Rún dagsins er Óðal

Óðal er ættarsetrið og þessi rún táknar varanlegt öryggi, heimilið, föðurlandið og fjölskylduna. Hún hentar vel þeim sem vilja galdra fram hagstæð íbúðarkaup og þeim sem eru að stofna heimili. Sagt er að ættarmót heppnist sérlega vel fyrir tilstilli Óðals.

Í rúnalögn boðar Óðal veraldlegt öryggi. Ef spyrjandinn er húsnæðislaus munu raunir hans brátt á enda og framundan er tímabil farsæls fjölskyldulífs. Sá sem hefur hrakist að heiman mun komast heim. Ef spyrjandinn vill komast til metorða skal hann leita ráða frænda sinna og forfeðra. Mun honum vel þá farnast.

Rún dagins er Dagur

Dagur er tákn upplýsingar og nýrra tíma. Sumir telja hana eiga að vera síðustu rún rúnarófsins fremur en Óðal. Í galdri er Dagur notaður til að öðlast skilning, komast yfir upplýsingar, ná áfanga eða komast frá veraldlegum aðstæðum eða sálrænu ástandi, ekki síst þunglyndi.

Í rúnalestri táknar Dagur að hið gamla verður að víkja fyrir hinu nýja. Það verður ekki bæði sleppt og haldið. Sá sem vill slíta sambandi verður að ljúka því endanlega og sá sem vill komast yfir slæma ávana getur þurft að forðast aðstæður sem ýta undir þá hegðun. Árangurinn af því verður tímabil bjartsýni og gleði.

Rún dagsins er Ingvi

Ingvi/Yngvi er frjósemisrún. Hún táknar konunginn sem átti vald sitt undir því að guðirnir blessuðu ríki hans með góðu árferði. Áður fyrr þótti heillavænlegt að grafa rúnina undir þröskuldi gripahúsa til þess að auka frjósemi búfjár. Ingvi hentar vel í heillagripi og galdrafólk notar þessa rún í galdra sem eiga að tryggja fjárhagslegt öryggi og eins til frjósemisauka.

Í rúnalögn táknar Ingvi barnsfæðingu eða að spyrjandinn muni senn ná veraldlegu markmiði sem hann hefur unnið að lengi. Tími friðar og velmegunar er framundan. Ef bölrún kemur upp á eftir Ingva er því ástandi ógnað. Elskendum boðar rúnin góða sambúð og barnalán.

Rún dagsins er Lögur

Lögur er andlegust rúna. Hún táknar vatnið sem þrátt fyrir mýkt sína er einn af frumkröftum náttúrunnar, í senn lífgefandi og eyðandi. Lögur er lækningarún og einnig notaður sem tákn þess sem finnur sér farveg fram hjá hindrunum ef hann getur ekki rutt þeim úr vegi. Þakklæti og hugarró þarf til að rúnin hafi áhrif í galdri.

Í rúnalestri getur Lögur táknað lækingu, kærleika og andlega næringu. Ef spyrjandinn er námsmaður, frumkvöðull, listamaður eða fæst við umönnun eða sálgæslu, boðar Lögur honum gæfu. Ef hann er í vandræðum mun hann finna leið út úr þeim af eigin rammleik.

Rún dagsins er Maður

Mannsrúnin er torræðasta rún norræna rúnarófsins. Hún táknar sjálfsvitund mannsins. frjálsan vilja hans og hæfni hans og skyldu til að taka sjálfstæðar ákvarðanir og líta heiminn og sjálfan sig gagnrýnum augum, án þess að vera niðurrífandi. Rúnin er notuð í galdri þegar reynir á rökhyggju og viljafestu og einnig þar sem þörf er fyrir góð samskipti.

Í rúnalestri táknar Maður sjálfstæði og viljafestu spyrjandans ef hún kemur upp ein en með öðrum rúnum getur hún táknað aðra manneskju, vin, fjölskyldumeðlim, ráðgjafa eða óvin, allt eftir því hvaða rúnir standa með henni.

Rún dagsins er Jór

Jór er reiðskjótinn sem ber manninn á vit nýrra ævintýra. Eða nýrra ógna ef svo ber undir. Jór er skyldur rúninni Reið en ólíkt henni táknar Jór að ef maður vill breyta aðstæðum sínum þá verður hann að gera eitthvað í því sjálfur. Í galdri er Jór notaður til þess að öðlast kjark og visku til að taka erfiða ákvörðun og sem vegvísir.

Í rúnalestri táknar Jór að spyrjandinn standi frammi fyrir tveimur eða fleiri valkostum og hann má ekki daga það lengi að taka ákvörðun því þá fer hesturinn af stað án hans. Nærliggjandi rúnir gefa til kynna hversu ánægjuleg ferðin verður.

Rún dagsins er Björk

Björk er lítið harðgert tré sem stendur af sér öll áföll. Hún er gæfurún, felur í senn í sér vernd og sköpunarkraft og hentar vel í hverskyns töfragripi til happs og verndar.

