Blogggáttin 2017

Ég var að skrá norn.is á Blogggáttina en ég hef ekki fylgst með henni í mörg ár. Listinn yfir mest lesnu blogg ársins hefur ekki verið uppfærður frá 2011. Mér sýnist reyndar að stórir netmiðlar sem hafa auglýsingatekjur, og eru uppfærðir oft á dag, hafi nánast yfirtekið Bloggáttina. Þeir sem halda úti sínum eigin lénum eru lítt sýnilegir og bloggarar sem birta skrif sín á bloggsvæðum stóru miðlanna eru í þeirri undarlegu stöðu að keppa um athyglina við miðlana sem þeir skrifa fyrir, frítt.

Mér finnst að einhver (annar en ég) ætti að opna blogggátt eingöngu fyrir einstaklingsblogg. En það er sjálfsagt mikið um markatilvik og þyrfti þá oft að leggja mat á það hvort vefsíða uppfyllti skilyrðin. Það er enginn að fara að standa í því ókeypis.

En ég ræð allavega hér og ég birti bara tengla á einkavefi. Ég hef ekki fylgst náið með bloggheimum mjög lengi og er örugglega að gleyma einhverjum uppáhaldseinyrkja. Ábendingar vel þegnar.  Ég hef aldrei búið til rss-veitu og í augnablikinu nenni ekki að finna út hvernig það er gert. Geri það kannski seinna.

Ég opnaði þessa Facebook-síðu aftur í gærkvöld en hún hefur verið meira og minna lokuð síðustu árin. Það er ekki sniðugt að hafa FB-síðu opna ef maður er ekkert að fylgjast með henni því þá fær maður kannski póst eða tjásur og áttar sig ekki á því fyrr en mörgum mánuðum síðar. Ég er með einhverjar hugmyndir um það núna að endurvekja bloggið og vera rosalega virk en hversu lengi það stendur, það verður bara að koma í ljós.

Deila færslunni

Share to Facebook