast á þeirri ferð.

Rún dagsins er Ás

Æsir eru tákn menningar, hernaðar og visku og Ás er viskurúnin. Hún táknar bæði bókvit og þá visku sem menn öðlast af reynslunni. Í galdri er hún notuð til þess að finna rétt og skynsamleg svör við ráðgátum og góð ráð í hverjum vanda.

Í rúnalestri táknar Ás að fyrirhyggju sé þörf og að spyrjandinn skuli lesa sér til eða leita ráða hjá sér viturra fólki áður en hann tekur ákvörðun. Hugsa málin til enda og skipuleggja verkið áður en hann hefst handa. Einnig getur hún táknað að nú sé rétti tíminn til að hefja nám eða leggja út á nýja braut í menningu og listum.

Rún dagsins er Þurs


Þurs er bölrún, sú öflugasta í rúnarófinu. Þurs er rún óhamdrar náttúru sem ekkert verður við ráðið. Í galdri er hún notuð til að kalla bölvun yfir óvin en þar sem Þurs er vandmeðfarinn getur slíkur fordæðuskapur auðveldlega snúist í höndum manns og því best að láta hann eiga sig.

Í rúnalestri táknar Þurs áfall sem spyrjandinn getur ekki komið í veg fyrir, svosem náttúruhamfarir, efnahagshrun, sjúkdóma og dauða. Það sem hann getur gert er hinsvegar að bregðast við áfallinu, gera ráðstafanir til að draga úr afleiðingunum ef hann sér það fyrir og  muna að það er engin skömm að leita hjálpar. Það gerðu víkingar einmitt þegar þeir ákölluðu guði sína.

Rún dagsins er Úr

Úr eða Úruxi er tákn nautsins sem plægir jörðina. Uxinn fer ekki mjög hratt en hann lætur engar fyrirstöður stöðva sig, Þetta er því rún styrks og þrautseigju. Í galdri er hún notuð til að efla viljastyrk og einbeitingu að einu markmiði.

Í rúnalestri felur Úr í sér ábendingu um að spyrjandinn eigi að halda ótrauður áfram á þeirri braut sem hann er þegar á eða þeirri sem blasir við, láta ekkert trufla sig og stilla sig um að sinna mörgu í einu. Einnig að hann eigi að hafa meiri trú á sjálfum sér því hann býr yfir miklu meiri styrk en hann gerir sér grein fyrir.

Rún dagsins er Fé

Eins og nafnið gefur til kynna er Fé rún búfénaðar sem er forgengileg eign en um leið eign sem getur ávaxtast.  Fé er notuð í galdri til þess að auka möguleika á hagnaði.

Þegar Fé kemur upp í rúnalestri er það ábending um að spyrjandinn eigi kost á að ávaxta fé sitt en rétt eins og bústofninn þarfnast umhirðu til þess að eign bóndans vaxi, er spyrjandanum nauðsyn á að sýna fyrirhyggju og vinna vel og markvisst að því að láta drauma sína rætast. Ef hún kemur upp með Ísrúninni er það vísbending um stöðugleika í fjármálum – til góðs eða ills eftir því hvernig staðan er.

Fúþarkinn sem verndarhringur

Norræna rúnarófið er kallað fuþark, eftir fyrstu 6 rúnunum. Rúnir voru ekki notaðar til þess að skrifa bækur heldur í áletranir, t.d. á bautasteina, rúmbríkur og kistla og ekki síður til galdraiðkunar. Á Íslandi var aðallega notað 16 rúna róf en þessi norræna gerð rúnarófsins er eldri og að mínu mati bæði fallegri og skemmtilegri. Halda áfram að lesa

Blogggáttin 2017

Ég var að skrá norn.is á Blogggáttina en ég hef ekki fylgst með henni í mörg ár. Listinn yfir mest lesnu blogg ársins hefur ekki verið uppfærður frá 2011. Mér sýnist reyndar að stórir netmiðlar sem hafa auglýsingatekjur, og eru uppfærðir oft á dag, hafi nánast yfirtekið Bloggáttina. Þeir sem halda úti sínum eigin lénum eru lítt sýnilegir og bloggarar sem birta skrif sín á bloggsvæðum stóru miðlanna eru í þeirri undarlegu stöðu að keppa um athyglina við miðlana sem þeir skrifa fyrir, frítt. Halda áfram að lesa

Lúxuskrísa

Ég verð að fara að taka ákvörðun um það hvað ég ætla að gera í vetur. Mig langar nákvæmlega ekkert að taka meistaranám í HÍ, þar er sama ömurlega krossaprófastefnan og í grunnnáminu og gert ráð fyrir 5 námskeiðum á önn. FIMM námskeiðum. Mér hrýs hugur við því. Maður á semsagt að halda áfram að krafsa í yfirborðið á öllu. Læra þúsundir blaðsíðna utan að og reyna að komast hjá því að hugsa sjálfstætt. Engin sérhæfing og sárafá tækifæri til að kafa djúpt í efnið. Ég gubba. Halda áfram að lesa