Ef Björk kemur upp ein í rúnalestri táknar hún að spyrjandinn hefur góða aðlögunarhæfileika. Hann mun komast í gegnum erfiðleika án þess að bugast. Hann hefur sérstaka getu til að snúa aðstæðum sér í hag og nýta veikustu hliðar sínar til góðs. Framundan er enginn frítími en spyrjandinn mun blómstra í þeim verkefnum sem hann fæst við og njóta þess að þroska hæfileika sína, hvort heldur er veraldlega eða andlega.

Rún dagsins er Týr

Týr eða Tír er stríðsrúnin, tákn árásar, öryggis, frumkvæðis og brautruðnings. Í galdri er hún notuð þegar nornin þarf að efla hugrekki sitt til þess að takast á við nýjar aðstæður þar sem hætta getur steðjað að eða þar sem þarf að ýta hindrunum úr vegi með áhlaupi fremur en að mjaka hlutunum í rétta átt á löngum tíma.

Í rúnalestri táknar Týr herforingjann sem bíður ekki eftir að óvinurinn geri áhlaup heldur heggur um leið og ástæða gefst. Týr getur falið í sér viðvörun um hvatvísi ef Reið, Jór eða Maður koma upp með henni. Ef Þurs eða Nauð koma upp næst Tý táknar það tilgangslaust stríð.

Rún dagsins er Sunna


Sunna, sólarrúnin, er sigurrún. Hún táknar sjálfstraust og sigurvissu, gott árferði, öryggi, persónutöfra og leiðtogahæfileika. Í galdri er hún notuð til að tryggja sigur í hverskyns baráttu.

Í rúnalestri táknar Sunna að spyrjandanum sé óhætt að taka áhættu og að bjartsýni og áræðni muni á næstunni duga honum betur en varkárni og tortryggni. Ef hann sýnir dirfsku og metnað getur hann aukið vinsældir sínar og velgengni til muna. Óvinir hans munu í flestum tilvikum leggja á flótta, en ef ekki fer hann með sigur af hólmi svo fremi sem hann nýtir herkænsku sína og  leiðtogahæfileika til fullnustu.

Rún dagsins er Elgur

Elgur er varnarrún sem táknar hin stóru horn elgsins. Elgur er allra rúna nytsamlegust því hún er mögnunarrún og er notuð í galdri til þess að magna áhrif annarra rúna og á næstum alltaf vel við. Hún er notuð til að verjast árás eða illum hug og er vinsæl sem verndargripur.

Í rúnalestri táknar Elgur að spyrjandinn hefur alla burði til að verjast erfiðleikum og árásum. Hann er hugrakkari en hann heldur og þarf bara að taka fyrsta skrefið, eftir það verður allt auðveldara. Þegar rúnin kemur upp með öðrum rúnum táknar hún aukin áhrif þeirra þátta sem gæfurúnir standa fyrir og vörn gegn bölrúnum.

Rún dagsins er Barð

Barð er verndarrún og hentar byrjendum vel því hún gerir ekkert illt. Barð táknar vernd heimilis og einkalífs og er ekki síst notuð sem verndargripur fyrir börn og aðra smælingja.

Í rúnalestri táknar Barð ein og sér að leyndarmál spyrjandans eru vel geymd og ekkert illt steðjar að honum. Ef bölrúnir koma upp næst henni getur það táknað að ógn vofi yfir og því sé tímabært að huga að tryggingum og öryggisbúnaði. Ef Barð kemur upp næst Mannsrúninni táknar það traustan vin eða verndara en komi jafnframt upp Nauð eða Þurs þarf spyrjandinn að varast fláráða vini.

Rún dagsins er Ýr

Ýr er rún sköpunar og sveigjanleika. Ýr merkir bogi, sem er notaður til þess að skjóta ör í mark, en einnig íviður, sem er mjúkur og sveigjanlegur og gott efni í boga. Í galdri er rúnin notuð til þess að ná fram góðum samningum sem báðir aðilar hagnast á og til þess að tryggja farsæla lausn í deilumálum og finna nýjar lausnir.

Þegar Ýr kemur upp í rúnalestri táknar hún að spyrjandinn geti fengið sínu framgengt, að minnsta kosti þannig að hann verði sáttur, ekki með því að vera harður í samningum heldur með því að gefa eftir og huga að fleiri valkostum.

Rún dagsins er Jörð

Jörð er uppskerurúnin. Nafnið táknar í senn jörðina og árið og felur í sér þá hugmynd að hafi maður á annað borð sáð í akur sinn og annast hann vel sé nú komið að uppskerutíð. Hún er auðvitað ekki varanleg svo nú er rétt að safna korninu í skemmur en ekki eyða og spreða. Jörð er gæfurún sem hentar byrjendum vel.

Í rúnalestri táknar Jörð verðskuldaðan árangur. Sé spyrjandinn að takast á við nýtt verkefni er hún honum hvatning til að standa vel að verki en ef verkefninu er að ljúka boðar hún að hann mun uppskera eins og hann sáði til og ræðst það af nærliggjandi rúnum hvers er að vænta.

Rún dagsins er Ís

Ís er rún kulda og stöðnunar. Í galdri er hægt að nota hana bæði til ills og góðs, til að tryggja varanlegt ástand, en ekki er hægt að mæla með því fyrir byrjendur.

