Elgur er varnarrún sem táknar hin stóru horn elgsins. Elgur er allra rúna nytsamlegust því hún er mögnunarrún og er notuð í galdri til þess að magna áhrif annarra rúna og á næstum alltaf vel við. Hún er notuð til að verjast árás eða illum hug og er vinsæl sem verndargripur.
Í rúnalestri táknar Elgur að spyrjandinn hefur alla burði til að verjast erfiðleikum og árásum. Hann er hugrakkari en hann heldur og þarf bara að taka fyrsta skrefið, eftir það verður allt auðveldara. Þegar rúnin kemur upp með öðrum rúnum táknar hún aukin áhrif þeirra þátta sem gæfurúnir standa fyrir og vörn gegn bölrúnum.