Í rúnalestri getur hún táknað að spyrjandinn sé á hálum ís og þurfi að fara varlega og íhuga hvert skref. Einnig að það ástand sem hann er ósáttur við sé líklegt til að vara lengi ef ekkert verður að gert. Hann þarf að „brjóta ísinn“, hvort heldur er í samskiptum eða með því að koma sér úr þeim aðstæðum sem hann er fastur í, en ekki má hann flana að neinu því það mun fara illa.

Rún dagsins er Nauð

Nauð táknar illgirni, áþján, neyð og nauðung. Í galdri er hún notuð til að gera öðrum eitthvað til miska og það ástand getur varað lengi en einnig snúist gegn þeim sem galdrinum beitir. Hægt er að nota Nauð til góðs því hún táknar einnig stafi sem núið er saman til að kynda eld og bönd sem festa eitthvað saman en hún er vandmeðfarin og ekki fyrir byrjendur.

Í rúnalestri táknar Nauð þvingandi aðstæður sem spyrjandinn verður að bregðast við því ástandið mun ekki lagast af sjálfu sér. Hann er fastur í viðjum sem hann verður að brjóta, þótt það kosti að hann þurfi að særa einhvern.

Rún dagsins er Hagl

Hagl er rún tímabundinna erfiðleika. Í galdri er hún notuð sem refsirún, til þess að kalla erfiðleikahríð yfir þann sem hefur gert á hlut manns. Þótt markmiðið sé ekki að valda varanlegum skaða er alltaf vafasamt að nota bölrúnir og í versta falli getur það hitt nornina sjálfa eða einhvern annan en hún ætlaði.

Í rúnalestri er Hagl merki um að erfiðleikar séu óhjákvæmilegir en að í þessu tilviki sé best að berjast ekki af krafti heldur að bryjna sig sem best og standa af sér hríðina. Rétt eins og haglél bítur erfiðleikahríðin svo undan svíður en hún gengur blessunarlega fljótt yfir.

Rún dagsins er Vend

Vend er happarúnin, sú sem vendir böli í gæfu og kallar fram gleði, skemmtun og nýjar hugmyndir. Vend er skemmtilegasta rúnin og í galdri er hún notuð til að bæta úr slæmu ástandi og kalla fram heppni sem hvetur mann til dáða. Ekkert illt hlýst af notkun hennar.

Í rúnalestri táknar Vend að erfiðleikaskeiði er að ljúka eða nýtt og skemmtilegt tímabil að hefjast. Einnig getur hún boðað óvænt happ fremur en varanlega gæfu. Spyrjandinn ætti að vera opinn fyrir þeim möguleika að happ sem í fyrstu virðist ómerkileg tilviljun sé fyrirboði um hrinu heppilegra tilviljana sem hann getur nýtt til góðs.

Rún dagsins er Gjöf

Gjöf er mesta gæfurúnin í norræna rúnarófinu. Í galdri er húr notuð til að kalla fram gæfu í hverskyns aðstæðum og sér í lagi í samskiptum. Gjöf er rún ástar, vináttu og þakklætis og alltaf er óhætt að nota hana í galdri því útilokað er að gera neitt illt með því hugarfari sem hún táknar.

Í rúnalestri táknar Gjöf að spyrjandinn á von á góðu. Hún getur falið í sér vísbendingu um að það sé spyrjandanum til mikillar gæfu að sýna örlæti og vinarhug. Þakklæti er einnig tengt rúninni. Í víkingasamfélaginu táknaði það gagnkvæma hollustu að færa einhverjum gjöf og er Gjöf einnig tákn giftingar og góðra viðskipta.

Rún dagsins er Kaun

Kaun er rún erfiðleika og sársauka. Í galdri er hún notuð til hefndar en eins og títt er um forneskju er hætt við að það bitni verst á norninni sjálfri og því mælt með að leita frekar annarra ráða til að jafna metin, sé þess þörf.

Í rúnalestri tákar Kaun að spyrjandinn geti búist við erfiðleikaskeiði þar sem reynir á þolgæði hans og vilja til að takast á við sjálfan sig. Kaun er tákn fæðingarhríða svo mundu að þótt sársaukinn geti virst óbærilegur verður engin fæðing án hríða. Heilmikill sköpunarkraftur er falinn í rúninni fyrir þann sem lærir af reynslunni.

Rún dagsins er Reið

Reið er rún ferðalaga og ævintýra. Í galdri er hún notuð til að finna ný og spennandi tækifæri og efla hugarflug og sköpunargleði. Eins er hún notuð til verndar í óvæntum og ískyggilegum aðstæðum. Reið er engin stöðugleikarún og varfærni er þörf við notkun hennar.

Í rúnalestri táknar Reið að spennandi tímar séu framundan. Allt getur gerst, svo það hvernig til tekst og hvaða þætti þarf að varast er komið undir því hvaða rúnir koma upp með henni. Reið gefur engin fyrirheit um að ferðalagið verði auðvelt en víst er að spyrjandanum mun ekki leiðast á þeirri ferð.